Ellin framtíð Íslands

unguroggamallGjarnan er þannig til orða tekið að æskan sé framtíð landsins.

Undir það má taka. En eins og ævinlega þegar tekið er undir eitthvað verður að gera það með fyrirvara. Sem stundum er kallað smáaletrið.

Elllin er nefnilega líka framtíð Íslands.

Sáuð þið ekki fréttir ríkissjónvarpsins í kvöld? Þar var meðal annars rætt við eldri borgara um kreppuna. Glæsilegar gamlar konur og flotta hrukkótta kalla.

Stundum heyrir maður ráðamenn segja að æskan sé svo ofboðslega efnileg. Þar hafa þeir á réttu að standa.

En gamla fólkið er líka efnilegt.

Sú þjóð á ekki nokkra einustu framtíð sem ekki kann að meta eldri kynslóðina. Sú þjóð er vonlaus sem telur sér trú um að hún hafi ekki þörf fyrir framlag öldunganna.

Og nota bene: Öldungur er virðingartitill.

Markaðssamfélagið hefur ekki haft mikið pláss fyrir þann hóp. Gamalt fólk er hætt að vinna. Það er ekkert nema kostnaðurinn. Ímigusturinn sem kapítalistasamfélagið hefur á gamla fólkinu sést vel í laununum sem það telur sig geta greitt þeim sem annast eldra fólk.

Nú hefur framvindan verið þannig að við þurfum að hlusta á gamla fólkið. Þau sem hafa lifað lengur en við.

Þetta fólk lifði af margar kreppur. Sumar mannskæðar. Það hefur kannski ekki hagfræðimenntun og margt af því kann ekki á tölvur.

En það býr yfir reynslu. Það kann að tækla hörmungar. Það á hugrekki og lífsspeki.

Ég heyrði sögu um gamlan mann. Dóttir hans vann í verðbréfabransanum. Fyrir nokkrum árum fékk hún pabba sinn til að leggja fimmtíuþúsundkall í einhvern sjóð. Kallinn tók þetta út af sparisjóðsbók sem hann hafði í náttborðsskúffunni til að eiga fyrir útför sinni.

Í vikunni kom dóttirin til gamla mannsins. Alveg niðurbrotin.

"Elsku pabbi minn," sagði hún. "Peningarnir sem þú settir í sjóðinn eru glataðir."

"Ósköp eru að heyra," sagði hann.

"Já, pabbi minn," sagði dóttirin, "þú ert búin að tapa hálfri milljón."

"Hvaðahvaða," svaraði hann, "ekki nema fimmtíuþúsund krónum."

"Nei," sagði hún, "fimmtíuþúsund krónurnar þínar voru orðnar að hálfri milljón!"

Þá þrykkti sá gamli hnefanum í borðið og sagði með þjósti:

"Vitleysan í þér! Ég setti ekki nema fimmtíuþúsund í sjóðinn og tapaði ekki nema fimmtíuþúsund!"

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Góð og lærdómsrík saga!

Greta Björg Úlfsdóttir, 18.10.2008 kl. 01:51

2 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Góður pistill, hafðu þökk fyrir.

Kveðja

Ari Guðmar Hallgrímsson, 18.10.2008 kl. 13:48

3 identicon

Mjög flott ábending. Um þetta er allt of lítið talað. Við sjálf ýtum undir þetta með því að ræða ekki hvað það er gjöfult að eldast. Segir ein sem er á hraðri leið inn í ellina. Ég segi hraðri leið vegna þess að tíminn líður svo hratt... Njótum augnabliksins sem kemur aldrei aftur......

Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 14:08

4 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Góð lesning :) .. reynslan er auður, en þó lítils virði ef hún er ekki nýtt

Hólmgeir Karlsson, 19.10.2008 kl. 14:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband