8.8.2009 | 09:20
Siðleysið fullkomnað
Þeir sem harðast hafa gengið fram í því að Íslendingar eigi að samþykkja Icesave-samninginn eins og hann er hafa gjarnan höfðað til siðferðiskenndar landsmanna.
Það sé siðlaust að borga ekki skuldir sínar.
Nýjustu rökin fyrir Icesave virðast vera þau að í raun eigi ekkert að borga þessar skuldir.
Þannig skilur Egill Helgason þessi orð fjármálaráðherra Íslands úr nýlegri Moggagrein:
Eigum við annan skárri kost í stöðunni en að reyna? Skuldari sem gerir heiðarlega tilraun til að borga en óskar svo eftir endurskoðun ef þörf krefur er í annarri stöðu en sá sem neitar að reyna strax í byrjun.
Á bloggi sínu útleggur Egill þetta þannig að við munum hugsanlega aldrei borga Icesave-samninginn nema að hluta - þótt ekki megi segja það upphátt eins og Egill orðar það.
Þess vegna sé ekki byrjað að borga fyrr en eftir sjö ár.
Kannski ráðum við ekkert við þessar skuldir þegar að skuldadögum kemur, segir Egill.
Þetta þykja mér stórtíðindi, ef rétt er.
Ég hef alltaf haldið því fram að það sé siðleysi að láta fólk borga skuldir sem það stofnaði ekki til. Ekki bætir úr skák ef fólkinu er ætlað að borga þær skuldir með peningum sem ekki er víst að það eigi til.
Ef svo bætist við að meiningin sé að borga skuldirnir þannig að í raun eigi aldrei að borga þær nema að hluta er það að mínu mati einstök fullkomnun á siðleysinu.
Og aldeilis til þess fallið að endurvekja traustið á Íslandi.
Mér sýnist á öllu að best sé að tala sem minnst um þetta upphátt.
Myndin: Úr Flateyjardal
Athugasemdir
Er ekki siðleysi að breskur og hollenskur almenningur borgi okkar óráðssíu. Þú hlýtur að viðurkenna að okkar eftirlitsstofnanir hunsuðu allar viðvaranir og brugðust skyldum sínum? Það er mjög myndarlegt af ríkisstjórnum þessara þjóða að greiða helming skuldanna á móti okkur. Auðvitað eigum við að hætta þessu aumingjavæli og standa okkur eins og heiðarlegt fólk. Skárra væri það nú.
Þórdís Bára Hannesdóttir, 8.8.2009 kl. 09:43
Þessi 20% sem vilja borga skuldir Björgólfanna virðist vera 101 fólkið. Nú eða Íslendingar búsettir erlendis.
80% landsmanna segja nei takk, þetta eru ekki okkar skuldir. Síðan gleymist andlegt ástand þjóðarinnar, munu þessi 80% ekki fyllast vonleysi ef við verðum látin taka á okkur þessa skuld án þess að fyrir liggi að okkur beri að gera það skv. lögum?
Vonlaust fólk fyllist ekki bjartsýni og baráttuvilja.
Anna (IP-tala skráð) 8.8.2009 kl. 10:12
Það virðist rugla marga annars vel gefna menn að talað um Icesafe reikningana sem skuld sem við erum ábyrg fyrir. Nær væri að tala um þetta sem skaðabætur. Landsbankinn er íslenskt fyrirtæki sem olli skaða sem því miður fellur á þjóðina vegna þess að íslensk stjórnvöld brugðust. Þegar þeim varð ljóst hversu skaðinn var mikill þá buðust þau til að bæta tjónið án aðkomu dómstóla. Þessvegna erum við í þessari ömurlegu stöðu í dag. Guð blessi Ísland
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 8.8.2009 kl. 23:26
Margrét Sigurðardóttir, 9.8.2009 kl. 19:50
Ég tek undir með Þórdísi sem þykir sjálfsagt að vera "ekki með neitt aumingjavæl" og borga helming launa okkar í sekt fyrir að hafa kosið óábyrg stjórnvöld sem brugðust eftirlitsskyldum sínum. (Reyndar held ég að hún sé nú ekki að kjósa Samfylkinguna í fyrsta sinn) En ég hafna því siðleysi að þessi sömu stjórnvöld og brugðust eftirlitsskyldu sinni ætli að umbreyta ábyrgð sinni í einhverskonar erfðasynd sem þau börn taki út sem kjósa að búa hér.
Það er sannkallað aumingjavæl eða rétta sagt aumingjaskapur.
Sigurður Þórðarson, 10.8.2009 kl. 00:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.