Bringukollur, þvottavélarhurð og önnur fádæmi

thvottavelHeldur hafa farir mínar verið ósléttar það sem af er árinu.

Í febrúar vorum við hjónin að fara á þorrablót. Ég hafði verið ósköp húslegur og þjóðlegur og tilreitt alls konar hnossgæti í bakkann okkar. Bjó til þessa fínu sviðasultu og sauð digra hrossasperðla svo nokkuð sé nefnt.

Þá tekur konan eftir því að enginn bringukollur er í bakkanum og ég býðst til að skjótast í búð og útvega hann. Bringukollinn fékk ég en hann reyndist örlagaríkur. Á heimleið úr bringukollabúðinni lenti ég í árekstri. Ég slapp ómeiddur en bíllinn eyðilagðist.

Ég kom með öðrum orðum bíllaus heim en með sjálfan mig ólaskaðan -og bringukollinn.

Skömmu síðar gaf þurrkarinn okkar upp öndina.

Í sumarbyrjun datt hurðin svo af þvottavélinni.

Ekki liðu nema nokkrar vikur þangað til að uppþvottavélin hætti að dæla út af sér vatninu. Handlaginn vinur minn hjálpaði mér við að blása stíflu úr slöngu en þá brá óhræsis apparatið á það ráð að neita að hita vatnið.

Við fengum ágætan bíl í stað þess sem varð bringukolli að bráð.

Og mér er sagt að Volvo-bílar séu mjög öruggir þegar bringukollar eru annars vegar.

Sumarið hefur verið óvenju þurrt hérna fyrir norðan og hefur gengið ágætlega að þurrka spjarirnar úti í golunni.

Mágkona mín elskuleg útvegaði okkur fyrirtaks þvottavél sem hún gat ekki notað. Við fengum hana á kostakjörum.

Komin er ný uppþvottavél á heimilið. Hún er bara með eitt prógramm og þótt heilinn í henni sé ekki flókinn er hann ekki viðkvæmur fyrir skyndilegum straumsveiflum.

Vélin heitir Svavar og er hann búinn uppþvottabursta úr Júróprís og þerrigrind úr Rúmfatalagernum.

Mórall sögunnar er:

Þetta reddast.

Nýja þvottavélin okkar er heldur nýrra módel en það sem er á myndinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

:-)

Steini (IP-tala skráð) 26.8.2008 kl. 15:44

2 identicon

Blessaður og sæll Svavar,  þú getur sagt að þú sért eina heimilistækið sem er ekki rafmagnsknúið ekki satt.

,

Bögga (IP-tala skráð) 26.8.2008 kl. 22:52

3 identicon

Gott að þú ert heill eftir bringukollasvaðilförina.

alva (IP-tala skráð) 27.8.2008 kl. 09:14

4 identicon

Sæll Séra, er ekki vön að kommenta hjá ókunnugum en stundum er gott fyrir sálatetrið að svona er lífið hjá fleirum en manni sjálfum, þar sem allt sem mögulega getur farið úrskeiðis, gerir það. Og þá er bara að leggjast í móann og grenja úr hlátri....Kveðja Elín

Elín (IP-tala skráð) 27.8.2008 kl. 13:57

5 Smámynd: Bumba

Sæll frændi. Ég hef mikinn áhuga á þessu tryllitæki sem myndin er af. Er að safna svona hlutum. Góði láttu mig vita ef þú rekst á gamlar þvottavélar sama í hverskonar ástandi þær eru í. Annars þakkir fyrir pistilinn. Ég er kominn á fullt hérna í Amsterdam, það er að segja Utrecht, og gengur allt að óskum. Kem norður í október og gamn væri að hittast þá. Með beztu kveðju.

Bumba, 28.8.2008 kl. 09:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband