3.12.2008 | 22:51
Héraðsfréttablöðin í Reykjavík
Nú eru fjölmiðlar í fjölmiðlum.
Þar velta menn fyrir sér hlutverki Ríkisútvarpsins. Mín skoðun er sú að vegna smæðar íslensks samfélags hljóti það ætíð að vera lykilfjölmiðill. Mér finnst sjálfsagt að það hafi auglýsingar á dagskrá sinni og hafi af því tekjur. Tekjurnar eru stofnuninni nauðsynlegar.
Svo eru auglýsingar ekki einungis tekjulind fjölmiðla. Þær eru líka skilaboð frá auglýsendum til neytenda og þess vegna hluti af þeirri upplýsingagjöf til almennings sem Ríkisútvarpinu er ætlað að sinna.
Fjölmiðlar eru líka til umfjöllunar í ljósi efnahagsþrenginganna. Eitt hlutverk fjölmiðlanna er að veita valdinu í landinu aðhald. Valdið er á hinn bóginn alls ekki bara að finna hjá stjórnmálamönnum. Ísland er í klóm öflugs viðskiptavalds. Það þarf líka aðhald.
Þess vegna er það stórhættulegt ef viðskiptavaldið fær að eiga fjölmiðla landsins.
Kannski er það ein skýring á því hvernig fór fyrir okkur?
Eitt finnst mér gleymast í umræðunni um fjölmiðla: Mikilvægi svæðisbundinna fjölmiðla.
Þeir eru enn mikilvægari fyrir þá sök að varla nema hluti landsins er til í þeim fjölmiðlum hér sem starfa á landsvísu.
Þar hefur Ríkisútvarpið reyndar haft sérstöðu. Það hefur sinnt landsbyggðinni af töluverðum metnaði. Mér finnst afleitt ef niðurskurður hjá stofnuninni á helst að bitna á þeirri viðleitni.
Úti á landi starfa margir ágætir fjölmiðlar. Hér á Akureyri höfum við útvarpsstöðina Voice, sem krakkarnir mínir hlusta á. Bæjarsjónvarpið nefnist N4 og hér er gefið út vikublaðið Vikudagur. Þessa fjölmiðla þarf að efla. Þeir flytja fréttir úr nánasta umhverfi fólksins og eru vettvangur skoðanaskipta.
Hjá tengdaforeldrum mínum úti í Svarfaðardal sé ég stundum Bæjarpóstinn og Norðurslóð, en síðarnefnda blaðið er að mínu mati drottning íslenskra sveitablaða.
Þótt mörg héraðsfréttablaðanna séu gefin út af miklum vanefnum og blaðamennirnir vinni nánast kauplaust við þau eru þau mikils virði fyrir samfélögin.
Ég votta blaðasnápum landsbyggðarinnar virðingu mína. Þeir eru speglar sinna svæða og kærkomin viðbót við stærstu héraðsfréttablöð landsins; Moggann, Fréttablaðið og DV.
Athugasemdir
Sammála þér eins og svo oft áður en mér líkar alltaf illa þegar blaðamenn eru kallaðir snápar. Samkvæmt nýjustu útgáfu orðabókar Menningarsjóðs merkir orðið snápur: 1. auli, heimskingi 2. þorpari 3. hnýsinn maður, snuðrari og sitthvað fleira neikvætt.
Þorsteinn G. Gunnarsson (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 13:34
Þakka ábendinguna, Steini. Rétt hjá þér. Blaðamenn eiga betra skilið þó að þeir eigi að sjálfsögðu að vera hnýsnir og sísnuðrandi.
Svavar Alfreð Jónsson, 4.12.2008 kl. 15:07
"Ég votta blaðasnápum landsbyggðarinnar virðingu mína." Mér finnst að setningi í heild upphefji hina hugsanlegu neikvæðu merkingu sem má leggja í snápur.
Jóhann G. Frímann, 4.12.2008 kl. 21:13
Sá veldur milku sem upphafinu veldur. Nú ræðum við um hörgul peninga. Ég spyr varðar það málfrelsið? Ég er er klár á því að svo er ekki.
Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 5.12.2008 kl. 23:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.