Skaufhalaskokk og skógargöngur

CSC_0028Nú í kreppunni sjáum við betur ýmis lífsgæði sem við vorum kannski ekkert sérstaklega að hugsa um í óðærinu eins og skáldkonan kallaði það.

Við sem búum á Akureyri njótum þess að eiga margar skemmtilegar gönguleiðir í næsta nágrenni bæjarins.

Þær eru með ýmsu sniði. Hægt er að stunda fjörulall, skógargöngur, fjallaklifur, árbakkabrölt eða þúfnahopp svo nokkuð sé nefnt.

Sem minnir mig á minn gamla kennara dr. Hallgrím Helgason sem fann íslenskt heiti á danstegundina foxtrot og nefndi að mig minnir skaufhalaskokk.

Hér er enginn vandi að skella sér í skaufhalaskokk líka sé fólk í þannig skapi.

Við félagarnir höfum verið hörkuduglegir í göngutúrum undanfarnar vikur. Stefnum á að ganga á Kerlingu í sumar. Alla vega Súlur. 

Í það minnsta upp á öskuhauga.

Við erum búnir að labba heilmikið inni í Kjarna og lítum hýru auga á nýja stíginn fram í Hvammsskóg. Einnig höfum við gengið um Naustaborgir. Þar var gaman að ganga. Fjölbreytt landslag, trjágróður, rjóður og klappir. Næst ætlum við að kanna gamla Gróðrarstöðvarskóginn.

Eyfirskur vinur sagði okkur að það væri engu líkt að ganga um skóginn fyrir ofan Kristnes. Því trúi ég vel og þar verður tekin hressileg ganga fyrr en síðar.

Í göngutúr kvöldsins hafði ég nýju myndavélina mína með mér. Hún er góður ferðafélagi. Hér að ofan má sjá flókaprúðar sinuþúfur í Kjarnaskógi.

ES

Var að lesa frábæra ræðu Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur. Hún passar ágætlega við þennan pistil og annað sem ég hef verið að krota hérna síðustu dagana. Lesið endilega ræðuna. Hún er á við góðan labbitúr.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband