Bölvaðar séu tínurnar!

Fyrir nokkrum árum birtist leiðari í hinu stórmerka og svarfdælska héraðsblaði Norðurslóð. Þar er sagt:

Það er fátt sem nærir andann og sálina eins og að tína ber og ætti að skylda alla landsmenn til að tína minnst 10 lítra af berjum hvert haust en alls ekki með tínu. Það myndi fækka glæpum, umferðaróhöppum, veikindadögum og draga úr hverskyns ofneyslu í þjóðfélaginu.

Þetta er með skynsamlegri ritstjórnarskrifum sem ég hef augum barið og vel við hæfi að rifja þau upp núna.

Á haustin drögum við björg í bú. Menn arka á heiðar og skjóta fugla, skrokkar eru úrbeinaðir og hakkaðir, slátur tekin, saltað í tunnur og raðað í frystikistur.

Skriðið er um móa og ber lesin af lyngi og reytt af runnum. Saftflöskur og sultukrukkur standa í beinum röðum í búrhillum eins og herflokkar í liðskönnun.

En kapp er best með forsjá.

Mér hefur alltaf þótt það villimannslegar aðfarir að keyra gaddaskóflur ofan í berjaþúfur og moka í bala lyngi, kvistum, grænjöxlum, lambaspörðum - og hugsanlega einhverju af berjum. Þeir sem slíkt gera hafa hugann frekar við magn og afköst en gæði.

Þá er nú ólíkt menningarlegra að fara fimum fingrum um lyngið og velja úr því fullþroskuð gæðaber, þrungin sætum safa.

Hægt, yfirvegað og af nautn; það er flottasti stíllinn í berjamó.

Kallar sem ég þekkti einu sinni gerðu út lítinn bát. Þeir söltuðu um borð. Aflinn var aldrei mældur í kílóum hvað þá tonnum heldur fiskum.

Þeir fengu þetta og þetta marga fiska.

Þessir kallar fóru vel með fiskana sína. Saltinu var stráð á hvern og einn eins og sykri á lummu enda var allt metið í fyrsta flokk af þessum bát.

Ekki var nú óðagotið á þeim, blessuðum, unnið hægt og bítandi og góður tími tekinn í að fá sér í nefið.

Mikil lífsgæði eru fólgin í berjamóum landsins.

Þjóðin hefur ekki nema gott af því að skipta út lífsgæðakapphlaupinu í mollunum fyrir lífsgæðalötrið í þúfunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Verð að vera sammála Sigurði. Fór til berja á Selvogsheiði á dögunum og þar sem konan sagði mér að maður tíndi aldrei bláber með tínu var farið af stað með það en það entist ekki lengi, afköstin engin enda klaufskur með eindæmum, við þennan starfa allavega. Þá var gripið til tínunnar og þá fór að ganga undan kallinum ....ég yrði andskoti lengi að ná saman 10 kílóum allavega...

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 8.9.2008 kl. 11:10

2 Smámynd: Eyjólfur Sturlaugsson

Það jafnast ekkert á að dóla sér í berjamó...laus við tínu.  En ef maður er í berjamó í þeim erindagjörðum að draga sér björg í bú þá er ekkert vit í öðru en að vera með tínu.

Eyjólfur

Eyjólfur Sturlaugsson, 8.9.2008 kl. 21:54

3 Smámynd: Steingrímur Helgason

Hér útfirðiz á ströndinni þykir miður að týna sinni tínu, en við tínum líka ber í fötum, eee, talið.

& ekki sér nú högg á í Árskóginum....

Steingrímur Helgason, 9.9.2008 kl. 23:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband