Stóraukin framleiðsla á lúserum

DSC_0066 

Margir virðast líta á skuldara landsins sem hálfgerða afbrotamenn.

Frá ráðamönnum þjóðarinnar  heyrist að þeir sem skuldi peninga hafi farið of hratt, lifað um efni fram, reist sér hurðarás um öxl og gleymt sér í góðærinu, svo ég grípi suma frasana.

En skuldir landsmanna stafa ekki bara af kaupum á hömmerum og flatskjáum.

Ungt fólk var líka að kaupa sér þak yfir höfuðið, notaði sparnað sinn í útborgunina og fékk afganginn að láni.

Nú hafa fasteignalán þessa unga fólks tvöfaldast en verðmæti íbúðanna snarminnkað.

Í sumum tilvikum er skuldin orðin hærri en andvirði íbúðarinnar.

Fjölmargir lántakendur hafa auk þess lækkað í launum og enn aðrir misst vinnuna.

Þessa dagana er þetta fólk að koma til okkar prestanna og á ekki fyrir skólabókum handa börnum sínum.

Og þetta er fólkið sem fær skilaboðin um að skuldarar Íslands séu hálfgerðir glæpamenn sem beri ábyrgð á efnahagshruninu.

Þeir skuldarar sem enn halda launum sínum óskertum heyra það frá hinum háu herrum að búið sé að reikna út að þeir geti borgað þessi brjálæðislán og því sé ekki nema sjálfsagt að þeir greiði þau.

Þótt blessað fólkið geri ekki annað næstu 40 árin.

Sömu rökin voru reyndar notuð í Icesave-málinu. Þar héldu stjórnvöld því fram að almenningur ætti að borga ofurlánin vegna þess að Seðlabankinn væri búinn að reikna út að hann gæti borgað þau.

 Þótt þjóðin gerði ekki annað næstu áratugina.

Lúserar góðærisins áttu hvorki hömmer né flatskjá.

Stjórnvöld hafa nú stóraukið framleiðslu á niðurbrotnu fólki og tryggja með því nóg framboð af lúserum á Íslandi framtíðarinnar.

Myndin: Í dag var siglt á Pollinum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árelíus Örn Þórðarson

Þú kemst kjarnyrt að sannleikanum.  Fínar hugleiðingar hjá þér beint frá hjartanu.

Þetta kemur vonandi í ljós á næstu mánuðum í hvað stefnir.  Vonandi sjá stjórnvöld að sér þannig að lina megi hörmungar þær sem margir landar okkar ganga í gegnum um þessar mundir og vandinn fer ört versnandi.

Árelíus Örn Þórðarson, 2.9.2009 kl. 23:37

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Núkann ég betur við þig. Svona hljómar það, þegar hjartað talar.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.9.2009 kl. 23:44

3 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þakka þér, Jón Steinar. Við sofnum sáttir.

Svavar Alfreð Jónsson, 2.9.2009 kl. 23:47

4 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Góð grein og hræðilegt ástand en við verðum líka að athuga okkar gildi. 

Er það eðlilegt að fólk komi beint úr námi og fari að kaupa sér hús og bíla eins og var á Íslandi.  Í flestum okkar nágrannalöndum þarf fólk að spara í 5 til 10 ár eftir að það kemur úr námi áður en það getur keypt sér íbúð hvað þá hús.

Það er hvergi á þessar jörðu hægt að koma úr námi og kaupa sér 250 fm hús og tvo jeppa allt á lánum eins og hægt var að gera á Íslandi.

Hvað með þá sem voru varkárir og spöruðu eiga þeir nú að borga fyrir hina?  Er það  réttlátt? 

Andri Geir Arinbjarnarson, 3.9.2009 kl. 15:05

5 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Mér finnst ósköp eðlilegt að fólk sem er búið í námi og byrjað að vinna geti með einhverju móti keypt sér þak yfir höfuðið.

Skuldarar Íslands eru alls ekki allir með 250 fermetra hús og tvo jeppa á lánum. Það er held ég mikil þjóðsaga og einföldun á ástandinu.

Svavar Alfreð Jónsson, 3.9.2009 kl. 15:35

6 Smámynd: Aðalheiður Haraldsdóttir

Heyr, heyr!

Í nágrannalöndunum er líka auðveldara að spara þar sem kaupmátturinn er mun meiri og öflugur og góður leigumarkaður gefur ungu fólki fleiri valkosti en að kaupa fasteign.  Sjálf bý ég í leiguhúsnæði í Svíþjóð og dettur ekki í hug að fara að kaupa!

Aðalheiður Haraldsdóttir, 3.9.2009 kl. 16:37

7 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Í framtíðinni mun unga fólki hafa tvo kosti:

1. Flýja land og spara og/eða eignast hús þar sem kaupmáttur er meiri, vextir lágir og gjaldmiðill stöðugur

2. Búa á Íslandi við minnkandi kaupmátt og í lítilli leiguíbúð.  Bankar munu ekki lána nema til fólks með miklar tryggingar.  Íbúðarlánasjóður mun lána en mun gera stífari kröfur um greiðslugetu.  Það verða fáir sem koma úr námi og geta tekið 20 m lán.  Til að fá 15 m lán þurfa heimilistekjur að vera um 700,000 á mánuði svo fólk lendi ekki í vandræðum.  Bílalán munu heyra sögunni til enda munu nýir bílar verða of dýrir fyrir flesta Íslendinga.

 Þar sem byggingarkostnaður hefur hækkað gífurlega á meðan kaupmáttur hefur hrunið verður mesta áherslan lögð á að  byggða ódýrar 2-3 herbergja íbúðir hér í framtíðinni.

Fasteignaverð á stórum eignum og sumarhúsum mun hrynja og ná lágmarki eftir um 5 ár.   Eina vonin um hækkun er þegar við fáum evruna og útlendingar fara að kaup upp sumarhús hér á landi.

Andri Geir Arinbjarnarson, 4.9.2009 kl. 06:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband