20.6.2008 | 23:12
Vald
Vald er stórt, öflugt, tilkomumikið. Vald er eins og þungur foss. Það á sinn gný.
Við erum smá andspænis valdinu.
Vald er vandmeðfarið. Vald er misnotað. Vald spillir. Pólitískt vald, trúarlegt vald, auðvald.
Vald er hættulegt. Það sýnir saga mannsins.
Vald er hálfgert tabú. Fáir vilja kannast við að hafa það. Ekki síst þeir sem misbeita því.
Vald er samt ekki endilega slæmt. Ein merking valds er einfaldlega máttur.
Að vald-a einhverju þýðir að koma einhverju til leiðar, láta eitthvað gerast.
Valdið er ekki séreign ofbeldismannanna. Vald er ekki það sama og misnotkun þess.
Við erum undir alls konar völdum. Sjúklingurinn þegar hann fer að fyrirmælum læknisins, barnið þegar það hlýðir foreldrum sínum og hásetinn þegar hann gerir eins og skipstjórinn segir.
Við þurfum öll að beita valdi og beygja okkur undir það.
Vald er möguleiki á því að hafa áhrif - til góðs eða ills, blessunar eða bölvunar.
Valdið getur orðið viðbjóðslegt í meðförum þess sem nýtur þess að beita því.
Vald í höndum þess sem ekki veit af því eða neitar að kannast við það verður gjarnan stjórnlaust.
Athugasemdir
Svo er líka talað um alvaldið! Það er nú ekkert smáræðis vald. Alvald!
Sigurður Þór Guðjónsson, 21.6.2008 kl. 00:01
Vald er gæði, pósitíft gildi. Sjálfstæði og sjálfræði þjóðar, fullveldi hennar, þ.e. vald hennar yfir eigin málum, er gæði, ekki eitthvað til að formæla eða leggja í einelti með klisjutali. Vald foreldra er vald til góðs. Að því sé hægt að misbeita dæmir ekki vald sem slíkt, ekki frekar en klaufaskeina með aðgerðarhnífnum dæmir hnífinn.
Þú ert að benda hér á rétta hluti, Svavar. En menn eru fastir í farinu með að hugsa um misnotkun valds. Það teppir frjóa hugsun, sýnist mér. Misnotkun valds víða er einum of augljós til að benda þurfi á hana. Valdið er samt sem slíkt pósitíf gæði, máttur til góðra verka.
Einu valdi er aldrei misbeitt. Það er vald Guðs. – Ciao, fratre.
Jón Valur Jensson, 21.6.2008 kl. 01:26
Mér finnst eins og verið sé að einfalda hlutina með þessari upptalningu á ókostum valds. Það væri nú ekki slæmt að hafa vald til að ákveða góða hluti yfir samfélagið sitt. Reyndar finnst mér orðið eitt og sér neikvætt og spyr mig hvort ekki megi sleppa því nánast alveg. Nota t.d. áhrif foreldra á börn sín Hlýðni háseti þegar hann vinnur að ósk skipstjórans og /eða sjúklingurinn fer að fyrirmælum læknis. Að valda einhverju getur líka þýtt að ráða við eitthvað, geta eitthvað. Valdi Guðs verður e.t.v. ekki misbeitt enda óvíst hvort það er eitthvað annað en kraftur sem býr í hverjum og einum einstaklingi en mikil hefur misnotkunin verið á trúarvaldinu og ógninni af refsingum Guðs. Þú veldur mér heilabrotum með þessu umræðuefni. Er það gott eða slæmt. Í guðs friði kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 21.6.2008 kl. 10:37
Misbeiting valds er svo algeng og svo skelfilega meiðandi fyrir herskara fólks að það er skiljanlegt að það sé fólki ofarlega í huga og engin ástæða til annars en að nefna hllutina sínu réttu nöfnum.
Sigurður Þór Guðjónsson, 21.6.2008 kl. 13:00
Að sönnu, já, Sigurður, og ég dreg ekkert af mér við að gagnrýna misbeitingu valds. En hún má samt ekki blinda mönnum sýn á það, að vald í sjálfu sér er ekki illt, heldur tæki til góðs umfram allt, og það er verið að nota slíkt vald dag hvern á jákvæðan hátt á ýmsum stigum stjórnkerfis ríkisins og sveitarfélaga. Einveldi er hins vegar varhugavert, og það er mikilvægt að hafa stjórnarskrárbundnar takmarkanir við misbeitingu valds og að stjórnvöld þurfi að vera ábyrg fyrir bæði valdníðslu (aðrir geta nefnt hér dæmi) og röngum, óleyfilegum ákvörðunum (dæmi: sölu á hlut ríkisins í Aðalverktökum).
Jón Valur Jensson, 21.6.2008 kl. 21:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.