Á og í

vokNú erum við að sigla inn í föstuna. Í prédikun dagsins velti ég fyrir mér muninum á því annars vegar að vera áhorfandi og hins vegar að vera íhugandi.

Mikill munur er á því að horfa á og íhuga. Orðanna hljóðan segir sína sögu.

Áhorfandi stendur utan við það sem hann sér. Hann fylgist með, er ekki á sviðinu, ekki meðal leikendanna. Atburðirnir gerast fyrir framan hann.

Að íhuga eitthvað er meira en að horfa á það eða fylgjast með því. Íhugun leiðir af sér ákveðna nánd. Við sjáum ekki aðeins atburðina, við lesum ekki bara textann, heldur drögum nær okkur það sem við skynjum, öndum því að okkur:

Í-hugum það.

Haft er eftir þýska skáldinu og andófsmanninum Wolf Biermann að áhorfendur sjái ekkert. Mikið er til í því og hollt að íhuga þá staðhæfingu nú á sjónvarpsöld.

Fastan er tími íhugunar.

Séra Hallgrímur er ekki að lýsa krossferli Jesú Krists í Passíusálmunum. Þeir eru ekki fréttaflutningur eða skýrsla. Þeir eiga ekki að gera okkur að áhorfendum. Við eigum ekki bara að sjá þá með augunum eða heyra þá með eyrunum. Séra Hallgrímur samdi þá til að við fyndum þá með hjörtunum. Þeir eru ekki bara fyrir lestur og heyrn, heldur fyrir sál, geð, hjarta, róm, hug, tungu og vilja. Þess vegna byrja þeir svona:

Upp, upp mín sál og allt mitt geð,

upp mitt hjarta og rómur með.

Hugur og tunga hjálpi til.

Herrans pínu ég minnast vil.

Ég endaði stólræðuna með því að fara með tvö lítil erindi eftir séra Matthías. Þau eru gott íhugunarnesti inn í föstuna.

Og allt vort líf, það er opin vök;

þú átt eigi, maður, þar á sök.

 

Og gef þú ei slysin guði að sök;

því guð er sjálfur í hverri vök.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aida.

Já Drottinn blessaði okkur með Hallgrími Pétursyni, sannarlega gjörði hann það.

Ég les hann mikið og íhuga hans orð ásamt bók bókanna.

Mikið smurður maður sá, mér til fyrirmyndar.

Aida., 24.2.2009 kl. 00:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband