31.7.2008 | 00:43
Lifi hinar hrörlegu brýr!
Um daginn hitti ég vin minn niðri í bæ. Við höfðum ekki sést lengi. Okkur langaði mikið að tala saman. Við vissum bara ekki um hvað við ættum að tala.
Upphófust þreifingar. Við brugðum á það gamla ráð að tala um veðrið.
Þá var veðurlaust á Akureyri. Hvorki logn né vindur. Smá sól en annars ekki. Varla hlýtt en heldur ekki kalt.
Gjörsamlega karakterlaust veður sem ekki býður nema upp á gjörsamlega bragðlausar samræður.
Spjall okkar varð vandræðalegt. Við kímdum og glottum. Báðir vissu hvað hinn hugsaði. Samt héldum við samtalinu áfram. Okkur langaði að spjalla því við vorum vinir.
Það hafðist svo fyrir rest.
Ég hef að mestu hvílt mig á bókum í sumarfríinu. Þó örlítið nartað í sögulega skáldsögu. Endastöðin heitir hún, um síðasta æviár Tolstojs, eftir bandaríska rithöfundinn og fræðimanninn Jay Parini. Gyrðir Elíasson þýddi.
Ég hef mikið dálæti á Gyrði. Allt skrifar sá maður vel. Hann gæti gert innkaupalista að listaverki. (Sem þá yrði innkaupalistaverk.)
Í Endastöðinni rakst ég á lýsingu á bútum samtalsins áðurnefnda sem ég átti við vin minn niðri í bæ.
" - þetta var hrörleg brú sem lögð var yfir erfiðan stað á árstraumi samræðnanna."
Ég tek hatt minn ofan fyrir þeim sem slíkar brýr leggja.
Það er miklu betra en að standa öskrandi á bakkanum.
Athugasemdir
Komdu sæll frændi. Þetta er afskaplega rómantísk mynd af brúnni, hún má kannski muna fífil sinn fegurri. Minnir mig eiginlega á gamla þýzka ljóðaflokka eins og Die schöne Müllerin og fleira. Með beztu kveðju héðan úr mollunni í henni R.vík.
Bumba, 31.7.2008 kl. 09:22
Þessi setning er listaverk. Ætli þetta sé frá Gyrði komið eða ætli þetta sé þýðing?
Jón Ragnarsson, 31.7.2008 kl. 18:48
Hún er svo djúp þessi setning að ég þurfti að lesa hana margoft til að ná utan um merkinguna.
Jóna Á. Gísladóttir, 2.8.2008 kl. 14:52
Ég vil nú helst ekki tala um annað en veðrið! Hins vegar leiðast mér bækur Gyrðis og skil ekki í hvaða hávegum hann er hafður. Mér finnst eins og maður sé lokaður inni í litlu rými í bókum hans. Setningin er eignarfallsklúður með greini af því tagi sem Þórbergi var mest í nöp við: samræðnanna.
Sigurður Þór Guðjónsson, 2.8.2008 kl. 16:23
Þórbergur var ágætur. Talaði hann ekki um hin "rasssíðu eignarföll"? Ég er samt meiri Gyrðismaður og líður ágætlega ofan í olíufötum.
Svavar Alfreð Jónsson, 2.8.2008 kl. 21:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.