Alveg endilega gera ekki neitt!

DolceFarNiente[1]Helgidagarnir voru miklir þrándar í götu græðgisvæðingarinnar.

Síðustu árin hefur sárlega verið undan þeim kvartað. Helgidagarnir pössuðu ekki inn í samfélag þar sem eina lögmálið átti að vera markaðsins.

Fastan var óskaplegur kross á herðum markaðssamfélagsins enda passar fastan ekkert vel við neyslu.

Föstudagurinn langi var held ég óvinsælasti dagur útrásarinnar.

Dagamenningin skyldi lúta lögmálum viðskiptanna. Af hverju ættu menn ekki að geta keypt sér ost á sunnudögum? Af hverju mátti ekki fara í Kringluna á nýársdag? Og hvers vegna í ósköpunum mátti ekki spila bingó á föstudeginum langa?

Þegar kirkjan - ásamt verkalýðshreyfingunni að mig minnir - mótmælti græðgisvæðingu hvítasunnudags skrifaði leiðarahöfundur DV (var það ekki Óli Björn?):

Enn á ný stekkur forneskjan upp úr greni sínu og gerir landsmenn forviða.

Þannig voru þeir nú brennimerktir sem leyfðu sér að andæfa Þróuninni. Þeir voru gamaldags.

Og unnu sér það til óhelgi að gera landsmenn forviða.

Nú er fasta og bráðum kemur föstudagurinn langi. Á hinu forbankahrunda Íslandi kvörtuðu menn sáran undan þeim degi. Þá var ekkert hægt að gera.

Það var ekkert hægt að gera vegna þess að ekki mátti fara í Kringluna.

Eða spila bingó.

En burtséð frá öllu þessu og burtséð frá helgidögum erum við ekki hundrað prósent manneskjur fyrr en við uppgötvum gildi þess að gera ekki neitt.

Á ítölsku heitir það, svo ég slái um mig, il bel far niente.

Fegurð þess að gera ekkert.

Sem kostar yfirleitt ekki neitt heldur.

Kannski þess vegna er það svo illa séð?

Myndin með færslunni er af málverki eftir enska málarann John William Godward (1861 - 1922) og nefnist Dolce far niente (sætleiki þess að gera ekkert).

Verum dugleg að gera ekkert - og gera landsmenn forviða!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég vona að tími græðginnar sé liðinn í samfélagi okkar. Að manngildið fái sinn réttmæta sess. Að mennskan fái að skína og njóta sín án spurningarinnar um auð og völd. Að það að vera til og hlúa að sjálfum sér fái sitt verðuga rúm. Að manngildið verði metið ofar auðgildinu.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 23.3.2009 kl. 02:21

2 Smámynd: Aida.

Amen. Drottinn blessi þig Svavar.

Aida., 23.3.2009 kl. 09:01

3 identicon

Mikið var þetta þörf ábending og gott fyrir okkur sem leyfum okkur stundum að gera ekki neitt og njótum þess virkilega, en höfum varla þorað að viðurkenna það fyrir "ofurfólkinu" sem kallar okkur löt og það að gera ekki neitt sé að fara illa með tímann. Takk!!!!!

Kv. Gógó.

Þorgerður Gísladóttir (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 10:14

4 Smámynd: Anna Dóra Gunnarsdóttir

HÚRRA, HÚRRA, ég á mér samherja.  Mér finnst stundum gott að gera ekki neitt.  Samt finnst mér ég ekki vera neitt löt, bara lunkin í þessari miklu kúnst. 

Anna Dóra Gunnarsdóttir, 23.3.2009 kl. 21:10

5 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Flott mynd!  Fyrir nokkrum dögum stóð ég einmitt fyrir framan tvö af málverkum þessa málara J.W.Goodward.  :)   Skrifaði síðan smá blogg eftir þá safnaheimsókn mína.

http://www.formosus.blog.is/blog/formosus/entry/831058/

Baldur Gautur Baldursson, 24.3.2009 kl. 08:07

6 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Það sem mér finnst skemmtilegast að gera er að gera ekkkert minnir mig að Jakob hafi sagt við Bangsímon og þeir félaga vissu hvað þeir sungu.

Hér á bæ er það kallað að hanga og er mjög eftirsótt, ungir og gamlir hanga saman. Einhver sér þó um smá næringu fyrir munn og maga en finnst hann samt vera að hanga. 

Og eftir allt þetta hang eru allir endurnærðir og úthvíldir. (Það þarf ekki snúrur til að hanga)

Kveðja, HP

Hólmfríður Pétursdóttir, 24.3.2009 kl. 17:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband