Stólarnir eða þjóðin?

DSCN1198

Mikið skil ég reiði þeirra sem treystu Landsbankanum í Bretlandi og Hollandi fyrir peningunum sínum. Ég vona svo sannarlega að það fólk verði fyrir sem minnstum skaða.

Í umræðunni hér á landi finnst mér samt stundum eins og að eina fólkið sem tapaði peningum í kreppunni hafi verið breskir og hollenskir viðskiptavinir Landsbankans.

Eina fólkið sem hafi farið illa út úr kreppunni séu fórnarlömb spilltra íslenskra bankamanna.

Sannleikurinn er auðvitað sá að fjöldi fólks um allan heim tapaði stórum fúlgum á bankahruninu vegna viðskipta sinna við íslenska banka og aðra.

Líka hér heima þurfti fólk að horfa á eftir sparnaði sínum.

Og hér heima hefur fólk þurft að horfa upp á virði fasteigna sinna brenna upp, skuldirnar bólgna út, hér heima hefur fólk misst vinnuna og tekið á sig launalækkanir og skattahækkanir.

Ég skil líka vel reiði íslensks almúga - og ekki minnkar hún við það að mörgum finnst að þau sem tekið hafa að sér að gæta hagsmuna fólksins og tala máli þess, virðast gera það andstæða.

Þau leggja ofurkapp á að demba skuldum á íslenska þjóð sem hún stofnaði ekki til og vafamál er hvort hún geti staðið undir.

Nýjasta skýringin á þessu ofurkappi er sú að það verði að samþykkja Icesave-skuldirnar, annars geti vitlausir flokkar komist í stjórn.

Gamla íslenska flokkapólitíkin er komin í málið og þjóðin skal borga - sumir segja allt að þrjúþúsund milljarða króna - til að rétta fólkið tolli í valdastólunum.

Á örlagatímum í sögu þjóðar eiga stjórnmálamenn hennar að slíðra sverðin og hætta að höggvast innbyrðis.

Ef þeir sameinast um að tala máli fólksins og taka málstað þess efast ég ekki um að þeir fá þjóðina með sér.

Byrðarnar léttast á bökum sameinaðrar þjóðar en ekki nema agnarögn þarf til að sliga sundraða.

Og er ekki upplagt að birta viðhafnarmynd af Öxarárfossi með svona skrifum?

Bætt við að kvöldi 11. 8.:

Ég lýsi mikilli ánægju með frammistöðu Ögmundar Jónassonar í Kastljósi kvöldsins. Hann var málefnalegur, æsingslaus, sanngjarn, nærgætinn og skynsamur. Hann peppaði mannskapinn upp og hvatti til samstöðu. Hann safnaði þjóðinni saman en tvístraði henni ekki með þeirri pólitísku heift og þrjósku sem einkennir of marga íslenska stjórnmálamenn.  Sagt hefur verið að kreppur framkalli leiðtoga og slíkur maður sat fyrir svörum hjá Sigmari í kvöld. Áfram Ögmundur!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Vel hugsað og orðað.

Hrannar Baldursson, 11.8.2009 kl. 15:30

2 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Ég held að ef menn halda áfram að ýkja og auka við skuldir vegna Icesave t.d. hér sögð 3.000 milljarðar, þá séu andstæðingar samningsins ekki að gera sér eða andstöðunni við hann neinn greiða nema síður sé. Þegar slíkum upphæðum hefur ítrekað verið varpað fram virkar hin raunverulega upphæð smá, sem hún er svo sannarlega ekki.

Helgi Jóhann Hauksson, 12.8.2009 kl. 12:53

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Ég tek undir hvert einasta orð í þessari færslu og viðbótina um Ögmund líka. Til þessa hefur enginn stjórnmálamaður svarað IceSave spurningum af meiri skynsemi en Ögmundur gerði í Kastljósinu.

Haraldur Hansson, 12.8.2009 kl. 13:00

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Helgi Jóhann: Einhverjir sögðu að ef við samþykktum ekki Icesave-samninginn eins og hann er undanbragðalaust yrði hér efnahagslegt stríðsástand og Ísland yrði eins og Norður-Kórea og Kúba.

Ég held að það hafi verið prófessor við Háskóla Íslands.

Þess má geta að fyrir stuttu ríkti hungursneyð í Norður-Kóreu og fólk á að hafa lagt sér mannakjöt til munns.

Ýkjur eru aldrei góðar, það er rétt athugað - enda segi ég í færslunni að sumir segi að Icesave geti kostað allt að 3.000 milljarða króna.

Þú getur lesið allt um það hér.

Þakka ykkur svo öllum prýðilegar athugasemdir.

Svavar Alfreð Jónsson, 12.8.2009 kl. 13:22

5 Smámynd: Soffía Valdimarsdóttir

Ögmundur kom skemmtilega á óvart - aðdáunarverð skynsemi og festa.

Soffía Valdimarsdóttir, 12.8.2009 kl. 14:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband