21.8.2009 | 09:50
Við fáum tapið af gróðanum
Í gær fjallaði leiðari Fréttablaðsins m. a. um hina misheppnuðu frjálshyggjutilraun íslenskra stjórnvalda og nauðsyn þess að þjóðin axlaði ábyrgð á henni - eins og til var vitnað í næstu bloggfærslu hér á undan.
Himinhá laun og fáránlegir bónusar var eitt af því sem einkenndi frjálshyggjutilraunina miklu sem íslenskum almenningi er ætlað að bera ábyrgð á og borga fyrir samkvæmt leiðara Fréttablaðsins í gær.
Leiðari Fréttablaðsins í dag ber yfirskriftina "Jákvæðir bónusar".
Ég held að hann sé skrifaður af sama manni og vildi í gær láta íslenskan almenning bera ábyrgð á frjálshyggjutilrauninni.
Í leiðaranum er kerfi hinna himinháu bónusa varið með kjafti og klóm. Ekkert sé að því.
Gripið er til fornfrægra frjálshyggjufrasa og sagt orðrétt:
Þetta er gott kerfi því allir græða.
Leiðarahöfundur lætur þess reyndar ekki getið að fólk er að græða "mismikið" - svo vægt sé til orða tekið.
Nýjasta dæmið er Straumshneykslið. Þar ætluðu stjórnendur að græða allt að tíu milljarða króna fyrir vinnu sína. Ofan á launin sín.
Forstjórinn hefur að mér skilst fjórar milljónir í mánaðarlaun.
Gróði íslensks almennings er svo auðvitað tapið af frjálshyggjutilrauninni þegar hún misheppnast.
Nýjasta dæmið um það er Icesave. Þar er alveg dýrlega háum tapupphæðum velt yfir á hin breiðu bök okkar sem aldrei fengum neina bónusa eða kaupauka - nema tapið af öllum gróðanum.
Við verðum að axla ábyrgð og megum aldrei gleyma því að
kerfið er gott
því allir græða.
Myndin er frá Hólum í Hjaltadal.
Athugasemdir
Frasinn skammsýni um að græðgi sé góð er ekki dauður úr öllum æðum og þessi leiðari undarleg skrif.
Georg P Sveinbjörnsson, 21.8.2009 kl. 13:54
Fréttablaðið er ekki ljós lífs míns. Frjálshyggjan, upphafning græðginnar eins og ég skynja hana er ekki draumaland heldur óguðlegt "fenjasvæði siðblindunnar".-
Sigurður Þórðarson, 23.8.2009 kl. 00:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.