Sjálfstætt Ísland?

DSC_0149

Í hremmingum síðustu mánaða hafa komið fram efasemdir um að Íslendingar séu færir um að stjórna sér sjálfir.

Fámennið sé of mikið á Íslandi og nálægðin þrúgandi.

Ekki minnkar það þann vanda að hér á landi hefur nánast öll stjórnsýsla farið fram á einum bletti á landinu. Þar eru allar helstu stofnanir landsins og öll stærstu fyrirtækin.

Vantrúin á sjálfstæðu og fullvalda Íslandi er að aukast.

Nú síðast ritar Anne Sibert í þeim dúr í þessum skrifum.

Viðhorf hennar eru engin nýmæli - en þess ber að geta að Anne Sibert á sæti í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.

Það hljóta að teljast allnokkur tíðindi þegar kona sem gegnir svo mikilvægum nefndarstörfum fyrir lýðveldið Ísland efast um að það eigi að vera sjálfstætt og fullvalda ríki.

Fámennið og nálægðin eru dæmi um rök með þeim viðhorfum sem Anne setur fram.

Hitt má líka benda á að sagan sýnir að mesta spillingin hefur ekki endilega þrifist í fámennustu og minnstu löndunum.

Stórveldi hafa grotnað í sundur vegna iðandi spillingar.

Svo er líka hægt að bregðast við fámenni og nálægð á annan hátt en með því að afsala sér forræði yfir eigin málum.

En fleira kemur hér til en rök með eða á móti.

Þetta er líka spurning um vilja.

Viljum við hafa Ísland sjálfstætt og fullvalda?

Þegar efasemdir um það eru í efstu stigum íslensku stjórnsýslunnar er ef til vill kominn tími til að taka þá spurningu alvarlega fyrir meðal þjóðarinnar.

Myndin: Myndin er tekin í kirkjugarðinum á Þönglabakka í hinum ægifagra Þorgeirsfirði en þangað lötruðum við í gær. Prestur var á Þönglabakka allt til ársins 1902 og búið var í firðinum fram undir miðja síðustu öld. Græni flekkurinn við fjarðarbotninn gegnt Þönglabakka er held ég bæjartóftirnar á Botni. Þriðja býlið, Hóll, var frammi í firði. Auk þess var búið í Háagerði til ársins 1925, aðeins ofan við Þönglabakka. Fjallið í miðjunni á myndinni er eitt það fallegasta sem ég hef séð. Það glitraði á það í sólinni í gær. Það hlýtur að vera álfametrópól.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Það er eitt af einkennum smæðar að vera ekki hugsi yfir því sem aðrir segja. kv. B

Baldur Kristjánsson, 9.8.2009 kl. 21:41

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

...enda eru dvergríki eins og Bandaríkin alltaf mjög hugsi yfir því sem aðrir segja.

Svavar Alfreð Jónsson, 9.8.2009 kl. 21:43

3 identicon

Glöggt er gests augað.  Það er ágætt að fá smá ábendingar frá "gestum" og við ættum frekar að taka þeim vel en hrökkva í viðkvæmni.  Við erum sennilega, mörg hver, orðin svo samdauna "ástandinu" hér á landi að við viljum ekki sjá sannleikskornið í ummælum Anne Sibert og mætum því með "smáþjóðahroka" eins og víða kemur fram í bloggheimum.

Myndin er frábær hjá þér Svavar og ótrúlega falleg litasamsetningin.

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 10.8.2009 kl. 00:20

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Hver skyldi nú hafa skipað þessa konu?

"Segðu mér hverja þú umgengst og ég skal segja þér hver þú ert"

Sigurður Þórðarson, 10.8.2009 kl. 00:58

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég fæ ekki séð, að þessi próf. Ann Sibert leggi beinlínis til, að við hættum að vera sjálfstæð. Slík hugsun á raunar ekki að nefnast á nafn meðal Íslendinga.

Þeim mun síður ættum við að hlaupa upp til handa og fóta, þótt einhver hnerri slíku upp úr sér, til dæmis útlendingur eins og fr. Sibert, sem skrifar þessa endemis vitleysu í lok tilvísaðrar greinar, í beinu framhaldi tals hennar um Ísland:

"Island officials should get out more

Many very small countries are islands, and thus isolated. It is more difficult for senior officials to travel to a neighbouring country if they live on a remote island than if they live in Luxembourg. This leads to a danger that policymakers in small and far away locations might become insular in their thinking and that they might not have access to advice that their counterparts abroad might offer. It is thus important that senior officials in out-of-the-way locations make an attempt to attend conferences and other professional gatherings abroad."

Hefur prófessorynjan ekki heyrt um hið ferðaörvandi dagpeningakerfi Íslands?! Hvað er hún yfirhöfuð að pontífíkera um íslenzk mál?

Ég vona að hún sé ekki þinn nýi pontifex, Svavar minn Alfreð.

Jón Valur Jensson, 10.8.2009 kl. 02:55

6 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ekki mótmæli ég því að margir ókostir fylgi fámenninu - meðal annars hætta á klíkuskap og samþjöppun valds. Anne er ekki sú fyrsta sem bendir á það. Ég mótmæli því ekki heldur að fólk þurfi að hlusta á aðra - en sé svo sem ekki að valdamiklum stórþjóðum gangi betur að taka ráðum annarra en þeim sem minni eru. Færslan snýst ekki um það - því á sama hátt og það er kostur að hlusta á aðra er það ekki síður kostur að lesa það sem maður gerir athugasemd við.  Það sem mér fannst áhugaverðast við skrif Önnu er spurningamerkið sem hún setur við sjálfstæði Íslands.

Svavar Alfreð Jónsson, 10.8.2009 kl. 09:26

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Og hvað er svona áhugavert við það, séra Svavar?!

Jón Valur Jensson, 10.8.2009 kl. 12:55

8 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

"Það hljóta að teljast allnokkur tíðindi þegar kona sem gegnir svo mikilvægum nefndarstörfum fyrir lýðveldið Ísland efast um að það eigi að vera sjálfstætt og fullvalda ríki,"

segir í færslunni - og í lok hennar:

"Viljum við hafa Ísland sjálfstætt og fullvalda?

Þegar efasemdir um það eru í efstu stigum íslensku stjórnsýslunnar er ef til vill kominn tími til að taka þá spurningu alvarlega fyrir meðal þjóðarinnar."

Lesa, Jón Valur!

Svavar Alfreð Jónsson, 10.8.2009 kl. 12:59

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Og af hverju ættum við að taka þá spurningu alvarlega?

Af hverju ættum við að vera ófærari um að vera með sjálfstætt land en þegar við vorum innan við þrefalt færri? 1918 tókum við fagnandi við fullveldinu, rétt rúmlega 90.000 manns, og upplifðum þó á því ári frostaveturinn mikla, Kötlugos og spænsku veikina.

Taktu ekki undir uppgjafarhyggjuna og landssvikastefnuna!

Jón Valur Jensson, 10.8.2009 kl. 18:52

10 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þú misskilur mig algjörlega, Jón Valur. Mér finnst alvarlegt þegar þetta háttsett kona í íslensku stjórnsýslunni setur fram efasemdir um sjálfstæði Íslands. 

Móðursýki og æsingur hjálpar engum og öskur þín um landssvik skemma bara fyrir góðum málstað.

Svavar Alfreð Jónsson, 10.8.2009 kl. 19:59

11 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ágæti Jón Valur!

Þér er mikið niðri fyrir og vilt að hlutirnir sé klipptir og skornir. Mér er sönn ánægja að því að upplýsa þig um að Svavar Alfreð Jónsson er einn öflugasti talsmaður fjölbreytilekans, sköpunarverksins, eins og trúað fólk nefnir lífið. Þetta gerir hann með beittum en sanngjörnum stíl og sérlega  fallegum  myndum.  Séra Svavar er því sjálfstæðissinni í bestu merkingu þess orðs.

Sigurður Þórðarson, 10.8.2009 kl. 20:30

12 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þakka þér fyrir, Sigurður.

Svavar Alfreð Jónsson, 10.8.2009 kl. 20:35

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég var nú ekki að segja, að séra Svavar væri búinn að lýsa neinum stuðningi við landsvikastefnuna, Sigurður. Mér leizt bara illa á þær efasemdir, sem þarna virtust viðraðar. Fannst réttara af manninum að lýsa eindregnum stuðningi við sjálfstæðið í stað þess að láta menn spá í, hvort farga eigi því eða hvort hann sjálfur sé eitthvað efins.

Mér er það hin mesta ánægja, ef ég veit, að þú, Svavar, situr ekki á garðinum miðjum milli andstæðra viðhorfa í þessu efni. En hróp gegn landsvikastefnu eiga þó við einmitt nú, ef þú skyldir ekki hafa orðið þess var þarna fyrir norðan. Stefna Samfylkingar er sú að afsala okkur mestöllu löggjafarvaldi til Evrópubandalagsins – þú ert væntanlega ekki sáttur við það. Notum því orð við hæfi, þeirra er þörf, eins og sést bezt þegar þau eru niðurstaða góðra rökfærslna.

Gangi þér vel á veginum,

Jón Valur Jensson, 10.8.2009 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband