4.11.2008 | 14:24
Nú þarf særingar
Kvak okkar prestanna um góðmennsku, samstöðu og fyrirgefningu í kreppunni fer í taugarnar á mörgum.
Ég get sosum skilið það. Þó er held ég aldrei brýnna fyrir þjóðina að standa saman en þegar á móti blæs.
Spurningin er kannski um hvað samstaðan eigi að vera?
Nú eiga margir um sárt að binda. Þess vegna er líka ástæða til að hvetja fólk til að sýna hvert öðru umhyggju og kærleika.
Og þegar fram líða stundir kemur að tíma fyrirgefningarinnar. Hún er nauðsynleg.
Í heimi trúarinnar kemur iðrunin á undan fyrirgefningunni; viðurkenning sektar og sá ásetningur að snúa af rangri braut.
Mér sýnist á öllu að ekki fari nú mikið fyrir iðrun í okkar samfélagi. Frekar að hver bendi á annan. En iðrunin á kannski eftir að koma og þá má vænta þess að henni fylgi einlægur og marktækur vilji til að snúa af rangri braut.
Og þá er ferli fyrirgefningar og sáttargjörðar byrjað.
Á máli trúarinnar er heldur aldrei hægt að tala um uppbyggingu án þess að fram hafi farið niðurrif. Áður en það góða og uppbyggilega getur komist að verður að reka burt það vonda og skaðlega.
Særa verður burt illu andana áður en andanum góða er blásið inn, reyta illgresið áður en góðplöntur eru gróðursettar, spóla burt skemmdina áður en tönninn er fyllt.
Við afneitum djöflinum og öllu hans athæfi og öllum hans verkum áður en við játumst því góða.
Við skulum standa saman. Sýna hvert öðru umhyggju og nærgætni. Þeir sem sök finna viðurkenni hana.
En við getum ekki búist við því að hér fari fram nokkur uppbygging eða sáttargjörð ef við heykjumst á því að særa burt illu andana.
Athugasemdir
Gætirðu bent mér á einhvern sem hefur látið kvak presta um "góðmennsku" fara í taugarnar á sér.
Finnst þér ekki líka að "samstaða" þurfi að vera fyrir alla? Líka þá sem ekki aðhyllast kristna trú.
Ég veit nefnilega að sumir sem ykkur andmæla gera það á þeim forsendum að prestar prédika yfir fólki út frá ákveðnu sjónarhorni. Þið talið semsagt ekki til allra en talið samt í umboði allra eins og staðan er í dag.
En fyrirgefðu, eflaust er þar til alltof mikils mælst að þú reynir að skilja sjónarmið þeirra sem andmæla þér og ríkiskirkjunni þinni.
Matthías Ásgeirsson, 4.11.2008 kl. 14:36
Það er líka tími til þess að taka 6000 milljónir sem fara árlega í ríkiskirkju... og svo fyrir ríkiskirkju að iðrast þess að hún er ekkert nema peningamaskína, peningamaskína sem gengur það langt að breyta óbreytanlegu orði guðs síns svo hún hneyksli ekki fólk og geti haldið áfram að vera á ríkisspenanum.
Djöfulinn og guð eru ekki til... uppfinning kufla og ekkert annað, það er mjög óhollt mannskepnunni að taka boðskap sem fríar hana ábyrgð á eigin gjörðum.. sem og tekur í burtu frá manneskjunni það góða sem hún gerir og eignar galdrakarli í geimnum.
P.S. Hvað gerir guð þinn við mig.. ekki fyrirgefur hann mér fyrir að dýrka hann ekki, hann hótar að pynta mig að eilífu.
Þetta er einstefnu fyrirgefning hjá þessum guði þínum..
DoctorE (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 15:43
Æ,æ! Komu vargarnir úr neðra inn í umræðuna. Mikil er vanlíðan þeirra, hljóp einhver púki í þá?
En að öllu gamni slepptu, þá upplifi ég þessa umhyggju" umræðu þannig að það megi ekki taka í hnakkadrambið á þeim afbrotamönnum sem settu þjóðina í það skuldafen sem hún stendur nú frami fyrir.
Það er engin lausn í þessu máli án uppgjörs og greiðslu skuldar.
Hér er ein spurning:
Ef ég veld öðrum aðila tjóni, má þá búa þannig um hnútana að þriðja aðila sé sendur reikningurinn? Svarið er vitaskuld nei. Það er þó að verða sú niðurstaða þeirra sem fara með málefni þjóðarinnar. Við fáum reikninginn.
Í dag er kærleiksumræðan og vinarþelið á þannig nótum að það er eins og það eigi að slá ryki í augu fólks og einhvernvegin deyfa þjóðina gagnvart réttlátri reiði í garð þeirra sem eru að setja okkur í þrot.
Umburðarlyndinu verður að fylgja krafa um réttlæti svo aðrir líði ekki fyrir ranglæti þess sem veldur.
DanTh, 4.11.2008 kl. 16:47
Ótímabær fyrirgefning er verri en engin. Hún er ósönn og þar af leiðand fölsk, og gerir ekkert annað en að þvælast fyrir þeim sem er "gert" eða ætlast til að fyrirgefa þeim sem hefur brotið af sér. Og til viðbótar getur fölsk fyrirgefning valdið þolandanum ómældu andlegu álagi - að vera svo vond manneskja að geta ekki fyrirgefið. Farið varlega með fyrirgefninguna.
Halldóra Halldórsdóttir, 4.11.2008 kl. 16:50
Segðu mér Svavar, er það rétt skilið hjá mér, að ef þeir pótintátar sem ábyrgir eru fyrir gjaldþroti komandi kynslóða, mæta hjá þér fullir iðrunar, þá ekki einasta hljóti þeir fyrirgefningu þína, heldur einnig loforð um eilífðarvist í Himnaríki, séu þeir réttilega kristnir?
Ég er nefnilega svo illa versaður í þessum biflífræðum...
Jóhann (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 18:30
Jóhann, sértu að spyrja um mína persónulegu fyrirgefningu, þá held ég að betra sé að fyrirgefa, þótt það geti verið erfitt, en að lifa í reiði, hatri og beiskju. Og ég trúi því að Guð fyrirgefi þeim sem í raun og veru iðrast.
Þar með er ég ekki að segja að menn beri ekki ábyrgð á gjörðum sínum. Þótt menn sættist við mig og þig prívat og persónulega eða Guð sinn þurfa þeir engu að síður að taka afleiðingum gerða sinna, lögbrota eða embættisafglapa. Fyrirgefning er ekki lögfræðilegt hugtak.
Svavar Alfreð Jónsson, 4.11.2008 kl. 20:17
Neyðarkall frá Nígeríu ,glapamenn þar hafa hópast í áfalahjálp,því á ‚Íslandi ER ofurjarlar þeirra ,og þeir sem ungbörn ,blautir bakk við eyrun miða við þessa snillinga hér,jarmvell Munkhásin ,snýst sem skopparakringla í gröfinni yfir ósköpunum
ADOLF (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 20:31
Nei Svavar.
Ég var ekki að spyrja um þína persónulegu fyrirgefningu. (ég efast ekki um að þú sért mildur maður)
Enda stígur þú ekki fram hér, sem sá sem er "pesónulega" fær um að fyrirgefa eitt eða annað í fari meðbræðra þinna. (Og að sjálfsögðu er betra að fyrirgefa en að lifa í reiði.)
Þú ert hér sem fulltrúi kirkjunnar, og sem slíkur áréttar þú mikilvægi fyrirgefningar allra manna í nafni guðs þíns, ekki satt?
Spurning mín er upprunnin frá þeirri forsendu þinni.
Má vera að þú sért e.k. "umboðsmaður" Guðs kristinna manna og fær um að líkna mönnum. Guð má vita það...
En það er náttúrulega allt önnur spurning. Og þú átt eftir að svara mér...
Það er nefnilega ekki rétt hjá þér (hafi ég skilið biflíuna) að menn þurfi nauðsynlega að taka afleiðingum gjörða sinna. Þeim nægir einfaldlega að að iðrast, ekki satt?
Jóhann (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 20:37
Góður séra minn . . . . og láttu endilega til þín taka á þessum nótum.
Hvernig væri líka að birta predikun síðasta sunnudags - - - þar byrjaðir þú mjög öflulega . . . . .
Kv.
Bensi
Benedikt Sigurðarson, 4.11.2008 kl. 21:13
Kæri Jóhann, ég geri mér grein fyrir að oft eru skilin óljós milli embættis og persónu en hér tala ég sem einstaklingur.
Við erum sennilega ósammála um það hvað Biblían boðar í þessum efnum.
Svavar Alfreð Jónsson, 4.11.2008 kl. 21:15
Þakka þér fyrir að ávarpa mig "kæri". Það eru ekki margir sem gera það.
Ef þú tala r hér sem einstaklingur, þá segi ég bara amen eftir efninu. Ævinlega skyldum við vera reiðubúin að fyrirgefa misgjörðir gagnvart okkur.
En þú ert samt prestur...
Og talar ekki hér sem slíkur?
Jóhann (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 21:29
Jú, ég er prestur og ég geri mér grein fyrir að erfitt getur verið að greina á milli embættismannsins og einstaklingsins.
Vinur minn einn er kennari og hann bloggar. Atvinna hans og menntun sést vel í sumu af því sem hann skrifar.
Ætli hann bloggi í nafni skólans síns?
Svavar Alfreð Jónsson, 4.11.2008 kl. 21:38
Nú jæja, ef þú vilt leggja þetta tvennt að jöfnu, þá kæri ég mig ekki lengur að eiga við þig orðastað.
Þú veist ástæðuna.
Jóhann (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 21:41
Segðu mér nú: Hvað felst í fyrirgefningu? Ef mér finnst einhver hafa gert mér mikið rangt get ég þá bara smelt fingrum og sagt: Ég fyrirgef þér. Ég held að fyrirgefning sé ekki einfalt mál og reynsla mín af lífinu segir mér að raunveruleg fyrirgefning sé eitthvað það sjaldgæfasta sem til er. Eitt er víst: Fyrirgefning er ekki orð sem er bara sagt. Mér finnst Halldóra segja hér ýmislegt af viti.
Sigurður Þór Guðjónsson, 5.11.2008 kl. 01:11
Kannski væri fólk sáttara við verklegri nálgun prestanna og að þeir gerðu gæskuverk sín í hljóði og auðmýkt eins og maðurinn í sandölunum bauð.
Bara pæling. Ég efast ekkert um að ykkar er þörf nú. Látið vita að þið séuð til viðtals. Heimsækið bugaða, hjálpið fólki í örvinglan og setjið ykkur jafnvel í samvinnutengsl við ráðgjafaþjónustur í fjármálum einstaklinga, geðhjálp og sálfræðihjálp. Verið miðlarar og leiðbeinendur um völundarhús úrræða og fókuserið kannski minna á að fjasa um guðsorðið í stað þess að akta samkvæmt því og veita verga hjálp.
Í fullri vinsemd og einlægni.
Jón Steinar Ragnarsson, 5.11.2008 kl. 02:15
Halldóra hittir naglann á höfuðið, Sigurður. Fyrirgefning er ferli. Getur tekið tíma og það þarf að gefa henni tíma. Og iðrun þess sem hana þiggur flýtir fyrir fyrirgefningu og auðveldar hana; er jafnvel forsenda hennar.
Þakka innilega hollráð þín, Jón Steinar.
Svavar Alfreð Jónsson, 5.11.2008 kl. 08:28
Svona tal er gersamlega út í hött, enginn hefur tekið á sig neina sök, sömu auðmenn eiga enn allt og virðst ríkari en nokkru sinni fyrr. Sama ríkisstjórn situr ennþá, og ekki er hægt að útiloka að lykilmenn tengist beint eða óbeint inn í þessa klikkuðu græðgi og spillingu, sem hefur eyðilagt Ísland.
