1.7.2009 | 10:39
Rangur maður
Ég er einn af ranga fólkinu.
Þjóðfélagið er alltaf að meta okkur. Við erum vigtuð eins og lömb af fjalli. Þessi árátta sást um leið og við fæddumst.
Ég get alveg skilið að fólk vilji fá að vita hvort nýfætt barn sé strákur eða stelpa. Hitt finnst mér meiri ráðgáta hvers vegna þyngd barnsins skiptir svona óskaplega miklu máli. Það er sennilega eitt fyrsta matið sem á okkur er framkvæmt.
Fæðingarsögur eiga það sameiginlegt með veiðisögum að þar skiptir þyngdin máli. Og í báðum tilfellum er stuðst við fremur exótískar þyngdareiningar. Mörk og pund.
Vigtunin á fæðingardeildinni er bara upphafið. Næstu mánuðina erum við vigtuð og metin.
Hver er þroskinn? Hvenær byrjaði hann að tala? Hvenær hætti hún á brjósti? Hvernig gengur að venja hann af snuði? Hvenær byrjaði hún að ganga?
Hann byrjaði að lesa löngu á undan henni.
Svo förum við í skólana, þær ógurlegu matsfabrikkur.
Við undirgöngumst alls konar próf og mat þegar við sækjum um vinnu.
Mörg önnur gæði fáum við ekki án þess að ganga í gegnum einhvers konar mat á hæfileikum okkar og getu.
Svo leggjum við mat á okkur sjálf.
Spurt er: Hvernig upplifir þú þig? Hvernig talar þú við þig?
Lögð er áhersla á að við þekkjum okkur sjálf, uppgötvum hæfileika okkar, könnumst við drauma okkar og reynum að láta þá rætast.
En ljónin í veginum eru mörg. Þau eru ekki síst annað fólk.
Eitt af því undarlegasta í veröldinni er sú staðreynd að óhamingjan er aðeins í örfáum undantekningartilfellum þeim að kenna sem fyrir henni verða. Hún er nánast alltaf öðrum að kenna.
Hin vigtuðu lömb verða fórnarlömb.
Leiðin liggur beint í sláturhúsið.
Alltaf er verið að hlunnfara okkur um eitthvað.
Við vorum of fáar merkur þegar við fæddumst og verðum of mörg kíló þegar við deyjum.
Við syndum alltof hægt í sundkennslunni.
Við ösnuðumst í vitlaust nám, réðum okkur í vitlausa vinnu og höfum of lágt kaup.
Við keyptum bíl sem bilar og hús sem lekur.
Eða hús sem bilar og bíl sem lekur.
Þjóðsöngurinn er:
"Ég er rangur maður...."
Menning okkar er óánægjumenning þar sem stanslaust er alið á fórnarlambamentalíteti.
Orð Jesú úr Matteusarguðspjalli:
Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil!
Myndin: Þessar liljur vaxa við bæjarlæk tengdó í Svarfaðardal.
Athugasemdir
Sæll,
Frábært innlegg í umræðuna hjá þér um þann vísitöluheim er við sækjumst svo mikið eftir að fá að lifa í? Að mínu mati er þetta allt hluti af valdafíkn þeirra er hafa ekki nógu sterka sjálfsmynd til að taka sjálfstæðar ákvarðanir, stuðlar þetta lífsmunstur því miður um of á eftirfarandi löstum.
Hinar sjö kristnu höfuðsyndir, eða dauðasyndirnar sjö eru eftirtaldar:
Hroki
Öfund
Reiði
Þunglyndi
Ágirnd
Ofát
Munúðlífi
Í Íslensku alfræðiorðabókinni er leti talin upp í stað þunglyndis. Þessar sjö syndir eru ekki taldar upp berum orðum í Biblíunni og því síður nefndar dauðasyndir.
Kv.
Atli
Atli (IP-tala skráð) 1.7.2009 kl. 11:56
Skyldi einhver enn halda því fram að þunglyndi sé synd, hvað þá dauaðsynd?
Sigurður Þór Guðjónsson, 1.7.2009 kl. 13:21
Aðalsteinn Davíðsson þýðir heiti þessara lasta svo í bók Jaakko Heinimäki Syndirnar sjö: Hroki, Ágirnd, Öfund, Heift, Munúð, Nautnasýki, Andleg leti.
Þessi andlega leti á ekkert skylt við sjúkdóminn þunglyndi. Ég man hvenær ég fattaði hvað þessi andlega leti er. Hún er eiginlega náskyld meðvirkni, að gera ekki nóg til þess að bæta eigið hlutskipti.
Og það er þá í samræmi við orð Atla að sá sem er tiltölulega sáttur og öruggur þarf ekki að láta spila með í darraðardansinum, og gengst keikur við því að vera stundum númer.
Hólmfríður Pétursdóttir, 1.7.2009 kl. 17:53
Ein mörk margar merkur.
Hólmfríður Pétursdóttir, 1.7.2009 kl. 17:57
Flott samantekt
Kjartan Pétur Sigurðsson, 1.7.2009 kl. 22:06
Takk, Hólmfríður, leiðrétti þetta.
Svavar Alfreð Jónsson, 2.7.2009 kl. 01:56
Sælir, vonandi er ég ekki að misskilja innleggið.
En samanburður getur verið erfiður, en það er ekki þar með sagt að maður þurfi að taka þátt í honum. Þá góða við þetta allt saman hvort sem það eru mörkin, skólarnir eða einhver annar mælikvarði þá getum við alltaf valið að leiða hann hjá okkur. Ég veit ekki hversu oft maður hefur komið að tómum dyrum hjá kennurum sem vissu ekkert hvert þeir voru að fara bæði hvað mig sjálfan varðar sem og börnin mín. Eða þá hjá öðrum, oft eru það ættingjar eða nánasta fjölskylda sem fær mann til að flissa mest í hljóði. Hér áður fyrr lét maður þetta pirra sig óskaplega, en síendurtekningar á þessu leiða það að verkum að maður sér kímnina og lítilvægi málsins í hnotskurn. Það að þjóðfélagið sjálft síðan setji mann í einhvern ramma er val, mæli með því að búa erlendis í einhvern tima, þú munt upplifa Ísland á annan hátt eftir það sem og önnur samfélög.
Það hefur yfirleitt nægt mér að setja mér mín eigin markmið og sætta mig við þau. Mér verður eiginlega að vera sama um aðrar hvatir eða mælikvarða fólks sem veltist um í einhverjum straumi sem er mér óviðkomandi. Í góðærinu mikla var ég öreigi með ranghugmyndir um ýmsa hluti, sama fólk vill meina í dag að ég sé skynsamur og lifi eins og blóm í eggi (skil það ekki).
Ég verð að vera ósammála þér með að óhamingja sé oftast af annarra manna völdum. Það er hisnvegar mjög auðvelt oft að túlka stöðuna þannig, en erfiðara að gera sér grein fyrir eigin sök.
Mæli síðan með frábærri bók sem ég hef stuðst við, The road less travelled.
Davíð Arnar (IP-tala skráð) 2.7.2009 kl. 09:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.