Mýs á hvalveiðum

hvalveidarFyrr í kvöld fékk ég símtal frá kollega í Þýskalandi.

Hann er forvitinn um gang mála hér norður í höfum því mér skilst að við Íslendingar séum mýsnar í tilraunabúri heimskreppunnar. Hingað horfir heimsbyggðin til að geta forðast mistökin sem við gerum og lært réttu brellurnar.

Sá þýski gaf lítið fyrir grýtingu á lögregluþjónum og stjórnarslit. Þetta eru allt gömul trix í Evrópu.

Þegar ég svo sagði honum frá nýjasta vopni okkar Íslendinga í baráttunni við fjármálakrísuna miklu heyrði ég eyrun vaxa á viðmælanda mínum.

Auknar hvalveiðar.

Hvalveiðar eru svo óskaplega táknrænar á þessum tíma.

Smáþjóð að takast á við veraldarkreppu og heimurinn fylgist spenntur með.

Hvalveiðimenn á bátsskel að skutla Moby Dick. Ahab skipstjóri horfir á um borð í Pequod ásamt öðrum í áhöfninni.

Hvalveiðarnar senda margþætt skilaboð frá okkur til umheimsins:

1) Við ætlum að nýta okkur auðlindir hafsins á sjálfbæran hátt

2) Verðmætasköpunin verður áþreifanleg en ekki bara einhverjar tölur á pappír eða tölvuskjám

3) Við ætlum að bjarga okkur og erum hvergi smeyk

Og síðast en ekki síst:

4) Við ætlum ekki að ganga í Evrópusambandið

Þess ber að geta að sá þýski hefur mikinn húmor fyrir hinum íslenska gorgeir, megalomania islandica.

Engu að síður held ég að honum hafi fundist þetta kúl múv hjá okkur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Nákvæmlega  Amen á eftir efninu. kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 31.1.2009 kl. 00:44

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég bjó í Þýskalandi í langan tíma og eftir að hafa útskýrt fyrir Þjóðverjum okkar sjónarmið um að hvalir væru í okkar augum bara nytjadýr eins og svín, kýr eða kindur og að við hefðum veitt seli okkur til matar fyrr á tímum, voru þeir nú bara yfirleitt nokkuð sáttir.

Nálgunin var að lýsa okkur eins og við erum: frumbyggjaþjóð og veiðarnar væru í átt við veiðar Inúíta og Indíána eða Sama! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 31.1.2009 kl. 18:04

3 Smámynd: Kristján B. Jónasson

Um hvaða Íslendinga eruð þið að tala? Hrefnuveiðar eru stundaðar af svona um það bil 15 bátum. Aðeins eitt fyrirtæki veiðir stórhvali og þær eru persónulegt áhugamál eins manns. Í guðanna bænum ekki blanda þjóðinni í þetta.

Kristján B. Jónasson, 31.1.2009 kl. 21:55

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Kæri Kristján, sjómennirnir á þessum fimmtán bátum eru líka þjóðin. Fleiri eru þjóðin en þeir sem eru á borgarafundunum í Reykjavík.

Svavar Alfreð Jónsson, 31.1.2009 kl. 21:59

5 Smámynd: Kristján B. Jónasson

Sú hugmynd að "við Íslendingar" stöndum fyrir hvalveiðum er röng. Það eru fyrirtæki sem standa fyrir þeim, þjóðin gerir það ekki. Þetta er mjög einfalt. Íslensk fyrirtæki tóku ekki að stunda veiðar á stórhvelum fyrr en eftir seinni heimsstyrjöld, árið 1949 telst vera upphafsár stórhvalaveiða. Það er engin sérstök hefð fyrir hnísuveiðum við Ísland langt aftur í aldir, en Baskneskir hvalskutlarar og franskir sem og hollenskir og norðuramerískir veiddu hér hval og seinna Norðmenn. Norsku hvalveiðimennirnir gengu svo freklega á hvalastofna undan Íslandi um aldamótin 1900 að þeir neyddust til að hætta veiðunum. Í kjölfarið bönnuðu Íslendingar sjálfir hvalveiðar með lögum. Sú goðsögn að við séum í sömu sporum og þjóðir inúíta og aljúta sem byggðu afkomu sína á mjög skynsamlegri nýtingu minni hvala og komust raunar einnig upp á lag með að skutla nokkuð stóra hvali, á við engin rök að styðjast. Veiðar stórhvela við Ísland hafa að mestu verið á forræði eins fyrirtækis. Enginn markaður er fyrir afurðirnar, skömm er á þessum veiðum um allan heim og þær fyrirlitnar. Hér hefur byggst upp smá atvinna sem menn hafa haft af því að sýna hvali því furðulegt nokk vita gestir okkar oft meira um hvali en við sjálf. Hvar er stóra hvalasetrið þar sem skólabörn koma og dást að skepnunum? Hvalveiðar genga ekki efnahagslegu hlutverki á Íslandi, þær gegna hugmyndafræðilegu, ef ekki sálrænu hlutverki. 

