22.4.2009 | 09:47
Evrópusambandsmafían
Nú á dögum þykir voða fínt að tala um að þjóðin eigi að fá að ráða. Þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að fara fram um hin ýmsu mál.
Ekki hef ég á móti því en eitt verður þó að benda á: Eigi þjóðin að fá að ráða og greiða atkvæði um mál sem hana varðar verður að tryggja að hún sé vel upplýst um það sem hún á að taka afstöðu til.
Ég er viss um að margir þeirra sem tala þannig um að þjóðin eigi að ráða gera það af einlægri lýðræðisást.
Ég er jafnviss um að stór hópur þeirra sem tala fjálglega um að þjóðin eigi að ráða gera það vegna þess að þeir telja sig vera í góðri aðstöðu til að geta mótað álit þjóðarinnar. Eru nokkuð vissir um að þjóðin muni taka afstöðu þeim að skapi.
Þjóðin á að ráða (en við stjórnum því svo hvað hún vill).
Umræðan um Evrópusambandið er eitt dæmi um þetta. Daglega er áróðri um ágæti Evrópusambandsins dreift inn á stærstan hluta heimila landsins.
Ég á hér að sjálfsögðu við Fréttablaðið.
Fjölmiðlar, pólitíkusar ásamt stórum og fjölmennum hagsmunasamtökum keppast við að telja okkur trú um að eina von Íslands sé að þjóðin afsali sér fullveldi sínu og gangi í Evrópusambandið.
"Þið ráðið þessu," er sagt við okkur, "en þið eruð algjörir hálfvitar og asnar ef þið ráðið ekki rétt."
Það á að vera svo ofboðslega púkó að vera ekki í Evrópusambandinu. Sé Ísland ekki þar erum við einangruð. Kúba norðursins.
Þessu er haldið fram af sæmilega upplýstum mönnum. Mönnum sem vita að Ísland er svo sannarlega ekki einangrað land. Það tekur mjög virkan þátt í alþjóðlegu starfi. Sameinuðu þjóðirnar, Norðurlandaráð, NATO og EES eru dæmi þar um.
Ísland er ekki einangrað utan Evrópusambandsins. Ekki frekar en Noregur.
Dugi ekki að segja að það sé púkó og hallærislegt að vera utan Evrópusambandsins er gripið til hótana.
Við eigum að fá að ráða - en hér hrynur bókstaflega allt ef við ráðum vitlaust.
Samkvæmt því er Evrópusambandið einhvers konar fjölþjóðleg götustrákaklíka. Þeir þrífast sem innan þess eru en hinir mega detta og liggja.
Í haust heimsótti ég bóndabæ í Þýskalandi. Bóndinn þar var ekki hress með Evrópusambandið - eins og reyndar stór hluti Þjóðverja. Þetta væri skriffinnskubákn og Ísland ætti ekkert erindi þangað.
Sá þýski sagði mér að eftir evruna hefðu þýskir bændur fengið minna fyrir afurðir sínar en áður en þó þurft að leggja á sig miklu meiri vinnu. Neytendur hefðu ennfremur þurft að greiða hærra verð fyrir vörurnar.
"Evrópusambandið er hvorki fyrir framleiðendur né neytendur. Það er fyrir milliliðina," sagði bóndinn þýski.
Ég er ekki viss um að Íslendingar fái að vita allt um Evrópusambandið. Það þjónar einfaldlega ekki hagsmunum þeirra sem mest ligur á í þau samtök að hafa þjóðina vel upplýsta áður en hún "fær að ráða".
(Myndin með færslunni er af nauti bóndans þýska. Evrópusambandsnautin eru ekkert digurri en önnur.)
Athugasemdir
Algjörlega sammála þér, og þjóðin er svo langt því frá upplýst og svo margir sem eru ekki í aðstöðu til að taka upplýsta afstöðu, en láta slagorða fyrirsagnir villa sér sín. Það er mikil vinna fyrir hvern og einn að taka upplýsta ákvörðun um þetta mál, og svo sannarlega er ekki hægt að treysta stjórnmálamönnum til að fræða okkur. Og fjölmiðlar mata fólk bara á hinu jákvæða en sópa undir mottuna öllu hinu neikvæða, því það er allt of mikil vinna að skoða þau mál niður í kjölinn.
(IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 10:21
Upplýsingar myndu leiða til sömu niðurstöðu hér og þær gerðu í Frakklandi 2005. Forsetinn ákvað að dreifa Stjórnarskrá Evrópusambandsins, sem þá var til afgreiðslu, í hvert hús í landinu. Á einni viku jókst andstaðan um 10 prósentustig og samningurinn var felldur í þjóðaratkvæði.
Haraldur Hansson, 22.4.2009 kl. 10:54
Góður punktur.
Bolinn á myndinni er nú samt ansi vænn, en hann er gamall þessi. Jafngömul skepna af sama kyni, en alin upp hérna væri ekki minni.
Jón Logi (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 18:08
Það er rétt að margt í ESB umræðunni er ekki mjög upplýsandi eða málefnalegt. Þessi vitnisburður þýska bóndans bætir svo sem ekki miklu við þá umræðu.
Fullyrðingar um að allt fari fjandans til og að þjóðin fái engu ráðið um sín mál ef gengið er í ESB eru ef eitthvað er meira áberandi en fullyrðingar um að allt lagist í hvelli ef inn er gengið.
Afstaðan í þessum málum á að mínu mati að byggjast á hagsmunamati þar sem á það er látið reyna hvernig aðildarsamningi við getum náð. Í annan stað er þetta spurning um það hvernig við viljum skipa okkur meðal þjóðanna, þ.m.t. þeirra þjóða sem við eigum langsamlega mest sameiginlegt með bæði efnahags- og menningarlega.
Reinhard Reynisson (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 21:08
Afhverju einblína menn alltaf á evru?? er sambó kannski búin að lofa uppí ermina á sér með múturpeningum frá ESB einsog þeir eru þekktir fyrir að nota til að nauðga þjóðum inní ESB.Við búum á besta stað í heimi og ég vill ekki að einhver Brussel ketlingur segi mér í framtíðinni um það hvenær ég megi fara á klósettið af því að hann bjó til reglu um það!! nei takk.Það eru miklir möguleikar að opnast fyrir okkur kannski í olíu og kannski líka þegar siglingaleiðin norðurfyrir Grænland opnast og ekki vill ég að einhverjir spilltir ánskotar í Brussel hirði það af okkur.Það virðist vera voða viðkvæmt að ræða um aðra möguleika tildæmis að ath með Dollar sem væri mun heppilegra fyrir okkur einsog er og tæki ekki eins langan tíma að koma í gagnið og evru.Er ekki aðalmálið í dag að koma stöðugleika á okkar gjaldmiðil svo að við getum haldið áfram?og ég held að það gerist ekki í sambandi með ESB þar sem allt er á niðurleið og hver hugsar um sjálfansig..
Marteinn Unnar Heiðarsson, 22.4.2009 kl. 22:33
Ekki falla í sömu gryfju og sumir stjórnmálamenn og halda að fólk sé fífl.
föllum ekki fyrir áróðri litlu göbbelsana sem alltaf skjóta upp kollinum í svona málum.
Hugsum sjálfstætt og tökum ákvarðanir sjálf um hvort við viljum afsala sjálfstæðinu í hendur Evrópuauðvaldinu,fylgjumst með fréttum ekki bara úr fréttablaðinu.
Ég hef eingar áhyggjur af að fólkinu í landinu það er ekki fífl
Höskuldur Pétur Jónsson (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 09:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.