12.1.2009 | 18:16
The Icelander
Guðmundur Andri Thorsson er einn af mínum uppáhaldsrithöfundum. Bókin Ég vildi að ég kynni að dansa geymir safn skemmtilegra greina og í einni þeirra, Íslandsklukkunni, er snilldarlýsing á Íslendingum og kostulegu eðli landans. Við erum engri þjóð lík.
Ég var að skemmta mér við að lesa þessa grein nú um helgina. Bestu bitana flutti ég konu minni og mágkonu. Þær hrifust með mér. Einkum fannst þeim forvitnileg sú kenning skáldsins að íslenskar konur klæddust jogginggöllum þegar þær nenntu ekki að vera kynverur.
Við lestur greinarinnar rifjaðist upp fyrir mér 17. júní árið 2007. Þá var ég staddur á ítalskri sólarströnd ásamt nokkrum elskulegum löndum mínum. Við brutum heilann um hvernig halda ætti upp á sautjándann á Ítalíu.
Ein hugmyndin var að efna til glímusýningar á ströndinni. Meinining var að etja saman tröllvöxnum bankamanni og fyrrum norðurlandameistara í sundi annars vegar og hins vegar kattliðugum geðlækni og gömlum fimleikakappa. Þetta var þjóðlegasta hugmyndin og enginn efaðist um að strandgestir, íslenskir sem ítalskir, yrðu agndofa þegar garparnir færu að sveiflast um í glímudansi undir ölduslætti Adríahafsins.
Ekkert varð af glímusýningunni enda hafði enginn sýnt þá forsjálni að taka með sér glímubelti að heiman. Þessari þjóðhátíð var fagnað með því að hópurinn fór að sjá sirkus í nálægu þorpi.
Ekki þótti öllum það þjóðlegt.
Hótelhaldarinn, signor Bruno Rapa, reddaði því. Hann beitti sér fyrir því að bökuð var ógurleg stríðsterta í líki íslenska fánans. Henni var rennt inn í matsal hótelsins með fyrirgangi og gestum tilkynnt að nú væri þjóðhátíðardagur Íslendinga. Eftir lófaklapp og háværar hyllingar á ítölsku var tertan sneidd með viðhöfn og borin á borð sem desert það kvöldið.
Eftir mat, þegar fólk var sest út á hótelveröndina, hljómaði diskur með Alfreð Clausen í hátalaranum þar, en Bruno hafði beðið mig að útvega sér íslenska tónlist til flutnings í tilefni dagsins.
Maður gat ekki annað en fyllst þjóðernisstolti þegar ítalskar þokkadísir tóku að dilla sér undir lögunum Manstu gamla daga? og Margar góðar sögur amma sagði mér.
Þar að auki voru þær yndislega berjabláar eins og aðrir sem snætt höfðu þjóðhátíðartertuna.
Blái fánaliturinn á henni hafði auðsýnilega verið nokkuð sterkt blandaður.
Skýring á mynd: Því miður átti ég enga mynd af ítölsku Íslandsfánatertunni. Ég gúgglaði "The Icelander" með þeim árangri að upp kom mynd af þessum drullumunstraða hjólbarða.
Athugasemdir
Skemmtileg frásögn.
Svona á að taka á móti útlendingum, þá yrða víða lífvænlegra!
Matthías (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 20:28
Frábær saga. Glímusýningin hefði orðið stórbrotið atriði. Þarf að rannsaka betur þetta með joggingallana...sumum finnst þetta flott og já, æsandi.
Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 22:00
Hahaha SVavar, mjög skemmtileg grein og ekki skemmdi niðurstaða þín í netgrúskinu fyrir þarna síðast!
En hann Andri er snjall og það skemmir ekki heldur fyrir honum, að vera skildur MÉR!
Magnús Geir Guðmundsson, 21.1.2009 kl. 19:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.