23.11.2008 | 00:29
Mig angrar margt
Þetta kvæði eftir sr. Hallgrím Pétursson er enn í fullu gildi. Margt hefur breyst á þeim á að giska 400 árum sem liðin eru frá því að það var ort. Mannlegt eðli þó lítið.
UM ÁGIRND OG AURASAFN
Mig angrar margt hvað manns athæfið,
hvernig heimi´ er háttað, hefi´ ég vel séð.
Öldin óðum spillist,
ósið margur hyllist,
af réttum vegi villist,
von, þó hjartað kvillist.
Heimur af hrekkjum fyllist,
hægt mun ekki að dylja það.
Mig angrar margt hvað.
Synd og góssið gyllist,
svo geti menn eignast féð.
Hvernig heimi er háttað,
það hefi´ ég vel séð.
Upphaf allra klækja
er ágirnd fast að rækja,
aurasafnið sækja,
sitt frá hverjum krækja,
lög með lymsku flækja,
lagsmenn sína mest hún bað.
Mig angrar margt hvað.
Öfund og ofstækja
af því vaxa réð.
Hvernig heimi er háttað,
það hefi´ ég vel séð.
Hvar sem húsrúm tekur,
heimsku´ og blindleik vekur,
blessun í burtu rekur,
búinn er skaði frekur,
tryggð og hógværð hrekur,
heimtast fals í þeirra stað.
Mig angrar margt hvað.
Illu sá mun sekur,
sem slíku umgengst með.
Hvernig heimi er háttað,
það hefi´ ég vel séð.
Hún lét hrekki drjúga
hingað í landið fljúga,
volaða kann að kúga,
kraft úr beinum sjúga.
Fagra mammons múga
margur sína blessun kvað.
Mig angrar margt hvað.
Seims er söfnuð hrúga,
sálin lögð í veð.
Hvernig heimi er háttað,
það hefi´ ég vel séð.
Aumt er yfir að klaga,
er það hvers manns saga,
setning lands og laga
láta pening naga!
Mútur málin draga,
meinlaus fellur oft fyrir það.
Mig angrar margt hvað.
Víst um vora daga
veit eg að þvílíkt hefir skeð.
Hvernig heimi er háttað,
það hefi´ ég vel séð.
Flestar dyggðir falla,
finnst kærleikur varla,
sannleik hygg eg halla,
hrörnar manndáð snjalla.
Trú er farin til fjalla,
fær nú ekki í byggðum stað.
Mig angrar margt hvað.
Ágirnd næsta alla
á annað fellir knéð.
Hvernig heimi er háttað,
það hefi´ ég vel séð.
Mammons maktar-snauður,
mjög er hjálpartrauður,
burt er brjálið og auður,
þá búkurinn liggur dauður,
leirinn rótast rauður
ríkiskroppnum utan að.
Mig angrar margt hvað.
Fæst fyrir fremd og hauður
fánýtt moldar beð.
Hvernig heimi er háttað,
það hefi´ ég vel séð.
Viti virðar og kvendi,
von er að heimurinn endi.
Sjá til, að sálin lendi
um síðir í Drottins hendi.
Oft það efnið kenndi
einn, sá þessa vísu kvað.
Mig angrar margt hvað.
Þönkum þangað renndi,
því ber sturlað geð.
Hvernig heimi er háttað,
það hefi´ ég vel séð.
Athugasemdir
Takk séra Svavar.
Steingrímur Helgason, 23.11.2008 kl. 02:05
Frábær vísa og vel til fundið að vitna í hana hér!! Annars er þetta alls ekki í fyrsta sinn sem mannkynið fellur í þann fúla pytt að dýrka Mammón.
Þakka þér kærlega fyrir að minna á þetta fallega ljóð!!
Jón (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 09:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.