22.1.2009 | 23:12
Svartagallsraus og geðvonskunöldur
Ráðsnjöll húsfreyja sem ég þekki er fyrir löngu búin að einskorða sjónvarpsnotkun heimilis síns við Kartúnnettvork. Þar á bæ er harðbannað að hlusta á annað en Léttbylgjuna.
Árangurinn er sá að fjölskylda hennar skríður alsæl og áhyggjulaus undir sængur sínar á kvöldin og blundar blítt uns hanar gala og dagur rís.
Í öðrum húsum, þar sem menn hafa asnast til að horfa og hlusta á fréttir, skjögrar fólk skjálfandi í rúm og loksins þegar það festir svefn undir morgun fær það skelfilegar martraðir.
Stundum þegar við hjónin fáum okkar að borða í eldhúsinu sprettur konan upp og slekkur á viftunni. Það getur verið ótrúlega mikill hávaði í henni (viftunni). Sá sem kveikti á henni við matseldina gleymdi að slökkva.
Þvílíkur léttir þegar þungum dyni viftunnar slotar og maður uppgötvar að það var hann sem hafði verið að pirra mann við máltíðina.
Fréttatímarnir og fréttaþættirnir eru svipaðir og eldhúsviftan að þessu leyti. Þetta er hávær þunglyndisskarkali sem maður heyrir án þess að vera að hlusta. Eintóm ótíðindi, kreppan, ástandið, mótmælin, óeirðir, barsmíðar, gjaldþrot og skuldafen. Ekkert ljós í myrkrinu. Eyðimerkurganga. Allir firðir botnfrosnir. Hagfræðingar með heimsslitaspár. Grátklökkir stjórnmálamenn. Reiðir spyrlar.
Þjóðin missir móðinn. Enginn talar í hana kjark. Bankarnir hrundu og bang!
Ekkert jákvætt gerist lengur á Íslandi.
"Það þýðir nú ekki að vera stinga höfðinu í sandinn," segja þeir af sósíalrealískum þótta.
Sannleikurinn er sá að bæði fjömiðlar og stór hluti þjóðarinnar er nákvæmlega þar með hausinn. Á bólakafi í sandi kreppunnar og ástandsins og ekkert sýnilegt nema sá botnlausi sandur.
Við látum ljúga að okkur að ekkert sé til nema svartnættið. Við eigum helst ekki að hlusta á neitt nema svartagallsraus.
Sumir segja það sykursæta væmni og ábyrgðarleysi að vera gaspra þetta um jákvæðni á svona voðalegum tímum.
Það má vel vera. En í sykrinum er þó orka. Og þjóðin þarf kraft til að komast á lappir.
En þeir sem á hinn bóginn nærast ekki á öðru en þverhandarþykku geðvonskunöldri leggjast út af uppþembdir í spaðmollu og koma engu í verk.
Bíða eftir næsta skammti af svartagalli og fórnarlambasteik.
Strákurinn á myndinni heitir Daði og er í 2. bekk Síðuskóla. Hann segir: "Ríkur er sá sem á vin." Ég ætla að gefa kreppunni langt nef núna um helgina og elda dýrindis kjötsúpu með vini mínum. Svo bjóðum við konunum okkar upp á herlegheitin þegar þær eru búnar í bíói. Þar að auki er Sigga litla systir mín fertug í dag og verður með mikla veislu á föstudagskvöldið. Til hamingju! Ég skal passa mig á spaðmollunni.
Athugasemdir
Ekki allt svart - sjáðu bara á síðunni minni.
Kær kveðja
Ragnheiður , 23.1.2009 kl. 01:11
Snilldarpistil og gott mótvægi á neikkvæðninna sem er dúndraað á man alla daga. Ég held að þetta ástand sem er í dag, eigi eftir að gera okkur gott til langframa.
Þeg mín börn voru að alast upp fengu þau aldrei að horfa á fréttir í Svíþjóð sem eru mun sóðalegri enn Íslenskar. Það þyrfti að útvarpa þessum boðskap víða. Þegar ég alla vega les þeta, stend ég að því að vera á bólakafi í neikkvæðu tali og tek oft undir "svartgallaraus".
Laga þetta! "Neikvæðni kemur í veg fyrir ný tækifæri" segir einhversstaðar.
Óskar Arnórsson, 23.1.2009 kl. 01:51
Ég fann æðruleysi í gegnum von og samstöða á mótmælum, þú finnur hana í að loka á fréttir. Ef það er lausn fyrir þig skal ég ekki mæla gegn henni en þú veist þá alalvega af minni lausn ef þín skildi ekki reynast halda og á sama hátt veit ég af þinni. Gleði og von er það sem mun drífa verkið í samfélaginu.
Héðinn Björnsson, 23.1.2009 kl. 12:18
Sammála þér um vonina og gleðina, Héðinn. Það er fjarri lagi að ég loki á fréttir en ég held að fréttafíkn sé ekki holl. Allra síst þegar fátt nema ótíðindi kemst í fréttatíma. Heilmargt gott er að frétta af þjóðinni og það eflir bæði von og gleði að heyra uppörvandi tíðindi.
Svavar Alfreð Jónsson, 23.1.2009 kl. 15:06
En Svavar, konunni getur ekki hafa verið full alvara með Léttbylgjunni!?
Ég fæ bæði hroll og kvíðakast við tilhugsunina eina ef ég þyrfti að búa við hana eina!
Magnús Geir Guðmundsson, 26.1.2009 kl. 00:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.