NÚNA Á AÐ FINNA SÖKUDÓLGA OG TAKMARKA TJÓNIÐ, því þeir eru enn að.
Ólafur Jónsson, 5.11.2008 kl. 10:07
Sæll aftur Svavar og þið öll.
Líkast til heyrir það til míns friðar að biðjast fyrirgefningar á fljótfærnislegum ávirðingum mínum. En "sont er livet" í lífsins ólgusjó.
Ég hef þegar sagt að fyrirgefning, er vitnisburður um eiginleika manna, sem ættu að vera öllum eftirsóknarverð; nefnilega að teljast vera góðir menn.
Athugasemd mín varðandi þetta innlegg þitt hér Svavar fólst í að mér þótti þú ekki gera nægan greinarmun á himnaríkisvistun manna í ljósi átrúnaðar þíns, og hinu að þú sem einstaklingur leggur rækt við mikilvægi þess að fyrirgefa öðrum.
Sigurður Þór kemur hér með sína nálgun á fyrirgefninguna. Ég vona að sem flestir geri sér grein fyrir því að reynsla hans er eitthvað sem við hin getum bara þakkað fyrir að þekkja ekki.
Í því felst líka vandi okkar hinna; við getum ekki leyft okkur að stíga fram með klisjur trúarbragða.
Þegar við leyfum okkur að halda einhverju fram sem einstaklingar, þá getum við einvörðungu vonast til að geta sýnt okkar samferðamönnum, að hlutskipti þeirra, skiptir okkur máli.
Það gerum við ekki með klisjum..
P.S. Ekki er sjáanleg nokkur iðrun þeirra sem steypt hafa börnum okkar í e.k. glötun...
Jóhann (IP-tala skráð) 5.11.2008 kl. 21:01
Ágæti Jóhann. Með pistli mínum vildi ég einmitt sýna fram á að fyrirgefningin í heimi trúarinnar er engin "klisja". Hún hefur að forsendu iðrun og iðrun er m. a. fólgin í viðurkenningu sektar og vilja til að snúa af réttri braut. Fyrirgefning milli manna verður að minni hyggju að hafa sömu forsendur.
Í pistlinum bendi ég á að mér finnst ekki mikið fara fyrir iðrun í samfélaginu vegna þeirra hörmunga sem yfir okkur hafa dunið að undanförnu. Menn neita þvert á móti að kannast við sekt sína og bendir hver á annan.
Ég tek undir lokaorð síðustu athugasemdar þinnar, Jóhann. Það er ekki fyrr en iðrunin kemur fram að hægt er að tala um að ferli fyrirgefningar og sáttargjörðar byrji.
Nú er ég að endurtaka það sem ég skrifaði í pistlinum. Ef til vill hefur það ekki verið nógu skýrt hjá mér - og ef til vill ættir þú að lesa hann aftur.
Svavar Alfreð Jónsson, 5.11.2008 kl. 21:36
Meinleg villa hér að ofan: "...snúa af réttri braut" á að sjálfsögðu að vera "snúa af rangri braut".
Svavar Alfreð Jónsson, 5.11.2008 kl. 21:38
Það hefur semsagt enginn látið kvak presta um "góðmennsku" fara í taugarnar á sér. Væri ekki rétt að taka þá fullyrðingu til baka.
Matthías Ásgeirsson, 6.11.2008 kl. 12:00
"Prestar og aðrir vitringar sem tóku ekki þátt í neyslufylliríi þjóðarinnar en aka samt um á margra milljóna króna jeppum minna þjóðina á að nú sé tími sannleikans runninn upp, nú höfum við foreldrar loks tækifæri til að sinna fjölskyldum okkar, hugsa um börnin okkar, sýna umhyggjusemi og kærleika, spara eins og við lifandi getum. Stjórnvöld og fjölmiðlar taka undir orð þeirra.
Hvern fjandann halda þau að við höfum verið að gera undanfarin ár?"
Kristín Marja Baldursdóttir í Morgunblaðsgrein 29. 10. 2008
En gott að kvakið fer ekki í taugarnar á þér, Matthías.
Svavar Alfreð Jónsson, 6.11.2008 kl. 12:56
Er þessi eina grein nóg til að þú dylgjir um að margir láti tal ykkar um "góðmennsku" fara í taugarnar á sér.
Það er aldeilis.
Það sem Kristín er augljóslega að benda á er að þetta sem hún telur upp hefur ekkert skort hingað til.
Auk þess held ég að Kristín telji að prestar séu að setja sig á ansi háan hest - en ég get náttúrlega ekki talað fyrir Kristínu. En það er gott að hún er margra manna maki.
Matthías Ásgeirsson, 6.11.2008 kl. 16:05
Það væri kannski að æra óstöðugan að elta frekar ólar við þetta innlegg þitt.
Ég var ekki að halda fram að iðrun væri forsenda fyrirgefningar. Það er þín skoðun, hvort heldur er sem einstaklings eða klerks.
Ég var að spyrja í hvaða gervi þú kæmir hér fram. (Og ég er læs).
Þvert á móti eru til margvísleg dæmi um þolendur sem hafa fundið sína fyrirgefningu gagnvart níðingum. Án iðrunar níðinganna.
Þeirra er náðin.
Jóhann (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 19:52
Jóhann, í pistlinum bendi ég á að í heimi trúarinnar kemur fyrirgefning í kjölfar iðrunar. Ég bendi líka á að ekki fari mikið fyrir iðrun í núverandi þjóðfélagsaðstæðum. Það er mín skoðun að ferli fyrirgefningar og sátta geti ekki hafist hér fyrr en raunveruleg iðrun sést. Þetta getur lesið í pistlinum enda læs maður.
Ég kem ekki fram í neinu gervi hérna heldur undir fullu nafni.
Hér er ég að nýta stjórnarskrárbundin réttindi mín að hafa skoðanir, sem einstaklingur, og tjá þær.
Svavar Alfreð Jónsson, 6.11.2008 kl. 20:12
Þú áttar þig vonandi á því að ég hef engar athugsemdir uppi um tengsl iðrunar og fyrirgefningar. Þau eru vitanlega til staðar.
Ég var að spyrja þig hvort fyrirgefningin væri af þeirri stærðargráðu sem gerir níðingum kleift að öðlast aðgang að himnaríki. Samkvæmt þinni trú.
Ef svo er, þá stígur þú hér fram, ekki sem einstaklingur, heldur sem embættismaður með sjálfskipaða prókúru á náð.
Sem sumum gæti þótt athugunarvert. T.d mér...
Jóhann (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 20:18
Jóhann, það er ekki mitt að hleypa fólki inn í himnaríki en ég held að jafnvel níðingar geti iðrast, horfið af rangri braut og byrjað nýtt líf með Guðs hjálp og góðra manna.
Það er mín trú og mína trú hef ég sem einstaklingur en ekki sem embættismaður.
Svavar Alfreð Jónsson, 6.11.2008 kl. 20:25
Nú jæja, þá er reyndin sú: þú hefur þína trú sem einstaklingur, en ekki sem embættismaður.
Megi guð láta á gott vísa...
En hver ertu þá sem embættismaður?
Jóhann (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 21:16
Sigurður Þór kemur hér með sína nálgun á fyrirgefninguna. Ég vona að sem flestir geri sér grein fyrir því að reynsla hans er eitthvað sem við hin getum bara þakkað fyrir að þekkja ekki.
Þetta segir Jóhann. Reynsla mín af mannlífinu er svipuð og annara. Ég held bara með Freud og fleiri góðum mönnum að við þykjumst oft vera betri en við erum, ekki af óheilindum heldur skorti af innsæ í sjálfa sig, menn halda að þeir hafi fyrirgefið þó þeir séu enn sárir og reiðir inni í sér.
Sigurður Þór Guðjónsson, 7.11.2008 kl. 01:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.