Blessaður fjórflokkurinn

Ég held að við séum að kjósa of snemma. Ekki er komið á hreint hvað sé í raun verið að velja. Uppgjörið við hrunið er of skammt á veg komið. Rannsóknarnefndir hafa ekki skilað neinum niðurstöðum. Við vitum ekki einu sinni hvað við skuldum nákvæmlega sem þjóð. Lítil umræða hefur farið fram um ný gildi - eða endurreisn eldri. Búsáhaldabyltingin afsleifaðist um leið og "geðþekkara" fólk komst í ráðherrastólana. Andófið þagnaði við dabbalabbið úr Seðlabankanum.

Ný framboð hafa ekki haft nógu mikinn tíma til að skilgreina sig og skipuleggja. Hvað þá að kynna stefnumál sín fyrir alþjóð.

Fátt er léttara að segja en "það hefði átt að..". Samt segi ég: Það hefði átt að mynda þjóðstjórn í október. Kjósa síðan í haust eða næsta vetur.

Nú er í tísku að hamast í fjórflokknum. Það er ekki að ástæðulausu. Fjórflokkurinn gamli ber mikla ábyrgð á ástandinu, einkum B, D og S.

Ég er nú samt svolítið skotinn í fjórflokknum. Mörg stefnumál hans eru ágæt. Þetta finnst mér um fjórflokkinn:

Samvinnustefnan er eitt helsta ágæti Framsóknarflokksins. Ég bý í annáluðum kaupfélagsbæ og hugsjónir kaupfélaganna eru held nokkuð sem orðið er tímabært að skoða og endurvekja. Framsóknarmenn hafa líka verið eindregnir málsvarar landbúnaðar og sveitamenningar. Ekki hefur sú árátta þeirra alltaf verið vel séð en ég held að komið sé á daginn að þeir höfðu á réttu að standa. Framókn er samt helst til of mikill klíkuflokkur fyrir minn smekk.

Stefna Samfylkingarinnar er í mjög mörgum greinum sú sem ég aðhyllist. Samfylkingarfólk styður þennan skandínavíska kapítalisma sem ég held að sé skásta hagkerfi heimsins. Samfylkingin hefur á að skipa miklu af velþenkjandi jafnaðarmönnum sem eru með hjartað á réttum stað. Að minni hyggju er gallinn við Samfylkinguna popúlismi og röng stefna í Evrópumálum.

Sjálfstæðisflokkurinn er enginn smásmíði (eða var það?). Hann er flokkur ættmenna minna. Amma sáluga sagðist kjósa Flokkinn þótt fjandinn væri þar á lista. Flokkurinn á sér mjög trygga áhangendur sem gerir það að verkum að hann getur leyft sér meira en aðrir. Sjálfstæðisflokkurinn sýnir stundum mikið hugrekki og honum er treystandi til að vinna óvinsæl en nauðsynleg verk. Hann veitir skattaglöðum yfirvöldum aðhald og stendur vörð um frelsi einstaklingsins til orða og athafna. Helsti veikleiki Sjálfstæðisflokksins er frjálshyggjan.

Mér finnst Vinstri græn mesta hugsjónafólkið í íslenskri pólitík. Þar þorir fólk að leggja sig sjálft að veði. Mörg baráttumál Vinstri grænna eru mér mjög að skapi. Vinstri græn eru stundum sökuð um að vera naív og afturhaldssöm. Ég tek ekki undir það og er viss um að stefna flokksins er á margan hátt sú nútímalegasta hér á landi - ekki síst í umhverfis- og atvinnumálum. Það háir Vinstri grænum hvað þeir eru oft neikvæðir og nöldursamir. Örlítið meiri húmor kæmi heldur ekki að sök.

Frjálslyndi flokkurinn tilheyrir eiginlega ekki þessu skema en samt er hann á margan hátt hin geðslegasta hreyfing.

Þangað er til dæmis kominn vinur minn, Kalli Matt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: TARA

Það er rétt hjá þér...það er of snemmt að kjósa...

LOL...ég hefði viljað kynnast henni ömmu þinni...

TARA, 28.3.2009 kl. 21:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband