15.10.2008 | 00:07
Gegn ofbeldi efnishyggjunnar
Ég hef verið að lesa ræðusafn Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Árið 1962 flutti hann ræðu í tilefni af aldarafmæli Akureyrarbæjar. Ég deili með ykkur tveimur köflum úr henni.
Það sem skáldið hafði að segja hinni hundrað ára gömlu Akureyri á erindi við Ísland okkar tíma og framtíðar.
Íslendingar hafa frá öndverðu numið það af reynslunni, að ofstjórn og einokun þrengja á alla lund kjör manna, rýra efni þeirra, frelsi og andlegan þroska. Þeir vita líka, að sú reisn er fánýt, sem hlýtur veg sinn af vindi og sjálfsþótta, ofbeldi og arðránum. Engum er að því sálubót að hafna guði sínum, tilbiðja sjálfan sig eða aðra mennska menn, gera stjórnmál að trúarbrögðum, valdbeitingu að lífsstefnu. Dagblöð og útvarp geta aldrei komið í stað helgra rita, tízkan aldrei fullnægt þeim, sem rækja vilja innstu köllun sína. Þess vegna vilja þjóð og bær, hér eftir sem hingað til, stuðla að menntun og menningu, sem auka manngildið, leysa úr læðingi gáfur og hæfileika hvers manns, svo að hann geri til sjálfs sín réttmætar kröfur, ræki köllun sína og skyldur við sjálfan sig og aðra. Slíkt er hin bezta vörn gegn ofbeldi efnishyggjunnar og öðru andlegu hirðuleysi...
...Hver kynslóð setur svip á bæinn, leggur sitt af mörkum honum til vaxtar og þroska. En það, sem fegrar hann mest, eru þó hvorki stórhýsi né turnar, heldur sjálft mannlífið, að ógleymdu umhverfinu, fjöllum og firði. Við þurfum hvorki sjónauka né löng ferðalög til þess að sjá tign náttúrunnar, undur skaparans. Þau birtast í hverju barnsauga, hverju blómi, hverjum fjallstindi og hlíðarvanga. Fegurð Eyjafjarðar er hafin yfir alla dóma. Hún er og verður. En handaverk mannanna vara tiltölulega skamma stund, timbrið fúnar, múrarnir hrynja, letrið máist af pappírunum, drambið hjaðnar eins og vatnsbóla. Sigur mannsins verður aldrei alger hérna megin grafar. En ef við getum samhæft getu vora þeim anda, er við vitum hollastan mannlegu lífi, styttist bilið milli hins vaxanda og fullkomna. Þá höfum við ekki til einskis lifað. Þá getum við af heilum hug þakkað forsjóninni arfahlut vorn, vorgróður og haustfölva, líf og dauða.
Athugasemdir
Er þetta ræðusafn til á bók? Ef svo er gætir þú sagt mér nafn hennar og ef ekki þá hvernig hægt er að nálgast ræðusafnið.
Takk
Björn
B (IP-tala skráð) 15.10.2008 kl. 09:02
Davíð Stefánsson, Mælt mál, Reykjavík 1963.
Svavar Alfreð Jónsson, 15.10.2008 kl. 09:05
Það kom í mig einhver vorfílingur lesandi þessi orð Davíðs. Og þá er tilganginum náð fyrir mína parta. Takk fyrir að benda á þessa fegurð.
"Fegurðin ein lifir ofar hverri kröfu" HKL. Ú Heimsljósi.
Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 15.10.2008 kl. 09:40
Þetta er mjög athyglisverðan pistill. Ég þekki þetta af eigin raun hvað hugurinn hefur mikil áhrif á líkamlegum verkjum.
Ég hef fundið þetta samband til dæmis við listsköpun.
Heidi Strand, 16.10.2008 kl. 14:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.