Kristján B. Jónasson, 31.1.2009 kl. 22:13

6 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég er sammála þér um að við erum ekki í nákvæmlega sömu sporum og frumbyggjar að þessu leyti en hinu verður ekki neitað að við höfum um áratuga skeið stundað veiðar á hvölum. Er ekki tiltölulega stutt síðan við fórum að veiða kolmunna? Hvenær fórum við að veiða loðnu? Mér finnst ekki nema sjálfsagt að veiða hvali sé slíkur veiðiskapur sjálfbær. Og hvað með hákarlaveiðar? 

En auðvitað þurfum við að geta selt afurðirnar. Ég ólst upp við hrefnukjötsát. Það var ódýr herramannsmatur og ég hef fulla trú á þeirri matvöru.

Ég geri mér grein fyrir að það er ekki þjóðin öll sem veiðir hvali, en Íslendingar standa vissulega fyrir hvalveiðum. Íslensk stjórnvöld leyfa slíkar veiðar og halda utan um þær.

Svavar Alfreð Jónsson, 31.1.2009 kl. 22:30

7 Smámynd: Brattur

Hvalveiðar eru algjör tímaskekkja... við munum aldrei vinna okkur nema ógagn með því að stunda þær... öll rök um að hvalurinn éti frá okkur fiskinn eru haldlaus... við getum ekki selt hvalkjötið og allt í kringum hvalveiðarnar vekur neikvætt umtala um Ísland erlendis og er ekki á það bætandi...

Brattur, 31.1.2009 kl. 23:27

8 identicon

Maðurinn er víst "grimmasta skepna" veraldar og því ætti hún að undanskilja "hvaladráp" frekar en annað dráp ?

Herþotur, skriðdrekar og önnur drápstæki stráfella "saklausa borgara".

Fáir "fella tár" nema aðstandendur.

Á Íslandi "standa menn á torgum" og mótmæla hvalveiðum og jafnvel tárast yfir grimmd "hvalaskyttu".  Allir vita allt um hvali" og þá ekki síst þeir sem mótmæla, en er eins víst að þeir viti jafn mikið um þessi "fyritæki" sem kalla sig "verndara hvala" og velta "stórum upphæðum" í þeirri "atvinnugrein". 

Mér finnst eðlilegt að nýta hvalastofna eins og annað sem við nýtum, enda verði það gert "skynsamlega".  Nú ef "lagerinn selst ekki", því þá ekki að gefa hann "sveltandi heimi" næg er þörfin.

Mér dettur stundum í hug, þegar menn karpa um jafn "eðlilega vinnu" og til dæmis að veiða hvali til fæðu...............

 Eitt er víst að "mannheimar" eru "ótrúlegir", en það er sennilega ekkert skrítið því Guð skapaði manninn og "vegir Guðs eru órannsakanlegir".

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 1.2.2009 kl. 02:38

9 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Svavar. Fínn pistill hjá þér og skemmtileg komment. Enn geta menn karpað um hverjir séu þjóðin og hverjir ekki. Ég hef smakkað hrefnukjöt og vil helst ekki þurfa að gera það aftur en það er ekkert smáræði sem hvalurinn étur af fiski þannig að þó það væri ekki annað en að vernda þann fisk sem við lifum á þá réttlætir það þessar veiðar. Merkilegt kommentið hans Páls hér á undan þó ég nái ekki alveg að tengja það og ekki sammála öllu sem þar komur fram. Hver skyldi hafa sett hvali á þann stall að það eru nánast helgispjöll að drepa þau dýr umfram önnur. kveðja Kolla. 

Kolbrún Stefánsdóttir, 1.2.2009 kl. 10:24

10 identicon

Við erum með ónýtt peningakerfi hérna, hvað ætla landar mínir að borða þegar fer að kreppa virkilega að?  For-feður okkar og mæður sáu það eitt í stöðunni að borða úldin matvæli ef ekkert annað gafst, því ekki vaxa aldintré hér allan ársins hring.  (allavegana ekki nema með því að ausa peningum í þá framkvæmd)

Erum við orðin svo gáfuð að við höfum lært að lifa á loftinu og sólarljósinu eins og plöntur jarðarinnar?  Endilega deilið þeirri aðferð með okkur hinum, því ég skil ekki hvernig það er framkvæmt.

  Að mínu viti, (sem er ekki mikið) áttu áar okkar mun innihaldsríkara líf en við lifum nú til dags.  Vegna þess að fólk hafði hvert annað, við urðum að treysta á samhjálp fjölskyldunnar.  Og vegna þess að fólk var ekki búið að firra sig frá umhverfi sínu eins og við höfum verið að gera með því að varpa ábyrgð á eigin ástandi á aðra.

Árni Sveinn (IP-tala skráð) 5.2.2009 kl. 10:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband