14.9.2008 | 23:58
Rokkhljómsveit, hótelherbergi og viskí
Hrifnæmur tenór, stórskáld, spagettí og chianti; þetta er eldfim blanda sem getur haft svipuð áhrif og kokkteillinn alræmdi rokkhljómsveit, hótelherbergi og viskí.
Friðrik G. Olgeirsson skrifar aldeilis ágæta ævisögu Davíðs Stefánssonar, "Snert hörpu mína". Hún er á náttborðinu mínu núna.
Þar er saga af æsilegu partíi á heimili Davíðs.
Skáldið eldaði spagettí handa vini sínum Stefáni Íslandi. Davíð mun hafa verið snillingur í ítalskri matseld. Veitti hann chiantirauðvín með kræsingunum. Og sparaði það ekki.
Að beiðni Stefáns fer Davíð að lesa úr óbirtum ljóðum sínum. Stefán hrífst mjög af þeim og eykst hrifningin stig af stigi við hvert ljóð. Svo fer að hann þolir ekki lengur við af unaði og biður Davíð að hætta því annars fari hann að brjóta innanstokksmuni.
Davíð bauð honum að brjóta að vild en bað hann að láta bækurnar í friði. Í bók Friðriks segir:
Hann heldur áfram að lesa og Stefán æsist meira og meira. Á miðju gólfi stendur stórt og þungt eikarborð og skyndilega tekur Stefán stól og lemur honum á borðplötuna svo hann brotnar. Það fær ekki á Davíð sem les bara hærra en áður. Stefán lemur þá öðrum stól í borðið og brýtur hann líka. Þá hættir Davíð lestrinum og Stefán róast. En þegar hann fer úr veislunni góðu stendur stólfótur út í gegnum útidyrahurðina.
Myndin með færslunni er af vefsetrinu Hús skáldsins.
Athugasemdir
kæri vinur.
þakka þér fyrir skemmtileg skrif.kv adda
Adda bloggar, 15.9.2008 kl. 08:55
Var að lesa í bók Friðriks að Davíð flutti inn í Bjarkarstíginn 1944. Partíið mikla fór fram fimm árum áður. Þetta leiðréttist hér með.
Svavar Alfreð Jónsson, 15.9.2008 kl. 09:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.