1.3.2009 | 22:42
Klikkaði fólkið eða stefnan?
Stjórnmálamenn eru komnir í kosningagírinn og tala um að endurheimta traust kjósenda.
Fyrir skömmu bloggaði ég aðeins um þetta margumtalaða traust.
Til hvers þurfa stjórnmálamenn traust okkar?
Ef þeir þurfa það til að geta haldið áfram að gera gömlu mistökin aftur held ég að við ættum að láta ógert að treysta þeim.
Nú er mikið talað um endurnýjun. Sú endurnýjun virðist einkum eiga að felast í því að skipta að einhverju leyti um fólk í efstu sætum framboðslistanna.
Flokkarnir eru enn þeir sömu og stefnumálin virðast ekki hafa breyst mikið.
Við fáum sennilega einhver ný andlit á næsta þing en óljóst er um aðrar breytingar.
Hvar er umræðan um ný gildi og viðmið?
Þetta staðfestist við lestur draga að skýrslu endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins.
Þar er því haldið fram að fólkið hafi klikkað en stefna flokksins ekki.
Ég er alls ekki sannfærður um að þetta sé svona. Ég hef mjög ákveðnar efasemdir um stefnu Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum.
Sumir tala um hugmyndafræðilegt þrot í þeim efnum.
Getur verið að þeir Sjálfstæðismenn sem klikkuðu í hruninu hafi gert það vegna þess að þeir voru að framfylgja gallaðri stefnu?
Eigi að endurreisa Sjálfstæðisflokkinn held ég að þar á bæ þurfi að ráðast í hugmyndafræðilegt endurmat.
Skýrsluhöfundar staðhæfa að Sjálfstæðisflokkurinn beri einvörðungu ábyrgð á sínum eigin fulltrúum en ekki á bankamönnum, eins og það er orðað.
Eitt af því sem fór úrskeiðis í hruninu var að bankarnir fengu að vaxa þjóðinni yfir höfuð. Nánast daglega fáum við fréttir af vafasömum og jafnvel glæpsamlegum gjörningum stjórnenda bankanna. Lengi hefur þjóðinni blöskrað ofurlaun og annað peningasvall í bönkunum. Afleiðingum þess þarf ekki að lýsa.
Nú biður Sjálfstæðisflokkurinn um traust kjósenda - en tilkynnir um leið að hann beri ekki ábyrgð á bankamönnum.
Er hægt að treysta flokki sem ekki kannast við að bera ábyrgð á bankamönnum og athæfi þeirra?
Hinum finnst mér treystandi sem lofar að sjá til þess að bankarnir komist ekki upp með að láta sögu síðustu ára endurtaka sig.
Athugasemdir
Alveg sammála þér Svavar... auðvitað klikkað stefnan líka...
Værum við í þessum sporum ef Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn hefðu ekki einkavætt bankana?
Þessir flokkar komu bönkunum í hendur auðmönnum sem kunnu ekki að reka banka og settu þá á hausinn á örfáum árum og þjóðina með... það var því bæði fólkið og stefnan sem klikkaði hjá Sjálfstæðismönnum...
Brattur, 1.3.2009 kl. 23:02
Líka sammála. Ég tel að ekki eigi að endurnýja traust til flokkanna. Það er tímabært að henda þessu flokkakerfi á haugana og byrja upp á nýtt. Þeir eru allir hluti af þessu lénsherraskipulagi sem er að gera út af við þessa þjóð. Kannski þurfum við erlenda menn í verkin á meðan þessir draugar taka síðustu krampana.
Jón (IP-tala skráð) 2.3.2009 kl. 09:55
Klikkað lið, klikkuð stefna!
Sigurður Þór Guðjónsson, 3.3.2009 kl. 00:11
Hins vegar má líka benda á það að kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru oft þriðjungur þjóðarinnar. Þá veltir maður því fyrir sér hvort hver og einn kjósandi þess flokks hafi gert sér ljósa þessa stefnu flokksins þegar hann greiddi atkvæði sitt með honum. Það er spurning hvort að það þurfi að láta fólk taka einhverskonar hæfnispróf í stjórnmálum áður en það fær kosningarétt. Hvort betra væri að þeir sem ekki skilja til hlítar hvað flokkarnir eru að bjóða uppá fyrir kosningar ættu ekki bara að sitja heima á kjördag - eða gera alla vega þá kröfu til flokka að stefnumál þeirra séu skiljanleg venjulegu fólki þannig að það viti nokkurn veginn í hvaða þjófélagi það býr að fjórum árum liðnum.
Gísli Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 21:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.