Blóm og brækur

paniepesci-400x310[1]Ber ekki öllum málsmetandi hagfræðingum saman um að neyslan haldi hagkerfum okkar gangandi?

Neyslan er erótík efnahagslífsins.

Neyslan örvar vöxt.

Neyslan er lögmálið.

Og það lögmál gerði okkur að neytendum frekar en manneskjum.

Lögmál neyslunnar er ekki einungis eitthvað í fræðiritum sprenglærðra hagfræðinga. Lögmál neyslunnar birtist okkur í daglega lífinu.

Vegna lögmáls neyslunnar er sælgætið haft í augnhæð barna okkar við afgreiðslukassa stórmarkaðanna.

Lögmál neyslunnar breytir börnunum okkar í neyslusvipur.

Hið sama lögmál lætur spila útspekúleraða neysluhvetjandi tónlist í mollunum.

Lögmál neyslunnar krefst þess að stjarnfræðilegum upphæðum sé varið í auglýsingagerð. Meðalborgarinn í vestrænu samfélagi er talinn verða fyrir sirka tólfhundruð auglýsingaáreitum daglega.

Lögmál neyslunnar endurhannaði fyrir okkur lífið.

Einu sinni mætti stórfjölskyldan í sunnudagsvöfflukaffi til ömmu.

Núna er amma keyrð í mollið á sunnudögum og allir kaupa og drekka vöfflukaffið þar eftir að hafa fyllt töskurnar af neysluglingri.

Hvíldardagurinn er orðinn neysludagur.

Hátíðisdagar ársins eru það líka. Hver þeirra hefur eignast sína ákveðnu tegund af neyslu og svo eru þeir alltaf að finna upp nýja tyllidaga sem krefjast nýrra kaupa; á Valentínusardeginum á að kaupa blóm og brækur handa konunni.

Á föstunni eigum við ekki að hugsa um það sem við þurfum heldur leiða hugann að því sem við getum verið án.

Fastan nær hámarki sínu á föstudeginum langa. Sá dagur var einhver óvinsælasti og fáránlegasti dagur góðærisins. Föstudagurinn langi er langur vegna þess að hann er langt frá neysluhyggjunni.

Neysluþjóð veit ekkert hvað hún á að gera við þannig dag.

Ekkert rosalega mörg ár eru síðan Íslendingar fengu ofnæmi fyrir föstudeginum langa. Það var held ég um svipað leyti og Stöð 2 hóf útsendingar.

Á föstudeginum langa eru búðirnar lokaðar og hvorki hægt að kaupa sér glingur né vöfflur með ömmu. Á föstudeginum langa eru okkur allar bjargir bannaðar.

Ekki er nema von að helstu píslarvottar föstudagsins langa tóku að spila bingó á Austurvelli í mótmælaskyni við fyrirbærið.

En ef til vill er ógeðið sem við höfum á föstudeginum langa ein birtingarmynd neysluæðis okkar, þeirrar staðreyndar að við neyttum okkur til óbóta?

Og ef til vill er tími föstudagsins langa að koma aftur?

Dagur hinnar löngu föstu eftir nótt hins skammsýna óhófs?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Heldur þú virkilega að bingó á föstudaginn langa snúist um neyslu? Ef svo ertu vitlausari en ég hélt.

Matthías Ásgeirsson, 3.3.2009 kl. 23:31

2 identicon

Matthías, ég held að þú sért eitthvað að misskilja...

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 09:26

3 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Á föstudeginum langa eru búðirnar lokaðar og hvorki hægt að kaupa sér glingur né vöfflur með ömmu. Á föstudeginum langa eru okkur allar bjargir bannaðar.

Ekki er nema von að helstu píslarvottar föstudagsins langa tóku að spila bingó á Austurvelli í mótmælaskyni við fyrirbærið.

Hvað er ég að misskilja?

Matthías Ásgeirsson, 4.3.2009 kl. 10:42

4 identicon

Fín grein hjá þér Svavar og sannleikur þó "erfitt" sé að viðurkenna.

Lengi vel var það dagskráin í útvarpi og sjónvarpi sem var full þung flesta helga daga sem og aðra frídaga að mínu mati og sumir reyndu þá að finna sér aðra "afþreyingu".  Eftir að stöðvum fjölgaði snérist dagskráin hins vegar til betri vegar fyrstu árin en smátt og smátt þróaðist hún í tilgangslausa sápuóperu sem með örfáum undantekningum var horfandi á.  Þessu get ég stjórnað með því að slökkva á tækinu og það geri ég oft og sný mér að einhverju þarfara.  Aldrei hef ég haft það á minni tilfinningu eins og Matthías kemur inná hér ofar að mér hafi verið "allar bjargir bannaðar" á frídögum.  Ef sú tilfinning hefði blossað upp hjá mér þá hefði ég leitað til læknis og sennilega geðlæknis.  Jól og páskar hafa hjá mörgum snúist uppí neyslubrjálæði bæði í mat og drykk auk glingurs sem hvorki kætir né bætir manninn.  Verði ég kallaður vitlaus fyrir þessi orð mín þá er það bara allt í besta lagi, það er skárra að vera vitlaus en heimskur.  Og svona að lokum, ég veit í hvaða búðum ég get verslað glingur á frídögum, glingur sem fyllir sál mína friði og fögnuði......  en í hvaða búðum fást "vöfflur með ömmu" ?   maður er hættur að fylgjast með vöruúrvalinu í þessu neysluþjóðfélagi.

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 18:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband