Að kaupa sér traust með því að níðast á þjóðinni

glerardalur1

Fréttablaðinu er stungið inn um blaðalúguna hjá mér nánast hvern einasta morgun.

Ekki hef ég beðið um þetta blað. Það berst mér án þess að ég þurfi að borga krónu fyrir það.

Það eru aðrir sem borga fyrir Fréttablaðið.

Það eru aðrir sem reiða fram stórar fúlgur til þess að ég geti lesið það sem stendur í  Fréttablaðinu.

Sumir hafa haldið því fram að tengsl séu á milli þessara velgjörðarmanna minna og þeirra sem fóru glannalega í útrásinni svokölluðu með þeim afleiðingum að þjóðarbúið lagðist á hliðina.

Nú er þetta blað einkum helgað greinum sem ætlað er að sannfæra mig um að ég og aðrir borgarar þessa lands eigum að borga fyrir skuldirnar sem glannarnir stofnuðu til í útlöndum.

Okkur er hótað öllu illu ef við borgum ekki.

Við einangrumst. Það vill enginn eiga samskipti við okkur. Við seljum ekki neitt.

Við erum siðlausir aumingjar ef við borgum ekki skuldir glannanna - segir Fréttablaðið sem fjármagnað er með peningum glannanna.

Í dag fjallaði leiðari Fréttablaðsins um það að borga þyrfti skilanefndarmönnum Landsbankans góð laun. Nefndarfólkið ætti helst að vera á prósentum.

En Icesave-skuldunum skal skellt á almúgann.

Enda skilst mér á Sighvati Björgvinssyni að Icesave-skuldirnar séu í raun tilkomnar vegna bílakaupa íslensks almennings - en grein þar að lútandi birtist við hlið leiðara Fréttablaðsins í dag.

Sighvatur telur ekki nema rétt mátulegt á Íslendinga að þeir axli meiri drápsklyfjar en Þjóðverjar í Versalasamningunum.

Íslendingar keyptu sér allt of flotta bíla.

Þjóðverjar komu þó ekki af stað nema einu stykki heimsstríði.

Grátlegust er þó grein kollega míns, Halldórs Reynissonar, sem birtist í Fréttablaðinu fyrir nokkrum dögum.

Hún ber yfirskriftina "Icesave - verðmiði á traust".

Og það grátlegasta sést strax í þeim orðum.

Halldór sér ekkert athugavert við það að menn kaupi sér traust.

Hann talar um verðmiða á því.

Hann beinlínis hvetur okkur til þess að kaupa okkur traust með því að taka á okkur skuldir sem margir telja að við ráðum ekki við.

Við höfum held ég lítið lært ef við höldum að traust sé hægt að kaupa fyrir peninga.

Og enn minna ef við höldum að traust sé hægt að kaupa fyrir peninga sem við eigum mjög sennilega ekki.

Og ekki ber það vott um sterkt siðferði ef menn telja að Íslendingar geti áunnið sér traust með því að níðast á eigin þegnum.

Siðlausir menn hafa ekkert með traust að gera.

Dæmin sýna að þeir nota traustið til að svíkja aðra og pretta.

Má ég frekar biðja um heiðarleika og réttlæti.

Þá getur verið að fólk fari að treysta okkur.

Og svoleiðis traust fæst hvorki keypt né er falt.

Myndin: Núna í góðviðrinu örkuðum við félagarnir glaðbeittir fram á Glerárdal með ekkert á bakinu nema kexpakka, tvo Svala og bílalánin okkar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er vel skrifuð og skýrt orðuð grein, Svarar Alfreð, sem allir hljóta að skilja, hvar í flokki sem þeir standa.

Tryggvi Gíslason (IP-tala skráð) 3.7.2009 kl. 12:56

2 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Í lýðræðisríki ber þjóðin ábyrgð á stjórnvöldum,líka þeim sem stjórna illa. Ef stjórnvöld setja þjóðina á hausinn, hvort heldur með eigin beinu aðgerðum, eða með því að líta undan meðan aðrir fá að gera það, þá situr þjóðin uppi með ábyrgðina. Hvort sem henni líkar það betur eða verr.

Nú er íslenska ríkið og þar með íslenska þjóðin í ábyrgð fyrir ríflega 20 þúsund erum á hverjum Icesave reikningi (sumir áttu sem betur fer minna inni en það).

Einhver mun bera það tjón. Við ábyrgðarmennirnir, eða inleggjendurnir? Hvort heldur er, ósanngjarnt.

En þeir sem tóku við þessum innleggjum, bankastjórarnir og þeir sem fengu innlegginn til ráðstöfunar, eigendur bankanna og helstu viðskiptavinir þeirra, bera ekki ábyrgð á endurgreiðslunni.

Soffía Sigurðardóttir, 3.7.2009 kl. 13:37

3 Smámynd: Elle_

Já, skuldum svikara skal pínt upp á þjóðina með þvingunum AGS, Breta og annrra ofríkisvelda. Það er ekki okkar skuldir.  Ná þarf öllu fyrst af svikurunum og með góðu eða illu.

Elle_, 3.7.2009 kl. 14:00

4 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Góð og skilmerkileg grein Svavar.  Takk fyrir.

Tómas Ibsen Halldórsson, 3.7.2009 kl. 14:40

5 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Frábær og hnitmiðuð grein.

Soffía hér að ofan talar um að þjóðin beri ábyrgð á stjórnvöldum í lýðræðisríkjum, það er satt en ég sé ekki mun á því sem fyrri ríkisstjórnir gerðu og því sem þessi ætlar að gera. Hvað mig varðar hefur engin ríkisstjórn leyfi til þess að skuldbinda þjóð sína á við þennan samning og við sem íslendingar verðum að koma í veg fyrir þetta sama hvar í flokki við stöndum. Við höfum engar forsendur til að standa við samninginn og það er ekki hægt að skapa traust með því að fallast á eitthvað sem þú annaðhvort ætlar ekki að standa við eða veist að þú getur ekki staðið við. Punktur basta! Nú er sem sé komið í ljós að við höfum vanhæfar ríkisstjórnir og hvað ætlum við að gera í því? Ekki getum við endalaust verið að skipta um stjórn? Nú þurfum við að standa saman og framkvæma ákvörðun um hvað skuli gera því við getum ekki samþykkt þennan samning eins og hann lítur út óbreyttur.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 3.7.2009 kl. 14:55

6 Smámynd: Elle_

Já, skrýtið að hlusta á fólk sem talar um Ice-slave sem okkar skuldbindingu.  Það eru ekki okkar skuldir.  Og það væri ofbeldi og svívirðing af yfirvöldum að leyfa okkur ekki að kjósa um Ice-slave.  Þeir vita að 60% landsmanna eru andvígir Icesave og ef þeir leyfa ekki þjóðar-athvæðagreiðslu um það eru þeir viljandi að svíkja okkur.  Og hvað varð um það að í alvarlegum málum ætti þjóðin að kjósa ef 15% hennar vildi það?  

Elle_, 3.7.2009 kl. 16:20

7 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þakka þér fyrir góða grein.

Endilega sendu þingmönnum afrit

Netföngin þeirra eru hér

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 3.7.2009 kl. 17:30

8 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Virkilega fín grein. En ég er ekki vissu um að það sé til mikils að senda öllum þingmönnum hana.  Afstaða þeirra margra er mér illskiljanleg. Þjóðinni er ætlað að taka afleiðingunum hvort sem ríkisábyrgðin verður veitt eða ekki. Samt vilja þeir helst halda sem flestum gögnum fyrir sig og þeir voru margir miður sín yfir því að samningnum við Holland skyldi lekið (frá hollensku nefndinni) í íslenska ríkisútvarpið. Halldór hefur eitthvað misskilið biblíusögurnar. Kristur tók á sig syndir heimsins sjálfviljugur en íslensku þjóðinni er ætlað að taka á sig gallaða Evrópulöggjöf ómeðvitað. Á þessu tvennu er umtalsverður munur.

Sigurður Þórðarson, 3.7.2009 kl. 18:35

9 Smámynd: Bryndís Böðvarsdóttir

Mjög góðir punktar hér. Manni finnst lítið fjallað um skandal Icesave í fréttablaðinu. Ef maður ber sig ekki eftir öðrum fréttum á maður á hættu að litast af þeirri afslöppuðu afstöðu sem þar ríkir gagnvart málinu.

Við kaupum ekki traust, heldur ávinnum okkur það með því að sýna að við séum traustsins verð. Líklega þurfum við meiri hörkutól í forustu þjóðarinnar til að taka á málinu. Einhverja sem eru að springa úr föðurlandsást og náungakærleika (vill þannig ekki að börnin okkar borgi skuldir þessara manna). Einhvern sem er tilbúinn að berjast hart fyrir frelsi okkar kæra lands.

Bryndís Böðvarsdóttir, 3.7.2009 kl. 19:43

10 identicon

Mér finnst nú soldið leiðinlegt að brjóta ölduna hér... en biblían styður klárlega við þrælahald, þannig að eitthvað þarf að skoða hornsteininn líka ha ;)

Peace

DoctorE (IP-tala skráð) 3.7.2009 kl. 21:58

11 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þetta er svakaleg lýsing, Kristinn, og þakka þér fyrir þýðinguna.  Þú veist auðvitað jafn vel og ég - og sjálfsagt betur - að til eru miklir heiðursmenn í stétt viðskiptamanna sem mega ekki vamm sitt vita.

Mörgum þeirra líður ekki vel þessa dagana. Ég hugsa oft til þeirra.

Aldrei höfum við haft meiri þörf fyrir heiðarlega viðskiptamenn en núna.

Svavar Alfreð Jónsson, 4.7.2009 kl. 00:12

12 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Sem sálfræðimenntaður tek ég fyllilega undir það sem Kristinn Pétursson skrifar hér að framan.

Ég er ekki alveg á því að fólk geri sér almennt grein fyrir hvað siðblinda er en hún er einmitt algjör skortur á því að geta sett sig í spor þess sem verið er að fara illa með.

Psychopat eða siðblindur einstaklingur er til dæmis einhver manneskja sem getur pyntað aðra manneskju til dauða með hræðilegum hætti án þess að finna nokkru sinni til samúðar með henni. Flestir hafa til dæmis séð einhverja kvikmynd um Hannibal (Silence of the lambs).

Þegar siðblindur einstaklingur kemst í valdastöðu til dæmis í banka þá gerir hann nákvæmlega það sem kemur honum einum best og skeitir engu um hvernig hann fer að því eða hvaða áhrif það hefur á líf annarra.

Þarf nokkuð að lýsa þessu betur?

Baldvin Björgvinsson, 4.7.2009 kl. 12:31

13 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Athyglisvert. Ég hef velt dálítið fyrir mér hvers vegna fólk verður psychopat eða siðblint. Mín skýring að hluta til er að fólk þoli ekki hina svokölluðu siðmenningu.

Við erum komin of langt frá frummanninum á einhvern hátt án þess að kunna að höndla það. þegar veiðieðlið fær ekki sína útrás á eðlilegan hátt fara tilfinningarnar í þennan sjúklega minnimáttarfarveg, held ég en er ómenntuð í þessum fræðum.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 5.7.2009 kl. 12:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband