Grátbænir

smablom

Nýfætt barn hefur engu áorkað.

Ekki komið neinu í verk - nema því að fæðast sem reyndar er heilmikið afrek.

Ungbarn hefur engin markmið. Það lifir ekki einu sinni frá degi til dags heldur frá mínútu til mínútu.

Við segjum að börnin séu óskrifuð blöð. Fullorðna fólkið er ekki óskrifað.

Við erum þvert á móti þéttskrifuð. Við gerum áætlanir. Við höfum áform. Við eigum drauma og þrár. Við lifum ekki frá mínútu til mínútu. Heldur ekki frá degi til dags. Við lifum fyrir það óorðna. Það sem enn er ókomið.

Þess vegna höfum við áhyggjur. Þess vegna erum við kvíðin. Við höfum áhyggjur af því að framtíðin verði ekki eins og við vorum búin að ákveða að hún yrði. Við kvíðum því að eitthhvað gæti komið fyrir sem ýtti okkur af lífsstefnu okkar.

Lítil börn eru ekki áhyggjufull og heldur ekki kvíðin. Þau hugsa ekki um framtíðina. Þau lifa í núinu. Þau eru ánægð ef einhver annast þau í núinu.

Lítil börn lifa lífinu sem þiggjendur. Þau vita ekki margt. Þau vita samt nóg. Þau vita að þau eru upp á aðra komin.

Þess vegna kunna þau að gráta. Grátur ungbarns segir:

"Nú þarf að sinna mér."

Gráturinn er tenging barnsins við umheiminn.

Grátur barns er á vissan hátt trúarjátning þess. Barnið grætur í trú.

Barnið grætur í þeirri trú að grátur þess hafi þýðingu.

Hvert tár birtir þá trú barnsins að einhver sé til sem geti annast það.

Myndin: Eilífðar smáblóm með titrandi tár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Langt seilistu í tengingunum séra minn.

Jón Steinar Ragnarsson, 6.6.2009 kl. 12:22

2 identicon

Hvítvoðungur er ekki lengur óskrifað blað, heldur lögskráður skuldari fyrir hönd óreiðumanna.

Fimmta valdið (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 15:53

3 Smámynd: Halldóra Lára Ásgeirsdóttir

Takk fyrir þetta Svavar Alfreð.Þeir sem eiga börn hljóta að skylja þetta sem þú segir.Barnið þarf styrka hönd til þess að leiða sig og hlyja hönd sem strykur tárin. Og við öll þurfum á Jesú að halda.

Bestu kveðjur til Akureyrar og Guð veri með þér.

Halldóra Lára Ásgeirsdóttir, 6.6.2009 kl. 16:58

4 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Munurinn á þessarri trú barnsins og þinni trú er, að barnið sér og þreifar á foreldrum sínum og þeim sem sinna því, en þú trúir á eitthvert óáþreifanlegt og óskilgreinanlegt fyrirbrigði sem þú kallar Guð.  Barnið fær trú sína stöðugt staðfesta, en myndi fljótt missa hana ef foreldrarnir yfirgæfu það.  Guðinn þinn lætur aldrei sjá sig og skiptir sér ekkert af þér, eða nokkrum öðrum.  Þetta tvennt er að mínu mati gerólíkt.

Theódór Gunnarsson, 6.6.2009 kl. 19:07

5 identicon

Svavar heldur fast í tálsýnina um að lifa að eilífu, hann myndi ekki trúa einu orði í biblíu ef þess fölsku loforð og hótanir um pyntingar væru ekki til staðar

DoctorE (IP-tala skráð) 8.6.2009 kl. 14:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband