28.8.2008 | 09:21
Húsavík
Í gær skaust ég á fund austur á Húsavík.
Það rigndi á leiðinni en hafði stytt upp þegar ég ók inn í bæinn. Flóinn var sléttur og fjöllin vestan hans tignarleg.
Mér þykir vænt um Húsavík og það er alltaf gaman að koma þangað. Bærinn er einn sá fallegasti á landinu.
Húsvíkingar eru stórhuga. Annað væri líka óviðeigandi í höfuðborg Þingeyjarsýslu. Þeir verka hreindýrakjet. Eiga reðursafn. Hvalasafn. Og flott byggðasafn. Hafa byggt upp mjög skemmtilegan ferðamannabæ og sýnt við það mikla hugkvæmni.
Lengi var besta héraðsfréttablað landsins gefið út á Húsavík. Ég þekki ekki Skarp, arftaka þess. Sé samt að meistari Jóhannes Sigurjónsson er með puttana í því. Það er góðs viti. Sá kann að handleika lyklaborð.
Fundurinn fór fram í gömlu og virðulegu húsi með merkilega sögu. Það stendur við hlið Húsavíkurkirkju, þeirrar bæjarprýði. Helga sóknarnefndarformaður á Húsavík sagði okkur að söfnuðurinn væri búinn að festa kaup á húsinu. Fyrirhugað væri að taka það í gegn og þar yrði í framtíðinni safnaðarheimili.
Ekki er hægt að saka Húsvíkinga um framtaksleysi eða skort á sjálfsbjargarviðleitni. Hvað þá hugmyndafátækt.
Þeir hafa reynt að þurrka harðvið með jarðhita. Létu þeir sér ekki líka detta í hug að rækta krókódíla?
Ég vona að áform um uppbyggingu atvinnulífs á Húsavík nái fram að ganga.
Áfram Húsavík!
(Myndin er tekin af heimasíðu Norðurþings.)
Athugasemdir
Áfram Húsavík
Hólmdís Hjartardóttir, 28.8.2008 kl. 11:35
Þar er fagurt hvaðan sem að er komið og þeir haldnir mikilli firru og fáfræði, sem láta sér detta það til hugar að Húsvíkingum sé ekki annt um bæinn sinn og náttúruna í kring um hann.
Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 28.8.2008 kl. 16:05
Ó já mín elsku Húsavík er falleg. Að sitja á skuldinni í góðu veðri, er eins og að vera í framandi borg. Iðandi ferðamannastemning og veðursæld. Að rúnta út að Einari Ben, eða taka göngutúr til hans, verður alltaf hluti af menningu Húsvíkinga, að leika sér upp við Botnsvatn, fylgir æskuminningum allra Húsvíkinga, Að stökkva fram af aðgerðinni, þegar skaflarnir eru háir, að skammast yfir helvítis lúpínunni í fjallinu, að skreppa í karið eftir ball...
Fer á laugardaginn á Gömlu vík
Aðalheiður Ámundadóttir, 28.8.2008 kl. 18:23
... og svo er höfnin alveg niður við sjó, eins og vinur minn frá Húsavík orðaði svo skemmtilega um árið...
Brattur, 28.8.2008 kl. 21:19
Víkin mín er falleg og þar var gott að alast upp. Ég hélt alltaf að allur heimurinn væri góður af því það var allt svo gott heima. Seinna komst ég að sannleikanum. En Víkin mín er alltaf falleg og yndislegt fólk sem þar býr. Kinnafjöllin eru engum fjöllum lík. Takk fyrir að skrifa svo fallega um bæinn.
Ásdís Sigurðardóttir, 28.8.2008 kl. 22:41
Við erum greinilega öll sammála um okkar ágætu Húsavík
Hólmdís Hjartardóttir, 29.8.2008 kl. 00:50
Okkur þykir greinilega öllum miðið til staðarins koma.....og afhverju skyldi það nú vera?
Hólmdís Hjartardóttir, 29.8.2008 kl. 00:51
Hún fóstraði okkur vel Hólmdís mín.
Megi hún ná að fóstra æskulýð sínn um alla framtíð jafnvel og hún fóstraði okkur.
Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 29.8.2008 kl. 11:35
Já Sigurjón það væsti ekki um okkur á hólnum
Hólmdís Hjartardóttir, 30.8.2008 kl. 01:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.