27.11.2008 | 09:26
Seint fyllist helvíti
Vinur minn einn segir að ég sé fastur í fortíðinni. Það má vel vera. Ég held að fortíðin sé ekki svo galin. Gömul gildi geta verið góð. Þau eru stundum miklu betri en ný.
Ég hef áður tjáð mig hér um þá fíflsku að gera græðgina að dyggð. T. d. hér og hér. Fyrr á tíð vöruðu menn eindregið við græðgi og ágirnd. Á fyrstu mánudagssamverunni okkar í Akureyrarkirkju, "Mánudagar gegn mæðu", sagði dr. Sigurður Kristinsson, forseti hug- og félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri, okkur frá áliti gömlu grísku heimspekinganna á þessum ódyggðum.
Í síðustu færslu minni birti ég bút úr prédikun meistara Jóns Vídalíns þar sem hann tekur ágirndina á beinið. Hér er annar kafli:
Helvíti og glötunin verða aldrei fylld, segir Salómon. Svo eru og augu hins ágjarna. Þess meira hann drekkur, þess meira þyrstir hann. Eins og hinar mögru pharaonis kýr, svo er hin ágjarni. Þegar þær höfðu uppetið hinar feitu þá sást það ekki að þær hefðu komið í maga þeirra, segir ritningin, rétt eins og Ovidius skáld kveður um Erisichtonem guðníðing, að þess meira sem hann át, þess meira svalt hann. Fyllin varð honum orsök til æ meira hungurs, svo þegar hann hafði selt aleigu sína fyrir mat þá seldi hann dóttur sína, og síðast allra tók hann að naga sína eigin limu. Svo er og hinum ágjarna varið. Það hann fær, það fyllir hann ekki. Hann er eins soltinn eftir sem áður. Ekki sparar hann vini né frændur, og þegar hann nær engu þá etur hann sitt eigið hjarta af því að hann getur ei uppetið hús ekkna og föðurlausra.
Óheftur kapítalismi eirir engu. Að lokum étur hann sig sjálfan.
Nú í kreppunni tala menn um verðlausar eignir sem aðeins eru tölur á blöðum. Fjármuni sem ekki eru til staðar þegar til á að taka. Loftbólur. Froðufé. Tómar bankahirslur. Slíkt er heldur ekkert nýtt og þannig auð gerir Jón Vídalín að umtalsefni í sömu prédikun.
Mörgum af þessum Mammons púkum líður Drottinn að fylla kornhlöður sínar og aðrar hirslur með auranægt. En þess vita menn og nokkur dæmi að þess meira þeir niðursá í ranglætinu, þess minna uppskera þeir, nema í skaðseminni, svo að hirslur þeirra eru eins og óþétt lagarfat sem ekki heldur því sem í það er látið.
Og eru þessi vers úr Heims ósóma séra Hallgríms Péturssonar ekki eins og töluð inn í Ísland nútímans?
Ágirnd grá æddi
yfir fjöllin háu,
ótrú flá flæddi
á fróns hálsana smáu,
þrjóskan þrá þræddi,
því nær blindir sáu,
þar lægðir lágu.
Vizku vakt sofnar,
veraldar bjallan klingir,
drottna makt dofnar,
dalaklukkan hringir.
Stóra prakt stofnar
sá stimpla-málminn pyngir.
Því margt að þyngir.
(Myndin er af meistara Vídalín.)
Athugasemdir
Sorry en prestur sem er með hundruðþúsunda á mánuði.. með yfirmann sem er með ~1 millu á mánuði hljómar bara hallærislegur að tala svona.
Muna hvað bókin segir... losa sig við peninga og annað stöff á jarðríki... selja allt og gefa fátækum ef þú vilt verða alvöru fylgisveinn Jesú.... allir kristnir sem gera það ekki eru bara ómarktækir
DoctorE (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 14:18
Svona DoktorE! Þú trúir alla vega einhverju eins og ég, ég veit bara ekki hverju á að trúa. Trúa/treysta verða allir að gera.
Datt bara svona í í hug að ef allur Sjálfstæðisflokkurinn dytti niður dauður, myndi Satan flýja helvíti og biðjast fyrirgefningar hjá Guði.
Það yrði svo mikil spilling í helvíti að foringjanum yrði ekki vært þar ef t.d. Davíð kæmi..
Annars er helvíti kuldi og frost, og ekki brennandi hiti..bara leiðrétta Biblíuna aðeins...Það er fullt af fólki þar og hægt að komast þaðan með bænum...
DoktorE! Jésu varaði fólk við að dýrka sig eða trúa á sig. Hann bað fólk að trúa því sem hann sagði..lestu biblíunna einu sinni enn, þetta er allt þar.. :)
Óskar Arnórsson, 27.11.2008 kl. 15:42
Það er einn stór kostur að vera fastur í fortíðinni. Sá er kostur stærstur að hafa það að sjónarmiði að eyða ekki meira en maður aflar. Sá sem aðeins sá sér hagnaðarvon í gylliboðum óheftra útlána síðustu ára til þess að auðgast á skjótan hátt stendur aðeins frammi fyrir eigin ákvörðun. Ég finn samt til með því fólki sem illa stendur vegna þeirra ákvarðanna því einhversstaðar stendur "Fyrirgef þeim, því þau vita ei hvað þau gjöra"
Jón Sigurðsson, 27.11.2008 kl. 18:56
Má til með að komentera á frábært innlegg Jóns Sigurðssonar!
..að vera fastur í fortíðinni inniber hættu á að sjá aldrei það sem skeður í dag, og upplifa augnablikin sem ske akkúrat núna...
Held samt að ég skilji hvað þú ert að meina, og mynd útskýra það þannig að faður minn t.d. farin fyrir 10 árum síðan, gefur mér alltaf bestu ráðin...kann ekkert að útskýra það frekar..
Óskar Arnórsson, 27.11.2008 kl. 21:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.