11.5.2009 | 12:09
Þjóðinni er ekki treystandi
Atferlisfræði ákvarðananna lítur einhvern veginn svona út:
- Þú skynjar aðstæðurnar
- Þú íhugar möguleg viðbrögð
- Þú finnur bestu viðbrögðin
- Þú grípur til aðgerða
Mér skilst að hingað til hafi fræðimenn talið þriðja stigið mikilvægast. Ekkert skipti meira máli en valið á réttu viðbrögðunum.
Nú eru menn farnir að efast stórlega um það - ekki síst í ljósi efnahagskreppunnar.
Kreppan er jú ein sorgarsaga rangra viðbragða, bæði fyrirtækja og stjórnvalda.
Nú beina menn athyglinni að fyrsta stiginu.
Ef til vill er ekkert mikilvægara en að skynja aðstæðurnar. Meta þær eins vel og framast er unnt.
Öll hin stigin hljóta að vera háð því hvernig okkur gengur á því fyrsta.
Nú getum við ekki metið allar aðstæður. Til þess er veruleikinn of flókinn.
Fjölmiðlar eiga að hjálpa okkur að meta veruleikann, skynja hann og gera okkur grein fyrir honum.
Ef við skoðum aðdraganda bankahrunsins á Íslandi held ég að fáir haldi því fram að fjölmiðlar hafi staðið sig vel í því að meta aðstæðurnar.
Fræðimenn féllu líka á því prófi eins og Ann Pettifor benti á í viðtali í Silfri Egils í gær.
Við vorum ekki vöruð við þeim rosalegu hættum sem fólust í ástandinu. Tækifærin voru á hinn bóginn hafin upp til skýjanna.
Umræðan var einhliða.
Valið sem Fréttablaðið efndi til á besta auðmanninum er eitt skýrasta og neyðarlegasta dæmið um það.
Ekki var tekið mark á þeim fáu sem vöruðu við ástandinu og lítið gert úr þeim.
Og nú virðist sagan vera að endurtaka sig.
Umræðan um Evrópusambandið er að mínu mati mjög einhliða.
Kostir þess að ganga í Evrópusambandið eru prísaðir en göllunum lítill gaumur gefinn.
Þeir sem efast um aðild eru sagðir einangrunarsinnaðir sveitamenn og þjóðernissinnar sem þiggja greiðslur frá kvótagreifum fyrir skoðanir sínar.
Þar að auki á þjóðin ekki að að fá að vera með á fyrsta stiginu í þessu máli.
Henni er ekki treystandi til þess.
Þau sem hæst hafa talað um aukið lýðræði og að færa eigi völdin til fólksins vilja ekki að þjóðin fái að ákveða hvort sækja beri um aðild að Evrópusambandinu.
Enda sýnir sagan að stjórnvöld þurfa ekki hjálp þjóðarinnar við að lesa vitlaust í aðstæðurnar.
Þau eru fullfær um það sjálf - með dyggri aðstoð fræðimanna og fjölmiðla.
Athugasemdir
Þjóðin hefur víst bara "vitið í lagi" þegar kosið er til alþingis og þar geymir hún vitið á milli kosninga.
Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 17:24
Mjög góð samantekt. Það væri feygðarflan að láta þjóðina kjósa um svo mikilvægt málefni þegar að upplýsingaflæðið er eins og það er.
Haraldur Gísli Sigfússon (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 20:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.