Þorskhausar

þorskhausarNýlega bloggaði ég örlítið um kreppukrásir. Eðlilega er landsmönnum tíðrætt um ódýran og góðan mat þegar harðnar á dalnum. Dorrit, forsetafrúin okkar, mun hafa komið inn á þetta í blaðaviðtali núna um helgina. Gott hjá henni. Auralaus þjóð þarf einhvern veginn að næra sig.

Skagfirðingar lögðu sitt til umræðunnar. Síðustu dagana hafa þeir vestur þar staðið fyrir átaki í hrossakjötsáti. Hestar eru herramannsmatur og engin neyð að leggja þá sér til munns. Það er iðulega gert á mínu heimili. Verðlaunafolar iðrunarlaust saxaðir í spað og borðaðir með brúnni sósu og kartöflustöppu eða kviðsíðar útigangsbikkjur fram reiddar sem gallóveisteikur.

Í dag rakst ég á frábæra grein eftir Guðmund Finnbogason. Þorskhausarnir og þjóðin heitir hún og birtist í bókinni Íslenskar úrvalsgreinar sem út kom árið 1976.

Þar víðfrægir Guðmundur þorskhausana, þá einstöku fæðutegund.

Guðmundur sér margt gott við þorskhausa. Þeir eru næringaríkir og kosta lítið. Höfundur færir ennfremur góð rök fyrir því að þorskhausaát sé beinlínis gáfuaukandi. Hefur eftir heimspekingnum Feuerbach að maðurinn sé það sem hann éti. Sá sem neytir heila þorsks eignast vit hans. Engum vafa sé undirorpið "að Íslendingar hafi orðið skáld og skýrleiksmenn á þorskhausaáti" eins og það er orðað í greininni.

Þeir sem borða þorskhausa eiga með öðrum orðum síður á hættu að verða þorskhausar en aðrir.

Ekki er nóg með að þorskhausar séu meinhollir, heldur Guðmundur áfram. Að borða þá útheimtir líka krafta því hertir þorskhausar flokkast til harðmetis. Hann vitnar í ameríska heilsufræðinga sem eiga ekki til orð að dásama slíkan mat. Það þjálfar kjálkavöðva að japla á þorskhausum, eflir tannstæði og tennur auk þess að örva rennsli munnvatns og meltingarvessa.

Sá sem venur sig á að borða þorskhausa þarf sjaldnar að leita til tannlækna en hinn, sem fúlsar við þessu sannkallaða heilsufæði. Einnig eru minni líkur á að hann þurfi að kaupa sér "tyllitennur", eins og Guðmundur kallar þær.

Þorskhausar hafa ekki einvörðungu gildi fyrir heilsu mannsins og hreysti. Þeir eru menningarlegt fyrirbæri og siðferðislega mikilvægir.

Hið siðferðislega mikilvægi þorskhausa er samkvæmt Guðmundi í því fólgið að sá sem nýtir þorskhausa til manneldis er ekki eyðslusamur. Hann hendir ekki því sem vel má hafa gagn af. Það ber vott um siðferðisstyrk og hátt menningarstig.

Menningarlegt gildi þorskhausanna sést meðal annars á þeim ótölulega fjölda af nöfnum sem gefin hafa verið vöðvum, beinum, brjóski, himnum og roði í þorskhausnum. Margt er skrýtið í kýrhausnum. Þorskhausinn er enn undarlegri. Hann geymir hvorki fleiri né færri en 150 nafngreind fyrirbæri.

Björn, kisa, hestur, hæna, sjómaður, kelling, nál, strokkur, lúsabarð, skollaskyrpa, Pétursangi og Maríusvunta eru dæmi þar um. Allt eru þetta heiti sem auðgað hafa íslenska tungu.

Það sem ekki mátti éta af og úr þorskhausnum var notað til annars. Eitt beinið þótti til dæmis fyrirtaks tannstöngull. Kvarnir voru hafðir í spilapeninga. Önnur bein urðu börnum að leikföngum. Og með hjálp himna úr þorskhausum spáðu menn í veður.

Þorskhausinn er því einn forveri hinnar virðulegu stofnunar Veðurstofu Íslands.

Fyrr á tíð ferðuðust menn langar leiðir til að ná sér í þorskhausa. Þorskhausar voru því hvati til samskipta milli héraða og vörn gegn einangrun og sérhyggju.

Þorskhausaát er göfug íþrótt. Það er alls ekki sama hvernig þorskhauss er neytt. Rífa verður hann niður með sérstökum hætti. Það útheimtir kunnáttu, ögun og fyrirhyggju að éta þorskhaus.

Þetta orðar höfundur snilldarlega:

Á þorskhausaátinu tömdu menn sér margs konar dyggðir - dyggðir, er telja má æðstu prýði og blóm sannrar menningar. Sá, sem rífur þorskhaus og etur, lifir í innilegu tilhugalífi við hann, unz síðasti bitinn er búinn. Hann verður að hafa fyrir hverri ögn, er hann fær, gera sig verðugan sælgætisins, sem falið er bak við roð og bein í fylgsnum haussins. Hann lærir að gleðjast við fyrirhöfnina, láta sér nægja lítið í senn og eta hvern munnbita með næmum smekk fyrir sérkennum hans og gildi.

Guðmundi Finnbogasyni þykir ekki mikið til nútímalegrar fæðu koma. Ekki ber hann þorskhausana saman við hamborgara og pítsur. Hann seilist ekki lengra í samjöfnuðinum en til rúgbrauðsins. Það fær víst nógu herfilega útreið.

Ef til vill skilst ágæti þeirrar menningar, er af þorskhausaáti sprettur, enn betur, ef vér berum hana saman við rúgbrauðsmenninguna, sem er að koma í hennar stað, og spyrjum: Hvaða hugsanir hefir rúgbrauðið vakið, hvaða orðum hefur það auðgað tunguna, hvaða íþróttir hefir það skapað, hvaða dyggðir hefir það glætt? Vér sjáum undir eins, að þarna er ekki um auðugan garð að gresja. Ég kann ekki að nefna nokkra hugsun, sem þakka megi rúgbrauði sérstaklega. Nöfn á því kann ég engin önnur en rúgbrauð og svo "þrumari", er bezt sýnir, hvert rúgbrauðsmenningin stefnir. Hvaða íþróttir spretta af rúgbrauðsáti? Engin svo ég viti. Hver maður getur frá upphafi vega tilgangslaust og blindandi úðað í sig rúgbrauði. Hvaða dyggðir spretta af rúgbrauðsáti? Ég veit enga, enda er það ekki von. Einn munnbitinn er öðrum líkur, sama í hvaða röð þeir eru etnir, ekkert fyrir þeim að hafa, ekkert, sem hvetur til að gera greinarmun góðs og ills.

Þarf frekari vitnanna við?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Freyr Arnórsson

Virkilega skemmtileg færsla hjá þér.

Freyr Arnórsson, 20.10.2008 kl. 00:46

2 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Séra Svavar!   Hefur þú farið nýlega um Leifsstöð í Keflavík.  Þar getur að líta stórskemmtilega lampaskerma sem gerðir eru úr fiskroði. EKki beint það sem ég vil hafa inni hjá mér, en skemmtilegt að sjá þetta. Kíktu á þessa lampa í fríhöfninni, þeir eru alveg rosalega áhugaverðir!  

Hälsningar från Stockholm

Baldur Gautur Baldursson, 21.10.2008 kl. 15:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband