28.11.2008 | 09:13
Volaða land!
Ég hef verið að blaða í ljóðmælum sr. Matthíasar Jochumssonar.
Sá þjóðskáldið fyrir atburði haustsins 2008?
Garða-Brúnn, forsætisráðherra Breta, hefur gefið í skyn að sett hafi verið hryðjuverkalög á Íslendinga vegna þess að grunsamlegir peningaflutningar hafi átt sér stað frá Bretlandi til Íslands. Freistandi er að skoða í því ljósi þessar línur úr ljóði sr. Matthíasar, Landsýn í stormi:
"Ýtti ég knerri við Englandsströnd,
auðuga´ af gullinu rauða..."
Og skyldu einhverjar skírskotanir í Icesave-málið vera í Þjóðhátíðarsálmum sr. Matthíasar? Nokkur erindi úr þeim eru í Sálmabók þjóðkirkjunnar, meðal annars þetta:
"Krjúp lágt, þú litla þjóð,
við lífsins náðarflóð!
Eilífum Guði alda
þú átt í dag að gjalda
allt lánsfé lífs þíns stunda
með leigum þúsund punda."
Ég efast heldur ekki um að margir taka undir með þjóðskáldinu þegar hann vandar ættjörð sinni ekki kveðjurnar í sínu umdeildasta ljóði, Volaða land. Þar eru þessi vers:
"Volaða land,
horsælu hérvistar-slóðir,
húsgangsins trúfasta móðir,
volaða land!
Hafísa land,
ískrandi illviðrum marið,
eilífum hörmungum barið,
hafísa land!
Vandræða land,
skakt eins og skothendu kvæði
skapaði Guð þig í bræði,
vandræða land!
Drepandi land,
búið með kjark vorn og kjarna,
kúgandi merg þinna barna,
drepandi land!
Vesæla land!
Setið er nú meðan sætt er,
senn er nú étið hvað ætt er,
vesæla land!"
Tólf árum eftir að ofangreind vers urðu til hvatti sr. Matthías landsmenn til að halda tryggð við þetta volaða, vesæla og drepandi land. Í Aldarhvöt hrópar hann:
"Flýjum ekki, flýjum ekki,
flýjum ekki þetta land!
það er að batna, böl að sjatna;
báran enn þó knýi sand!
Bölvan öll er blessun hulin;
bíðum meðan þverrar grand.
Flýjum ekki, flýjum ekki,
flýjum ekki þetta land."
Bestu tengingarnar við okkar tíma fann ég samt í Íslandsminni Sigurhæðaskáldsins.
Ég birti það óstytt með baráttukveðjum til samlanda minna.
"Eitt er landið ægi girt
yzt á Ránar slóðum,
fyrir löngu lítils virt,
langt frá öðrum þjóðum.
Um þess kjör og aldarfar
aðrir hægt sér láta,
sykki það í myrkan mar,
mundu fáir gráta.
Eitt er landið, ein vor þjóð,
auðnan sama beggja;
eina tungu, anda, blóð,
aldir spunnu tveggja:
Saga þín er saga vor,
sómi þinn vor æra,
tár þín líka tárin vor,
tignar landið kæra.
Þú ert allt, sem eigum vér
ábyrgð vorri falið.
Margir segja: sjá, það er
svikið, bert og kalið!
Það er satt: með sárri blygð
sjá þín börn þess vottinn,
fyrir svikna sátt og tryggð
sorg þín öll er sprottin.
Fóstra, móðir, veröld vor,
von og framtíð gæða,
svíði oss þína sáraspor,
svívirðing og mæða!
Burt með lygi, hlekk og hjúp,
hvað sem blindar andann;
sendum út á sextugt djúp
sundurlyndis fjandann!
Græðum saman mein og mein,
metumst ei við grannann,
fellum saman stein við stein,
styðjum hverjir annan;
plöntum, vökvum rein við rein,
ræktin skapar framann.
Hvað má höndin ein og ein?
Allir leggi saman!
Líkt og allar landsins ár
leið til sjávar þreyta,
eins skal fólksins hugur hár
hafnar sömu leita.
Höfnin sú er sómi vor,
sögufoldin bjarta!
Lifni vilji, vit og þor,
vaxi trú hvers hjarta!
(Myndina tók ég af húsi skáldsins á fallegum sumardegi. Hún minnir á að bráðum kemur betri tíð.)
Athugasemdir
Frábær samantekt og fellur vel að þjóðfélagsumræðunni í dag. Já. Margt endurtekur sig sannarlega í þessu lífi, þó aldrei verði neitt nákvæmlega eins og það var - um það sér tíminn m.a. Á sama hátt á allt sér upphaf og endi og að því kemur að þessari niðurferð lýkur
Bestu þakkir,
Unnur Sólrún
Unnur Sólrún (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 22:44
Það skildi nú aldrei vera að skáldin hafi séð fyrir þessa atburði. Það versta er þó að það er eins og svona kveðskapur passi alltaf með reglulegu millibili við einhverja niðursveiflu eða mótlæti, bara spurning hversu langt er milli þeirra atburða. Við lærum af reynslunni, en okkur gengur alltaf ver að læra af sögunni.
Takk fyrir þennan skemmtilega pistil :)
Hólmgeir Karlsson, 28.11.2008 kl. 23:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.