11.7.2009 | 11:21
Góð þögn og hættuleg
Í síðustu færslu tilkynnti ég flótta minn frá fjölmiðlum og borgaralegu líferni.
Síðan þá hef ég lifað eins og "kóngur í eggi" austur á Vestmannsvatni.
Þar réri ég um vatnið, fylgdist með fuglum, lá í sólinni, veiddi silung, fór í göngur og grillaði hamborgara að hætti smáborgara.
Vestmannsvatn er unaðsreitur. Staðurinn er í eigu Þjóðkirkjunnar sem hefur rekið sumarbúðir á Vestmannsvatni í bráðum hálfa öld.
Sumarbúðareksturinn hefur reyndar verið með dálítið öðru sniði þetta sumarið.
Nú um helgina er Lúthersk hjónahelgi með mót á Vestmannsvatni og í næstu viku dvelja þar fornleifafræðingar sem eru að róta í moldinni í næsta dal, Þegjandadal.
Í næsta mánuði hefst fermingarskóli á Vestmannsvatni.
En mikið var gott að losna við argaþrasið. Ég hlustaði held ég einu sinni á fréttir þessa tæpu viku mína eystra.
Þó getur þögn fjölmiðla verið áhyggjuefni.
Þar á bæ verða menn að standa vaktina.
Fjölmiðlarnir brugðust í hruninu. Auðvitað líka bæði stjórnvöld og eftirlitsaðilar og allra helst túrbókapítalistarnir en fjölmiðlarnir stóðu sig ekki.
Þeir vöruðu okkur ekki við.
Þeir dönsuðu græðgispolkann með peningavaldinu.
Þeir hömpuðu glönnunum.
Nú heyrir maður að fjölmiðlar eigi að vera góðir við núverandi stjórn því hún standi í svo voðalega erfiðum flórmokstri.
Ég minni á að ríflega helmingurinn af núverandi stjórn er þá að moka eigin skít þaðan.
Ég minni líka á það sem Egill Helga hefur sagt, að fjölmiðlar eigi alltaf að vera í stjórnarandstöðu.
Það var heilmikið til í því hjá Agli.
Líka þó að hann hafi ekkert meint þetta því eftir að núverandi stjórn tók við bregður svo við að Egill vill ekki vera í stjórnarandstöðu lengur.
Nú tekur hann undir að menn eigi að vera góðir við stjórnina. Hún eigi svo bágt.
Sé einhvern tíma ástæða til að veita valdinu aðhald, hvar sem það er að finna og hvort sem um er að ræða stjórn eða stjórnarandstöðu, er það á örlagatíma.
Og hafi einhvern tíma verið örlagatími er það núna.
Þessi stjórn ætlar til dæmis að lemja í gegn að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu fyrir sumarfrí.
Annar stjórnarflokkurinn ætlar að svíkja kjósendur sína í því stórmáli.
Þingmenn eru beittir kúgunum til að ná fram réttri niðurstöðu.
Og þessi ríkisstjórn virðist ekki eiga sér neina ósk heitari en þá að láta þjóðina og komandi kynslóðir borgar ofurskuldir sem ekki er víst að hún eigi að borga.
En við skulum ekki styggja stjórnvöld því þau eiga svo voðalega bágt.
Efri myndin sýnir Vestmannsvatn úr Múlaheiði en á þeirri hér að neðan er horft til sumarbúðanna úr Höskuldsey (sem sést á þeirri efri).
Athugasemdir
Vestmannsvatnið er já sannarlega góður og fallegur staður og gott ef þú hefur náð að styrkja þrek og heilsu með dvölinni þar. Eitthvað var ég þar sjálfur sem ungur drengur, elsti bróðir minn líka umsjónarmaður búðanna um nokkurt skeið á árum fyrr.
Þú hefur þó vart lifað þarna sem "kóngur í eggi", frekar sem BLÓM í eggi, nú eða sem kóngur Í RÍKI Þínu!
Magnús Geir Guðmundsson, 11.7.2009 kl. 16:22
Og varðandi góða blaðamennsku að vera alltaf í stjórnarandstöðu, þá er þetta ein af eldgömlu kenningunum í blaðamannastéttinni hygg ég, Egill á ekkert í henni sem slíkri.
Magnús Geir Guðmundsson, 11.7.2009 kl. 16:52
Stundum er lífsnauðsyn að vera laus við fjölmiðla. Þeir kalla sig 5. valdið. Hver gaf þeim þetta vald er svo annað mál. En stundum er þögn og frí frá fjölmiðlum nauðsyn til að halda geðheilsu, svo mikið er vald eigendanna.
Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 11.7.2009 kl. 17:53
Eg er að vona að við lærum eitthvað nytsamlegt af þessu, m.a. að það er fleira nytsamlegt en peningar. Hugsanlega munu menn ekki taka án gagnrýni við trúarkennisetningum um að samfélagsleg eign, "dautt fé" og "fé án hirðis" sé eitthvað sem vert og leyfilegt sé að hirða. Vonandi munu menn átta sig á að heiðarleiki er dyggð. Kannski munu einhverjir hugleiða æðri gildi?
Hafðu það sem best við Vestmannavatn.
Sigurður Þórðarson, 11.7.2009 kl. 23:30
Eins og blómi í eggi, Maggi minn.
Blómi - eggjarauða.
Þorsteinn Briem, 12.7.2009 kl. 04:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.