Þjóðarrógi svarað

Arngrimur_laerdi[1]Gories Peerse hét maður. Hann orti níðkvæði um Ísland og Íslendinga á lágþýsku. Það birtist árið 1561.

Á þeim tíma var Íslendingum annt um ímynd þjóðarinnar. Guðbrandur Hólabiskup var mikill bókagerðarmaður. Hann fékk frænda sinn, Arngrím Jónsson hinn lærða, til að semja ritið Brevis comentarius Islandia. Þar var mishermi um Ísland leiðrétt og spjótunum einkum beint að rógi Peerse. Rit Arngríms var prentað árið 1593 þannig að menn voru ekki að flana að neinu í ímyndarbransanum þá.

Áður fyrr þótti það nokkuð sport í útlöndum að segja alls konar tröllasögur af Íslandi; Hekla var helvíti sjálft, sauðfé svo vænt að það kafnaði í eigin fitu, þjóðin byggði sér kofa úr fiskbeinum og lokkaði til sín veiðidýr með hljóðfæraleik. 

Góðborgarar heimsins hrylltu sig af viðbjóði þegar þeir heyrðu um sóðaskap Íslendinga og saurlífi.

Þetta leiddist Íslendingum og árið 1609 sendi Arngrímur lærði frá sér annað rit um Ísland. Nefndi hann það Crymogæa. Það er gríska heitið á Íslandi. Crymogæa er höfuðrit Arngríms og merkileg landkynning.

Ekki var þó ímyndarstríðinu lokið. Fjórtán árum eftir að hinn þýski Peerse níddi landann gangsetti Dithmar nokkur Blefken mykjudreifara sinn til höfuðs Fróni. Jón Helgason, en frá honum hef ég þennan fróðleik, segir Blefken þann mann sem mestu hefur logið á Ísland.

Blefken segist hafa dvalið hér tvo vetur en það mun lygi eins og annað úr hans penna. Hann var slíkur lygari að trúlega hefur hans eigin tilvera verið uppspuni, alla vega undir því nafni sem hann gaf sér.

Eitt telja menn þó víst: Blefken þessi mun hafa þénað duglega á lygaþvættingi sínum um landið.

Hér á landi brugðust menn hart við bók Blefkens. Teiknuð var af honum skopmynd. Segja sumir að höfundur hennar hafi verið sjálfur Hólabiskupinn Guðbrandur "og er þá þessi rétttrúnaðarberserkur jafnframt fyrsti skrípateiknari Íslendinga" segir Jón Helgason. Einnig voru ort ljóð til höfuðs Dithmari, bæði á ástkæra ylhýra og ensku þeirra tíma, latínu. Eitt ljóðanna er svona:

Dithmar dári vottast,

Dithmar lygapyttur,

Dithmar dreggjapottur,

Dithmar frjósi og svitni,

Dithmar drussi réttur,

Dithmar innan slitni,

Dithmar drafni og rotni,

Dithmar eigi rythmum.

 

"En Arngrímur gekkst undir þyngstu byrðina nú sem fyrr og samdi heilt kver til varnar," segir Jón Helgason. "Mikill hluti þess fer í að leggja Blefken á skurðarborð og kryfja hann eins og hvert annað hræ; sú krufning leiðir ekki annað í ljós en eintóma fúlmennsku, lesti og ódyggðir."

Þannig var nú indífensið á þeim dögum.

Myndin er af Arngrími lærða.

(Heimild: Jón Helgason, Arngrímur lærði, í: Ritgerðarkorn og ræðustúfar, Reykjavík 1959)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú þarf ekki að ljúga upp á Íslendinga. Sannleikurinn er alveg nógu slæmur.

Hlynur Þór Magnússon (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 00:19

2 identicon

Takk fyrir það :-)

Ágætan kveðskap Peerse um Ísland má lesa í heild sinni hér.

baldur mcqueen (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 00:22

3 Smámynd: Halldóra Lára Ásgeirsdóttir

Sæll Svavar!

Ég segi nú bara jááááá með tilheyrandi tón!

Blessunaróskir inn í daginn!

Halldóra Lára Ásgeirsdóttir, 6.11.2008 kl. 10:18

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir skemmtilega færslu - og inspírerandi. Við ættum kannski að leggjast í áráðursstríð með skopmyndum og háði gegn Bretum. Þeir ættu það skilið, árans beinin.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 6.11.2008 kl. 10:38

5 identicon

stórskemmtileg lesning!!

sandkassi (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 22:56

6 Smámynd: Jóhann G. Frímann

Ég hætti mér ekki inn viðkvæma særingaumræðuna hér á undan en kommentera hér af mikilli hógværð.

Svo liðu rúm 100 ár frá því að séra Arngrímur lærði skrifaði til varnar Íslandi. Þá kom hundtyrkinn bölvaður og alls kyns bölvaður útlenskur óþjóðalýður og herjaði á Íslendinga, stal og drap og hneppti í þrældóm.

Þá dugði ekkert annað en magnaðar særingar, sbr. Tyrkjasvæfu séra Magnúsar Péturssonar á Hörgslandi, sem hann þrumaði á ströndinni yfir flota Tyrkjaskipa sem nálgaðist ströndina. Skall þá á þvílíkt gerningaveður að skipin fórust öll.

Hvað hafa prestar nútímams í pokahorninu til að bjarga íslenskri þjóð?

Jóhann G. Frímann, 12.11.2008 kl. 19:37

7 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Stórskemmtileg færsla.

Kristján Hrannar Pálsson, 14.11.2008 kl. 00:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband