24.2.2009 | 00:17
Ó
Það er mikið vandaverk að tala íslensku enda tala fáir hana vel.
Málfarsumvandanir fara í taugarnar á mörgum. Ekki þó á mér. Mér finnst þær aldrei skemmtilegri en þegar þær eru smásmugulegar, geðillskulegar eða jafnvel gjörsamlega tilhæfulausar.
Illa skrifaður texti fer á hinn bóginn í taugarnar á mér.
Þó er ég lítið í því að setja út á málfar fólks enda kemur stundum allt öfugt út úr mér.
En nú get ég ekki hamið mig lengur.
Ég þoli ekki óréttlæti!
Af hverju erum við alveg hætt að tala um ranglæti?
(Konan á myndinni er víst að segja "Ó")
Athugasemdir
Þá er víst útséð um að ég geti "skrifað" texta á þessa síðu
það væri ranglátt af mér að valda taugatitringi hjá prestinum 
Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 10:05
"Eins og mér finnst og rétt er":
Sammála því að ranglæti er mun skemmtilegra orð en óréttlæti. Það síðara er einmitt dæmi um "orðafátækt", sem við ættum huxanlega að hafa meiri áhyggjur af en stöku beyginga- og stafs.villum, þó að slíkar geti verið hvimleiðar líka.
Hildur Helga Sigurðardóttir, 24.2.2009 kl. 21:27
Málfarsumvöndun sem væntanlega fer ekki í taugar :
"Mér finnst þær aldrei skemmtilegri ..."
Hér mun vera réttara að segja:
"Mér finnast þær aldrei skemmtilegri ..."
Alla vega lærði ég það forðum hjá mörgum sprenglærðum íslenskukennurum...
Kveðja
Meili (og bróðir hans)
Meili Óðinsson (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 22:20
Takk fyrir þetta, en hvort er nú réttara að segja mér finnst Meili og bróðir hans hitta naglann á höfuðið - eða mér finnast Meili og bróðir hans.....?
Svavar Alfreð Jónsson, 3.3.2009 kl. 22:26
"Finnast" - án efa. En þú getur líka skrifað þig í kringum þetta með því að segja "mér finnst að Meili og bróðir hans ..." --- þá er skýringarsetningin frumlagið.
Meili (bróðurlaus í dag)
Meili Óðinsson (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 13:53
Er ekki "mér" frumlagið?
Svavar Alfreð Jónsson, 4.3.2009 kl. 15:19
Ekki var mér kennt þannig, en eflaust eru einhverjir málfræðingar farnir að hugsa á þann veg. Hugsanlega má segja að "mér" sé frumlagsígildi?Kennarinn, sem kenndi mér íslensku í MR 1970, hefði hiklaust sagt að "Meili og bróðir hans"væri frumlagið og "mér" andlagið, enda er "Meili" í nefnifalli og tala umsagnarinnar ræðst af frumlaginu, ekki andlaginu. Sbr:
Hann finnur mig / Hann finnur okkur / Þeir finna mig / Þeir finna okkur
Hann finnst mér / Hann finnst okkur / Þeir finnast mér / Þeir finnast okkur
Þetta mætti án efa ræða og deila um (í bróðerni) lengi dags. Gaman væri að heyra tvo ósammála málfræðinga kýta um þetta.
Hugleiddu eitt dæmi:
Hann þykir afbragðskokkur.
Ertu sammála um að "hann" sé frumlagið hér? Ég held það. En sjáðu þetta:
Hann þykir mér afbragðskokkur.
Er "hann" áfram frumlagið? Eða er það "mér"?
Ég gerði á þessu skyndikönnun meðal vinnufélaga. Þau sem eru á mínum aldri (50+) eru sammála mér, og höfðu öll lært þetta á sama veg. Yngra fólkið hafði ekki hugmynd um hvað ég var að tala. Það segir kannski eitthvað um gæði menntunar í landinu síðustu 40 árin.
Bestu kveðjur, Meili
Meili Óðinsson (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 15:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.