Bjór og skoðanir

DSC_0044 

Fæstir fá sér eina bjórdós í ríkinu. Menn kaupa bjórinn í kippum þótt þeir ætli bara að fá sér einn.

Skoðanir mynda menn líka gjarnan í kippum.

Þú aðhyllist eina og færð margar með.

Það er ekkert öruggt að röklegt samhengi sé á milli hinna einstöku skoðana í kippunni.

Í Bandaríkjunum eru til dæmis  flestir fylgjendur frjálsra fóstureyðinga andvígir dauðarefsingu.

Hinir, sem segja lífið heilagt og því megi alls ekki eyða því, eru ósjaldan hlynntir dauðarefsingu.

Hér á Íslandi hafa mál þróast þannig, svo dæmi séu tekin, að helst þeir sem eru andvígir afskiptum ríkisins af markaðnum vilja að ríkið setji lög um eignarhald á fjölmiðlum.

Þeir sem á hinn bóginn hvetja til þess að ríkið skipti sér af markaðnum mega ekki heyra á það minnst að ríkið sé að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum.

Á Íslandi eru helstu andstæðingar einkaframtaksins nú um stundir jafnframt háværustu hvatamenn þess að skuldum einkafyrirtækja sé velt yfir á almenning.

Mestu aðdáendur einkaframtaksins sjá hins vegar rautt þegar ríkið ætlar að koma einkaframtakinu til bjargar með þeim hætti.

Hér hafa menn líka galað hátt um hættur hins ábyrgðarlausa athafnafrelsis. 

Mér sýnist stór hluti þeirra gala enn hærra þegar bent er á hættur hins ábyrgðarlausa tjáningarfrelsis.

Stundum læðist að manni sá grunur að skoðanakippa hljóti að hafa myndast eftir neyslu margra bjórkippna.

Myndin: Möstur, vitar og kirkjuturnar eiga ýmislegt sameiginlegt eins og sjá mátti á hinni krúttlegu Raufarhöfn eina ágústnóttina í sumar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband