6.9.2009 | 11:47
Realpólitískt raunsæi
Nú eru íslenskir stjórnmálamenn farnir að leggja stund á það sem þeir kalla realpólitík.
Realpólitíkusar eru engir skýjaglópar heldur með báða fætur á jörðinni.
Menn geta haft ákveðna pólitíska sannfæringu en hafi þeir ennfremur aðra algjörlega andstæða sannfæringu er hún mjög sennilega realpólitísk.
Dæmi: Enda þótt menn aðhyllist þá pólitík að vera á móti aðild Íslands að ESB geta þeir hæglega aðhyllst þá realpólitík að sækja um aðild að ESB.
Realpólitíkusar sjá veröldina eins og hún er, ekki eins og hún gæti orðið eða hefði átt að vera.
Sá galli er reyndar á hinni realpólitísku sýn að við sjáum veröldina ekki eins og hún er.
Við túlkum það sem við sjáum og heyrum. Við notum þekkingu okkar, gildismat og fordóma til að vinna úr því sem fyrir augun ber.
Þetta gera stjórnmálamenn ekkert síður en aðrir og realpólitíkusar eru þar ekki undanskildir.
Það sem við sjáum og heyrum er alltaf að einhverju leyti það sem við viljum.
Nú ætla stjórnmálamenn að láta almenning borga ofurskuldir einkafyrirtækja.
Það er realpólitík, er okkur sagt um leið og við erum beðin að opna veskin.
Okkur er sagt að við eigum að borga enda sé búið að reikna út að við getum borgað.
Sannleikurinn á bak við þá realpólitík er á hinn bóginn sá að við erum látin borga vegna þess að realpólitíkusarnir vilja að við borgum.
Það realpólitíska raunsæi lýsir sér í því að eiga enga ósk heitari en að almenningur fái að borga skuldir sem hann stofnaði ekki til með peningum sem hann á ekki til.
Myndin: Haustblíðan í Djúpadal í gær. Horft fram í Kambfell.
Athugasemdir
Sæll Svavar. Þetta er hverju orði sannara hjá þér. Ég tók eftir að Þorsteinn Pálsson hældi Steingrími J. Sigfússyni fyrir "ábyrga stjórnun" sem gengur reyndar þvert á yfirlýsta skoðun VG og umrædds ráðherra frá fyrstu tíð og fram að kosningunum síðast. Alveg ótrúlega kaldhæðnislegt að mínu mati. kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 6.9.2009 kl. 23:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.