25.7.2009 | 16:03
Sjálfsfyrirlitning þjóðar
Ráðamenn landsins eru ekki öfundsverðir. Þeir vinna undir miklu álagi. Sanngjarnt er að þeir njóti skilnings þjóðarinnar.
Þjóðin þarf að sýna stjórnmálamönnunum tilhlýðilega virðingu.
En sú virðing verður að vera gagnkvæm.
Stjórnmálamenn sem vanvirða þjóð sína munu ekki njóta virðingar hennar.
Og þar eru ein af hinum stóru mistökum íslenskra pólitíkusa.
Stundum finnst manni eins og þeir fyrirlíti eigin þjóð og hafi að leiðarljósi þau frægu ummæli úr viðskiptageiranum að fólk sé fífl.
Það var logið að þjóðinni í góðærinu. Útrásin sem stjórnvöld og fjölmiðlar kepptust við að mæra reyndist blekkingarleikur og svikamylla.
Þegar spilaborgin hrundi tóku stjórnmálamennirnir við lygakeflinu. Lygin heldur áfram.
Frá fyrstu stundum hrunsins hafa íslenskir stjórnmálamenn lítilsvirt og niðurlægt þjóð sína með lygum.
Þeir hafa orðið uppvísir að því að segja henni ekki satt. Þeir hafa stungið skýrslum undir stól. Enn eru að koma fram upplýsingar sem reynt var að halda leyndum og enn eru að finnast skýrslur og minnisblöð sem tengjast hruninu.
Ekki er nóg með að íslenska þjóðin hafi tapað sparnaði sínum og þurft að taka á sig stórkostlega lífskjaraskerðingu.
Þeir sem eiga að gæta hagsmuna hennar ganga gegn þeim. Þeirra pólitíski metnaður er þeim meira virði en hagsmunir almennings. Á þessum örlagatímum sér þjóðin engin merki þess að stjórnmálamenn hennar ætli að snúa bökum saman til að koma henni út úr hremmingunum.
Nei. Nú skal þvert á móti reynt að kljúfa þjóðina.
Nú skal upphefja klækjastjórnmál og bolabrögð.
Og stjórnmálamennirnir virðast ekki gera sér grein fyrir að Icesave-samningarnir snúast ekki bara um peninga.
Þeir snúast um stolt og sjálfsvirðingu.
Getur þjóð með snefil af sjálfsvirðingu látið kúga sig til að greiða skuldir sem hún stofnaði ekki til með peningum sem hún á ekki til?
Sú ráðstöfun að skella skuldum peningaglannanna á íslenska alþýðu kostar hana ekki bara fjármuni.
Það stelur af henni sjálfsvirðingunni.
En ef til vill er það markmið valdastéttarinnar í þessu landi?
Að hafa þjóð sem fyrirlítur sig sjálfa.
Ég verð ábyggilega áfram á þjóðlegu nótunum, er svo ofboðslega íslenskur eftir tónleika með Hinum íslenska Þursaflokki á Græna hattinum í gær. Myndina tók ég á hinn bóginn úti í Fjörðum sumarið 2006.
Athugasemdir
Thakka godan pistil og vel valin ord.
Bestu kvedjur
Islendingur (IP-tala skráð) 25.7.2009 kl. 16:31
Kennimaður sem kann að greina þjóðfélagsástandið og nógu hugaður til að deila með okkur niðurstöðunni. Takk fyrir.
Páll Vilhjálmsson, 25.7.2009 kl. 17:18
það er málið, svík og prettir -að koma aftan að þjóðinni ! brosa fyrir kosningar, en ekki þekkja kjósendur þegar komið er í stólana góðu !
Island er að mínu viti einstækt á jörðinni með vatnið, fiskinn í sjónum, orkuna og alla þá fegurð, hvar sem horft er. Var í Vestmannaeyjum núna 20 -23 júli ! þvílík unun að dvelja þar horfa út um gluggan og sjá Helgafell og Eldfell brosa á móti manni ! fór í sund, vatnið kemur frá fastalandinum og hitað upp með rafmagni, einnig frá fastalandinu! smækkuð mynd af hvað við getum gert í þeim málum, bæði fyrir frændi okkar Færeyinga og jafnvel evrópu, án þess að selja forræði okka sjálfra í annara manna hendur ! Og algjörlega mengunarlaust ! hefjum nýja sjálfstæðisbaráttu strax !
vestarr Lúðvíksson (IP-tala skráð) 25.7.2009 kl. 20:41
"Hressileg" og góð grein hjá þér Svavar.
Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 25.7.2009 kl. 22:02
Er ekki hreinlega tímabært að nýr stjórmálaflokkur yrði til úr okkar núverandi ónothæfu flokkakerfi, sem getur ekki tekist á við þær aðstæður sem nú blasa við á Íslandi.
Flokkur fullveldisinna, er hafi það á stefnuskrá sinni að Íslenska þjóðin komist upp úr kreppunni á egin verðleikum. Að yfirgangi AGS, gömlu nýlenduveldanna og alþjóðakapitalismans sé hafnað og við látum ekki kúga okkur með hótunum um td. að samþykkja Icesave. Sömuleiðis hafna ESB aðild. Flokkur sem þorir að taka slaginn fyrir sjálfstæði Íslands.
Slíkt bandalag gæti höfðað til sjálstæðisinna úr nánast öllunm flokkum, en líklega sterkast til hluta af núverandi sjálstæðisflokki og VG.
Bjarni Hafsteinsson (IP-tala skráð) 25.7.2009 kl. 23:33
Takk fyrir þessa góðu morgunhugvekju. Þessi pistill ásamt ýmsu öðru staðfestir fyrir mér að Akureyringar eru vel settir með presta.
P.s. Bið að heilsa Gunnlaugi ágætum starfsbróður þínum í Glerárhverfinu.
Sigurður Þórðarson, 26.7.2009 kl. 05:16
Takk fyrir þessa góðu grein, Svavar. Ég hugsa reyndar á mjög svipuðum nótum þessa dagana. Sjá hér:
http://www.jondan.is/jondan/?D10cID=ReadNews&ID=84
Jón Daníelsson, 26.7.2009 kl. 10:11
Þetta er alveg frábær pistill hjá þér og allt rétt sem þú segir.
Vandamálið við að stjórna landi er hins vegar að vega og meta hvað er rétt í stöðunni þegar litið er skammtímahagsmuna og langtímahagsmuna
Það sem þurfti að gera í haust og í vetur var hálfgerð hraðskák og þá getur nú ýmislegt farið illa og menn leikið af sér. Við Íslendingar lékum því miður af okkur trekk í trekk og síðan reyndu stjórnmálamenn að breiða yfir mistökin, með misjöfnum árangri.
Ég er hræddur um að við séum aðeins að sjá hluta af þeim samningi sem í boði er. Ég hef það á tilfinningunni að allt sé þetta hluti af stórri áætlun til bjargar Íslandi, sem verður eitthvað á þá leið, sem að neðan getur. Björgunaráætlunin verður að fara fram í ákveðinni tímaröð, til þess að allir sem að áætluninni koma - ESB, AGS, Norðurlöndin - samþykki að vera með í henni:
Þetta er allavega eins og ég sé þetta í augnablikinu. Auðvitað lítur þetta út eins og einhverskonar töfralausn, en það hlýtur eitthvað að vera að baki umsnúningi Steingríms J. og sumra félaga hans í VG, í afstöðu þeirra til ESB og AGS.
Auðvitað eru mörg ef og kannski þarna, en höfum við nokkuð annað hálmstrá til að halda í en vonina um að þessi mál leysist, t.d. á þennan hátt?
Það sem styrkir mig í þessum hugleiðingum, er að fjármögnun bankanna var enn einu sinni frestað fram í ágúst, þegar Icesave samningarnir verða afgreiddir frá Alþingi.
Þessu til viðbótar koma jákvæð viðbrögð ESB við aðildarumsókn Íslands, jákvæð viðbrögð utanríkisráðherra ESB og síðast en ekki síst jákvæð ummæli Joe Borg, framkvæmdastjóra fisveiðimála hjá ESB og Olli Rehn, framkvæmdastjóra stækkunarmála hjá ESB, þegar íslenskar sérlausnir hafa borið á góma í vetur.
Jafnframt kom skýrt fram í máli Franek Rozwadowski, sendifulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi, að endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands yrði fyrst tekin fyrir í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þegar gengið hafi verið frá lánum Norðurlandanna til Íslands. Íslenska ríkisstjórnin hefur hins vegar sagt að fyrst verði gengið frá lánum Norðurlandanna til Íslands þegar búið er að leysa Icesave deiluna við Hollendinga og Breta.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 26.7.2009 kl. 12:12
Ég get ekki verið þessu fyllilega sammála þó ég skilji gremjuna sem undir býr. Ég hef fylgst með lengi og tel að lygar hafa ekki oft verið fram bornar af stjórnmálamönnum en hálfsannindin eru mörg þegar upp er staðið. Stundum vissu þeir ekki betur á þeim tíma og stundum var þeim máls varnað vegna umræðu sem var á viðkvæmu stigi. Lygarnar sem verið er að vinda ofan af eru algerlega frá árunum fyrir hrunið. Sannleikurinn er fyrir framan okkur og það þarf engan fræðing til að segja okkur núna að málin séu vond. Þetta virðist vera spurning um forgang hvað veltur upp á yfirborðið og þeir sem forgangsraða hafa kannski ekki fulla yfirsýn. Heildarmyndin er skýr. Svona álíka því og verið sé að sökkva í kviksyndi. Því meir sem maður ólmast því hraðar sekkur maður í það.
Gísli Ingvarsson, 26.7.2009 kl. 13:09
Þessi mynd er algjör snilld, og mundi sóma sér vel á stofuvegg.
Að öðru leiti er ég sammála Guðbirni um að það hlýtur að vera einhver áætlun sem unnið er eftir. Mér hefur oft fundist sem það væri búið að taka af okkur sjálfræðið tímabundið. Verst finnst mér að þessar stofnanir virðast halda að það sé hægt að telja okkur trú um að Alþingi og ríkisstjórn eigi að taka ákvarðanir.
Væri ekki betra að við fengjum að vita meira, án þess þó að skaða einhverja hagsmuni.
Hólmfríður Pétursdóttir, 26.7.2009 kl. 14:43
Mér finnst Guðbjörn klárastur. Við erum líka skoðanbræður varðandi ESB umsókn. Skammast mín ekkert fyrir að vera í sama liði og hann þó han sé sjálfsæðismaður einsog amma mín. Við amma fundum alltaf flöt á málinu til að ræða saman í bróðerni. Þannig sjálfstæðismenn vildi ég að finndust fleiri af. Það sem Guðbjörn dregur upp sem áætlun er náttúrulega leyndarmál og mun aldrei verða birt sem sannleikur eða neitt slíkt haldreipi fyrir hina 'vantrúuðu' á ESB og samningaleiðir. Lýðskrumarar á þingi halda því fram að verið sé að steypa okkur í ævarandi glötun. Það gagnast þeim ekki til lengdar. Stapan er of alvarleg til þess.
Gísli Ingvarsson, 26.7.2009 kl. 15:29
Það er enginn vandi að setja fram spekúlasjónir og fantasíur í ætt við það sem Guðbjörn gerir hér meðan stjórnmálamenn halda skilmálum í lánasamningi leyndum fyrir almenningi sem er þó nógu góður til að greiða.
Getur verið að leyndinni sé haldið til að gefa spunameisturum listrænt svigrúm? Það er hvorki hægt að sanna né afsanna raunar ekki frekar en kenningar hans og þó.
Eitt og annað hefur lekið úr stóru möppunni í lokaða herberginu. Ekki bendir það til að allar áætlanir stjórnvalda séu beinlínis úthugsaðar.
