21.1.2009 | 00:30
Niðurrif og uppbygging
Það er hreint ekki tekið út með sældinni að vera jákvæður þessa dagana.
Jákvæðni og bjartsýni er tabú í mörgum kreðsum.
Sá sem er vogar sér að vera jákvæður er á flótta undan vandanum. Sá sem dirfist að brosa í bullandi afneitun. Bjartsýni er heiftarleg veruleikafirring.
Nei, nú gildir að vera neikvæður, reiður og bitur. Sá sem er eitthvað annað gengur í lið með óvinum Íslands.
Allt tal um jákvæðni er væmið nýaldarbull fólks sem ekki hefur öðlast Meðvitundina.
Í slíkum aðstæðum þarf kjark til að fara af stað með verkefni sem ber yfirskriftina Brostu með hjartanu!
Það gera Ásprent-Stíll og Akureyrarstofa.
Mér finnst þetta flott uppátæki og dirfskufullt. Hér er lýsing á því.
Ég er ekkert viss um að eina rétta kreppuráðið sé að öskra með maganum.
Einn liður í verkefninu er fundur í Brekkuskóla nú á fimmtudag 22. janúar kl. 18 - 21. Frummælendur eru Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital, Jón Björnsson, rithöfundur og reiðhjólapílagrímur og Inga Eydal, hjúkrunarfræðingur.
Akureysk matvælafyrirtæki bjóða upp á fiskisúpu, brauð og kaffi. Síðan gefa og þiggja þátttakendur ráð í umræðuhópum.
Að þessu sögðu minni ég á það sem ég hef áður sagt hér á blogginu:
Neikvæðnin er líka nauðsynleg á því Íslandi sem við erum að upplifa. Hér hafa fengið að leika lausum hala skaðleg öfl. Þau þarf að reka burt. Fyrr næst enginn árangur við endurreisnina. Við þurfum að rífa niður áður en við förum að byggja upp.
Við þurfum að afneita Djöflinum og öllu hans athæfi og öllum hans verkum.
Reiði sem ógnar því illa og mannfjandsamlega er góð reiði og holl.
Ef við finnum reiðinni réttan farveg og látum neikvæðni okkar bitna á því sem hefur skemmt samfélag okkar höfum við þegar byrjað á endurreisninni og uppbyggingunni.
Ég ætla að leyfa mér að vera alveg hrikalega bjartsýnn. Ég trúi því að íslenska þjóðin sé skynsöm; hún nýti tækifærið, hafni bölvun sinni en játist blessuninni.
Myndin með færslunni hefur prýtt strætóskýli á Akureyri. Þar sést Silja Björk úr 5. bekk Brekkuskóla. Á hjartanu hennar stendur:
Guð gefur mér alltaf marga möguleika.
Athugasemdir
Það er víst ábyggilega rétt hjá þér Svavar, það er ekki tekið út með sældinni að vera jákvæð. Ég hef fengið ófá skotið á mig, eins og þú að flýja vandann. Síðan sagi einn við mig að ég væri ekki nógu ábyrgur þjóðfélagsþegn(enda bara heimavinnandi húsmóðir), svo hvort ég væri virkilega ekki á átta mig á ástandinu í þjóðfélaginu í dag. Einn klikkti út með því að það væri ekkert að marka mig, maðurinn minn væri nefninlega ekki atvinnulaus. Fékk nú samt ekki nánari útskýringu á því. En ég er bjartsýn og ætla að vera það áfram. Var ein af þeim fyrstu að skrá mig á fundinn í Brekkuskóla og mæti þar með bros á vör.
Hafðu það gott
Anna Guðný , 21.1.2009 kl. 01:01
Mér finnst nú þessi mótmæli í dag einstaklega jákvæð!

Djöfullinn er að spila í ríkjandi ráðaöflum.
Sigurður Þór Guðjónsson, 21.1.2009 kl. 01:11
Sæll Svavar, það var ósköp gott að lesa textann þinn.
Í dag er ég víst einn af þessum "atvinnulausu", en samt er ég sennilega með "hærri laun" en ég hef áður haft, þó greiðslan sé ekki í peningum. Ég komst að því að bestu "launin" fást með því að vinna "í sjálfum sér". ;-)
Ég reyni að sýna æðruleysi og kjark, og svo hefur mér tekist ágætlega að nota það vit sem Guð gaf mér. En það er ekki þar með sagt að ég geti ekki haft mínar skoðanir. ;-)
Síðustu mánuðir hafa verið ákaflega "góð þjálfun" fyrir mig, varðandi það að takast á við þessa "neikvæðu mannlegu þætti" sem búa víst í okkur öllum, eins og til dæmis ótti, reiði, pirringur og fleiri. Partur af þeirri þjálfun er bænin.
bestu kveðjur Svavar og þakka þér liðin ár. ;-)
Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 02:44
Amen Svavar.
Svo langar mig til að biðja fyrir Sigurði Þór Guðjónssyni.
'Eg blessa hann og bið frið, náð og miskunn honum til handa, ég bið í Jesú nafni.Amen.
Aida., 21.1.2009 kl. 09:06
Sæll Svavar, það er gott að lesa það sem þú skrifar alltaf með réttu orðin þú kannt þetta. Vonandi verður ekki einhver harmleikur í þessum hasar hjá mótmælendum.Elskum friðinn og verum góð.
Bögga (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 11:05
Fólk sem vill læra að brosa með öllu hjartanu og endurheimta von í líf sitt er bennt á að mæta á mótmælin fyrir framan Auturvöll. Vonina og gleðina finnum við í samstöðunni.
Héðinn Björnsson, 21.1.2009 kl. 11:25
Sem betur fer þarf nú samt ekki að mæta á Austurvöll til að brosa með hjartanu né öðru, til dæmis Brekkuskólin já tilvalin sýnist me´r.
En minn kæri Svavar, í minni litlu veröld og vesælu, er og hef ég verið að upplagi jávkæður, þó hvorki skorti mig óstillt skap né sálaröldurót á köflum! SAmt er líklega ekki mikið að marka mig, er líklega svo einfaldur!
Magnús Geir Guðmundsson, 21.1.2009 kl. 19:34
Matthías Ásgeirsson, 21.1.2009 kl. 22:49
Það finnst mér kurteisisregla nr. 1 að vera ekki að tilkynna fyrir öðrum hverjum manni biður fyrir. Eins og aida gerir hér er það eins konar ásökun og stimplun. sjáið þennan synduga mann, það þarf að biðja fyrir honum. Þannig niðurlægir sá sem biður með þessum hætti þann sem sagt er að beðið sé fyrir og upphefur sjálfan sig í leiðinni.
Sigurður Þór Guðjónsson, 21.1.2009 kl. 22:53
Takk fyrir pistilinn Svavar, hann vekur mann til umhugsunar svo sé ég að ég og Silja Björk úr 5. bekk Brekkuskóla erum á sömu skoðun, ekki slæmt það.
Bryndís (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 23:14
En fjandinn hafi það! Enginn ástæða til að biðja fyrir mér.
Sigurður Þór Guðjónsson, 21.1.2009 kl. 23:17
Ég skal reyna að hemja mig og láta nægja að hugsa bara hlýlega til þín, Sigurður Þór.
Svavar Alfreð Jónsson, 21.1.2009 kl. 23:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.