2.11.2008 | 21:12
Lifi Ríkisútvarpið!
Í ljósi nýjustu hræringa á fjölmiðlamarkaði liggur fyrir að stórefla þarf Ríkisútvarpið.
Upp er komið berlúskonískt ástand í íslenskri fjölmiðlun.
Vinstri menn í veröldinni hafa beitt sér fyrir lögum um eignarhald á fjölmiðlum.
Þó ekki á Íslandi. Hér beita þeir sér gegn slíku.
Nokkrar spurningar lesendum mínum til umhugsunar:
Er rétt að tala um "frjálsa" fjölmiðla annars vegar og ríkismiðla hins vegar? Væri ekki réttara að skipta þeim í einkarekna og ríkisrekna?
Eða auðvaldsfjölmiðla og almenningsfjölmiðla?
Er ekki kominn tími til að hugsa yfirstjórn Ríkisútvarpsins upp á nýtt? Búa til raunverulegt þjóðarútvarp? T. d. með því að leggja af útvarpsráð í núverandi mynd. Það verði ekki flokkspólitískt bitbein. Allar fjöldahreyfingar þjóðarinnar tilnefni fólk í útvarpsráð.
Ég skil að einkareknu fjölmiðlarnir þurfa auglýsingar. En ef taka á Ríkisútvarpið út af þeim markaði er verið að skerða tekjur stofnunarinnar. Á að bæta Ríkisútvarpinu upp þá skerðingu? Hvernig? Er það raunsætt eins og ástandið í efnahagsmálum er núna?
Og verði Ríkisútvarpið fyrir skerðingu án þess að nokkuð komi á móti þýðir það þá ekki minni þjónustu?
Líta menn þannig á að auglýsingar séu aðeins tekjulind fyrir fjölmiðla? Enda þótt mikið sé skrumað í auglýsingum nútímans þjóna þær líka þeim tilgangi að upplýsa almenning. Þær eru þjónusta við almenning. Verður ekki alla vega ákveðinn þáttur þeirrar þjónustu að vera þjóðinni allri aðgengilegur án tillits til búsetu og efnahags?
Ríkisútvarpið hefur öryggishlutverk. Á þeim umbrotatímum sem við upplifum núna er mikilvægt að því sé gert kleift að rækja það hlutverk.
Það getur skipt sköpum.
Athugasemdir
Geturðu sagt mér hverjir það voru sem töluðu almennt gegn því að setja einhvers konar lög um eignarhald fjölmiðla en ekki bara gegn ákveðnum geðvonskukasts fjölmiðlalögum?
Óli Gneisti (IP-tala skráð) 2.11.2008 kl. 22:41
Sammála.
Víðir Benediktsson, 2.11.2008 kl. 22:44
Óli, frjálshyggjumenn voru og eru á móti slíkum lögum og þegar fjölmiðlafrumvarpið kom fram á sínum tíma heyrði ég marga vinstri menn halda því fram að þeir væru ekki einungis á móti þessum "geðvonskulögum" eins og þú kallar þau, heldur efuðust þeir um að þörf væri á setja lög um eignarhald á fjölmiðlum. Samkeppnislögin dygðu. Þú getur prófað að gúggla umræðuna. En mér finnst besta sönnunin þessi: Ein rök gegn gömlu geðvonskulögunum voru þau að ekki hefði farið fram nein umræða um málið. Hafa þeir sem sárast söknuðu umræðunnar látið hana fara fram? Nei. Af hverju? Ég held að áhuginn sé einfaldlega enginn.
Svavar Alfreð Jónsson, 2.11.2008 kl. 23:24
Svarar þetta er hárrétt afstaða hjá þér varðandi fjölmiðlamálið. Auðvitað voru það vinstri menn sem voru á móti því og það var aðallega til að klekkja á ríkisstjórninni og þó sérstaklega Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni. Ólafur Ragnar Grímsson tók síðan þátt í samsærinu, enda vann dóttir hans hjá samsteypunni á þessum tíma og ef mig minnir rétt einnig maður Ingibjargar Sólrúnar.
Ég er hins vegar ekki hrifinn af því að einhver hagsmunasamtök skipuðu fulltrúa í stjórn RÚV. Ég á sæti í stjórn BSRB og veit hvaða flokksskírteini fulltrúar þess sambands hefðu upp á vasann og sömu sögu er að segja um ASÍ og Öryrkjabandalagið. Sjálfstæðismenn hafa alltaf átt undir högg að sækja innan þessara samtaka og það mun aldrei breytast.
Vinnuveitendur myndu þá eflaust einnig skipa fulltrúa. Ég held að það fyrirkomulag, sem við höfum sé ágætt.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 3.11.2008 kl. 15:24
Ég er langþreyttur á þessari DO versus ÓRG hugsun í íslenskum stjórnmálum. Er nú ekki tímabært að fara að hugsa um málefni frekar en menn og flokka? Mér er nokk sama hvar í flokki fulltrúi BSRB í útvarpsráði væri. Sé hann fulltrúi sinna samtaka á hann að vera það en ekki flokksins síns.
Svavar Alfreð Jónsson, 3.11.2008 kl. 15:45
Ef Geir þorir ekki að reka DO, hvað á þá að gera?þ Ingbjörg Sólrún dauðlangar að verða forsætisráðherra...svo hvað er málið?
Óskar Arnórsson, 4.11.2008 kl. 09:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.