Ekki gerir það spunann sennilegri að engar viðræður hafa farið fram milli æðstu stjórnvalda og því ætti yfirplottarinn að vera sjálfur Svavar Gestsson sem væir snillingur en ekki meistari meistaranna í sleifarlagi eins og hann lítur út fyrir að vera.
Ekki passa hótanir Hollendinga vel inn í þessa mynd Guðbjörns.
Og því síður harka samningarmanna Breta sem kröfðust þess að Íslendingar afsöluðu sér griðum ótímabundið og óafturkallanlega.
Mér er mjög til efs að Guðbjörn trúi þessu sjálfur en þó er aldrei að vita.
Sigurður Þórðarson, 26.7.2009 kl. 20:32
Guðbjörn kemur hér fram með skemmtilega greiningu, sem hann hefur kryddað með miklum væntingum um góðmennsku Evrópskra nýlenduherra. Þetta er samt allt rangt hjá honum og ástæðunnar er að leita í þeirri forsendu hans, að við séum að kljást við "vini og bandamenn" sem vilji okkur einungis vel. Ekkert gæti verið fjær sannleikanum og þess vegna er beinlínis heimskulegt að ætla, að góðvilji stýri öllum þvingunum og hótunum gagnvart okkur.
Dettur þér Guðbjörn raunverulega í hug "að allt sé þetta hluti af stórri áætlun til bjargar Íslandi" ??? Við aðrar aðstæður væri þetta góður brandari, en fæstir Íslendingar telja að svo sé. Hvernig dettur þér í hug að einungis Steingrímur J. Sigfússon viti af þessum meinta björgunarleiðangri ? Hvernig geta stórkostlegar álögur í formi Icesave verið hluti af björgun ?
Icesave-tryggingin er álögur sem allir vita að við berum enga ábyrgð á. Það stendur skýrum stöfum í Tilskipun 94/19/EB að Íslendska ríkið ber ekki ábyrgð á innistæðu-tryggingunni. Þetta hefur Seðlabanki Evrópu einnig staðfest í fjölmörgum skýrslum, sem gefnar hafa verið út á síðustu 5 árum eða lengur. Ekki minni maður en Jean-Claude Trichet, bankastjóri seðlabankans og fyrrverandi bankastjóri Seðlabanka Franklands, skrifar undir allar þessar yfirlýsingar.
Allar þínar frómu og nærstum trúarlegu hugleiðingar byggir þú Guðbjörn á "umsnúningi Steingríms J. og sumra félaga hans í VG, í afstöðu þeirra til ESB og AGS". Er hægt að ganga lengra í barnaskap en þú gerir ? Er þér ljóst að með svona stuðningi við Icesave-stjórnina ert þú að vinna þjóðinni mikið ógagn, svo að við nefnum ekki hagsmuni flokksins okkar ?
Loftur Altice Þorsteinsson, 27.7.2009 kl. 10:47
Ég var að velta fyrir mér hvaða hvatir liggi að baki því að sumir EB-sinnar bregða kíkinum fyrir blinda augað en beina hinu sjándi að hillingum í suð-suðaustri?
Sjálfsagt lítur hver sínum augum á silfrið. Stór hópur manna hefur aldrei dýft hendi í kalt vatn og hefur engin bein tengsl við verðmætasköpunina í landinu. Margt sjálfsagt ágætis fólk t.d. listamenn, embættismenn og fólk úr stjórnmálastétt. Enn aðrir t.d. lögfræðingar sjá fyrir sér atvinnumöguleika í fjölgun starfsmanna í ráðuneytum og í Brussel. En einn er sá hópur sem fer stækkandi en í hönum er fólk sem þjáist af skömm fyrir uppruna sínum og heimóttahætti. Það segist ekki líta á sig sem Íslendinga heldur Evrópumenn en hefur megnustu skömm á þeim Evrópumönnum, sem veiða hval og sel svo ekki sé talað um þá sem tína fjallagrös og borða sigin fisk. Í raun skammast það sín fyrir skyldleika við slíkt "afdalahyski" og kýs heldur að boða pítsu og drekka rauðvín.
Sigurður Þórðarson, 27.7.2009 kl. 15:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.