17.6.2008 | 00:49
Hvítabjörn í mínum húsum
Í gamla daga vöknuðum við systkinin snemma á sautjándanum til að missa ekki af blómabílnum.
Þá var til siðs hér á Akureyri að skreyta biksvartan kistubíl bæjarins litríkum plöntum. Hann ók svo um göturnar og benti með skrúði sínu á að komin væri þjóðhátíð.
Nú er kistubíllinn löngu hættur að reka bæjarbúa úr rekkju á þjóðhátíðarmorgni.
Annað mun draga okkur heimilisfólkið úr rúmunum í fyrramálið. Einkasonurinn er að útskrifast úr Menntaskólanum á Akureyri. Athöfnin byrjar eldsnemma.
Að vísu á eftir að koma í ljós hvernig móðurinni gengur að vakna því þegar þessar línur eru skrifaðar er hún að dansa niðri í höll og óvíst hvenær hún kemur heim. Hún er 25 ára stúdent og hefur verið að fagna því undanfarna daga.
Ég er hafður heima til að verja heimilið ágangi því þar er allt til reiðu fyrir útskriftarveislu. Það síðasta sem ég gerði áður en ég settist að bloggi var að þrífa klósettið.
Það var nú hápunktur kvöldsins hjá mér - ef frá er talin frekar dauf viðureign Þjóðverja og Austuríkismanna á EM.
Sonurinn er nýbyrjaður í sumarvinnunni. Hann er lögreglumaður á Sauðárkróki. Rétt áður en hann tók til starfa birtist ísbjörn í umdæminu og hann missti af honum.
Hann missir sennilega líka af ísbirni númer tvö vegna útskriftarinnar og nagar sig í handarbökin út af því.
Auðvitað er miklu meira spennandi fyrir unga lögreglumenn að berjast við hvítabirni en að skrifa stöðumælasektir á Króknum, taka stressaða Akureyringa fyrir of hraðan akstur eða eiga við góðglaða skagfirska hestamenn.
Þess má geta að sonur minn heitir því ágæta nafni Björn.
Á morgun fær hann húfu með hvítum kolli og verður því sjálfur eins konar hvítabjörn sem hugsanlega eru honum einhverjar sárabætur.
Ég óska honum til hamingju með áfangann.
Kærastan hans, elskuleg Lára Dagný frá Kópaskeri, verður líka stúdent og fær sömu óskir.
Athugasemdir
Til hamingju með drenginn ykkar :)
En leiðinlegt að hann skyldi missa af birninum, hann Björn
alva (IP-tala skráð) 17.6.2008 kl. 00:51
haha, gaman af þessu,en innilega til hamingju með soninn, frúna og kærustu stráksa og gleðilega þjóðhátíð!
Magnús Geir Guðmundsson, 17.6.2008 kl. 03:19
... til hamingju með daginn... stór dagur hjá ykkur...
Brattur, 17.6.2008 kl. 11:07
Til hamingju þið öll elskurnar. Með beztu kveðju.
Bumba, 17.6.2008 kl. 16:16
Til lukku með Björn Inga. Ótrúlegt hvað svona litlir frændur stækka hratt og ég enn svona ung!!!???!! Sá svo sæta mynd af honum og Láru Dagný í Akureyrarferðinni minni um daginn hjá stoltum afa og ömmu.
Bið að heilsa norður.
Margrét Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 17.6.2008 kl. 18:20
Innilegar hamingjuóskir til ykkar allra.Kær kveðja.
Óskar Aðalgeir Óskarsson, 17.6.2008 kl. 22:20
Kæri Svavar mig langar til að óska ykkur til hamingju með soninn og kærustuna hans og óska þeim alls góðs í framtíðinni. Hann getur verið rólegur það koma fleiri birnir á land í Skagafirði sem hann getur örugglega nálgast hafi hann áhuga. Með bestu kveðju Ásgerður Einarsdóttir.
Ásgerður Einarsdóttir (IP-tala skráð) 17.6.2008 kl. 23:05
Var blómabíllinn líkbíll. Ég man eftir því að vörubíll var dubbaður upp og skreyttur og á pallinum var lúðrasveit. Gott ef þetta var ekki pissubíllinn og tankurinn tekinn af pallinum. Annars er þetta aukaatriði - Til hamingju með drenginn þinn og stúlkuna hans.
Þorsteinn G. Gunnarsson (IP-tala skráð) 18.6.2008 kl. 10:49
Til hamingju með soninn og frúnna!
Mikið er þetta annars skemmtilegur siður sem þú lýsir þarna. Er ekki ráð að endurvekja hann?
Soffía Valdimarsdóttir, 18.6.2008 kl. 14:55
Innilega til hamingju með einkasoninn og tilvonandi tengdadóttur. Ég er mjög spennt að hitta þennan unga lögreglumann. Að öllum líkindum verða góðglaðir hestamenn fleiri en hvítabirninir sem hann á eftir að fást við í sumar.
Sigríður Gunnarsdóttir, 18.6.2008 kl. 23:46
Hamingjuóskir til stórfjölskyldunnar með þennan þrefalda áfanga.
Gunnur B Ringsted, 19.6.2008 kl. 08:36
Þakka kærlega allar hamingjuóskirnar!
Steini: Vel má vera að blómabíllinn hafi líka verið vörubíll. Altént er ótrúlegt að hægt hafi verið að koma heilli lúðrasveit fyrir í líkbíl okkar Akureyringa þótt við séum stórtækir.
Svavar Alfreð Jónsson, 19.6.2008 kl. 09:56
Til hamingju með þitt fólk. Ég segi eins og Steini, mig minnir að þetta hafi verið vörubíll. Gott ef hann var ekki grænn.
Víðir Benediktsson, 19.6.2008 kl. 16:12
Innilega til hamingju með soninn og tengdadótturina tilvonandi. En ég trúi varla að konan þín sé 25 ára stúdent! Sú er ungleg! :)
Þorgerður (IP-tala skráð) 20.6.2008 kl. 00:27
Sæll Svavar! Ég þakka bara fyrir síðast og kveðjuna hér. Þetta var alveg frábær dagur, þið eruð öll svo yndisleg, stórfjölskyldan :)
Lára Dagný (IP-tala skráð) 22.6.2008 kl. 19:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.