12.8.2009 | 15:24
Eins og í útlöndum
Heimskur er sá sem aldrei fer að heiman og ekkert sér nema heima hjá sér.
Það er að minnsta kosti jafn mikil heimska að sjá ekkert nema í hillingarbláma fjarlægðarinnar.
Oft heyri ég talað um að eitthvað sé "eins og í útlöndum".
Þá hafa menn séð eitthvað á Íslandi en finnst að það sé eins og í útlandi og þar af leiðandi ekki á Íslandi.
Breiðar götur, margir bílar, stór hús, fjöldi verslana og mengun er að margra mati eins og í útlöndum.
Svækjuhiti og brennandi sól er eins og í útlöndum.
Stress og hraði er eins og í útlöndum.
Fátt líkist útlöndum minna en íslenska strálbýlið.
Þar er fátt um byggingar og þær jafnan lágreistar. Þar eru götur ræfilslegar og nánast engar verslanir. Þar eru engin mislæg gatnamót. Bara gnauðandi rimlahlið. Þar eru karlarnir með alskegg og konurnar í flíspeysum með ískrandi barnavagna á leið í kaupfélagið sem fór á hausinn á síðustu öld. Þar er súld og svo mikil og seig þoka að hún kæfir hraðann.
Ég hef búið í útlöndum. Þar finnst sumu fólki eftirsóknarvert að búa á þeim svæðum sem líkjast íslenska dreifbýlinu.
Sennilega vegna þess að Ísland er útland ef þú ert í útlöndum.
Myndin: Þetta íslenska eyðibýli er ekki eins og í útlöndum nema þú sért þar.
Athugasemdir
Þetta er alveg rétt. Mér finnst ég allt og oft heyra setningar eins og "þetta þekkist nú hvergi á byggðu bóli nema á Íslandi" eða "það verður að kalla til erlenda sérfræðinga". Auðvitað er gott að vera víðsýnn en það er ekki endilega trygging fyrir því að menn séu snillingar þó þeir tali útlensku. Við eigum að hafa trú á sjálfum okkur án þess að vera montin. Við eigum að læra af öðrum en ekki án gagnrýni.
Þorsteinn Sverrisson, 12.8.2009 kl. 21:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.