Sitjandi, liggjandi og standandi

cittaslowÁ aðventunni er hæpið að telja Akureyri  hægan bæ. Þá fjölgar bílunum á götunum jafnt og þétt. Það er brunað á þeim í búðirnar og hinir sem fara þangað á fótunum flýta sér líka. Ös er í verslunum, öllum liggur á og sífellt minnkar tíminn sem fólk gefur sér til að taka aðra tali. Sölumenn standa hróðugir við jólavarninginn með verðstríðsglampa í augum. Eldglæringarnar standa upp úr önnum köfnum húsmæðrum og eyru hamslausra heimilisfeðra blístra gufustrókum. Iðnaðarmenn vinna myrkranna á milli því áður en jólin bresta á þarf að koma upp eldhúsinnréttingunni, tengja hornbaðkarið og skipta út gömlu rafmagnstöflunni. Hraðinn er eitt aðaleinkenni samfélaga nútímans og um þetta leyti árs slá þau sín árlegu hraðamet.

Nú um stundir vex þeim alheimssamtökum fiskur um hrygg sem nefnd eru Slow Movement eða Hæga hreyfingin. Að sjálfsögðu er sá vöxtur hægur og bítandi. Áhangendum hreyfingarinnar ofbýður hraðinn sem er á öllu, fólki sem er orðið leitt á því að ferðast hratt, borða hratt, elskast hratt og vaxa hratt. Það telur að vel sé hægt að lifa hægt. Ég hef til dæmis bæði ferðast um útlönd brunandi í bifreið eftir hraðbrautum og á hjóli. Það var betra á hjóli. Þannig komst ég í miklu betri tengsl við umhverfið en ef ég hefði verið í bíl. Ilmurinn úr gróðrinum náði vitum mínum og ég fann að golan var öðruvísi en heima. Svo gat ég áð nánast hvar sem mér datt í hug. Flestir vita að vilji maður njóta máltíðar þarf að borða hana hægt. Grautnum getur maður góflað í sig en eigi að virkja bragðlaukana þurfa þeir sinn tíma. Góðvinur minn hefur ekki nema þrjár lífsreglur. Hann borðar sitjandi, sefur liggjandi og syngur standandi.

„Allt hefur sinn tíma," segir í bók Prédikarans.

Þrátt fyrir allar tækninýjungarnar og stöðuga styttingu vinnuvikunnar höfum við síminnkandi tíma. Kapphlaupið harðnar. Við teljum okkur þurfa að kaupa hitt og þetta til að auðvelda okkur lífið og spara dýrmætan tíma. Til að kaupa það þurfum við að vinna fyrir því. Þetta verður vítahringur, því við kaupum okkur tíma, sem við verjum svo bara í meiri vinnu. Við förum fram úr okkur sjálfum. Höfum ekki tíma til að sinna fjölskyldu og vinum, maka okkar eða okkur sjálfum og hugðarefnum okkar. Móðir jörð er farin að stynja undan hraðaáráttu mannkynsins. Við göngum svo hratt á auðlindir hennar að hún hefur ekki undan að endurnýja þær.

Ég þekki mann sem er í bissness í Reykjavík. Hann er í freku starfi sem heimtar að hann borði oft standandi og sofi sitjandi. Langt er síðan hann söng. Þó hefur hann prýðilega söngrödd. Stundum þarf hann að fljúga hingað norður til erinda. Hann á ekki nógu mörg orð til að blessa leigubílstjórana á BSO. „Þegar þeir mjakast af stað frá flugstöðinni og keyra eftir Drottningarbrautinni á hraða andamömmunnar með ungana sína finn ég streituna líða úr mér," sagði hann mér.

Sá sem í vændum er á heilögum jólum kemur varlega. „Hann kallar ekki og hefur ekki háreysti og lætur ekki heyra raust sína á strætunum. Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur og dapran hörkveik slökkur hann ekki," segir í spádómsbók Jesaja.

Hægjum á okkur til að finna nálægð hans. Leyfum honum að ná okkur. Borðum sitjandi, sofum liggjandi og syngjum jólalögin og jólasálmana, helst standandi.

(Þessi pistill birtist í blaði á aðventunni fyrir nokkrum árum. Ég endurbirti hann hér og legg áherslu á niðurlagsorðin. Hinir árlegu Jólasöngvar Kórs Akureyrarkirkju eru núna á sunnudaginn, kl. 17 & 20)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við vitum þetta mörg en neitum okkur um þann munað að njóta augnabliksins sem kemur aldrei aftur...

Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 00:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband