Varúð! Viðskiptafréttir!

DSC_0198 

Í sjónvarpsfréttum kvöldsins heyrði ég um Exista og Bakkavör.

Einnig fékk ég nýjustu tíðindin af athafnamanninum Ólafi Ólafssyni.

Þetta voru býsna digrar fréttir. Mikið kjöt á beinunum, vænir skammtar af upplýsingum og fjölbreytt myndefni.

Ég verð samt að viðurkenna að ég skildi hvorki upp né niður í þessum fréttum.

Ég var engu nær og mér líður ekkert skár. 

Undanfarin ár hefur uppstyttulaust rignt yfir okkur alls konar hagtíðindum úr fjölmiðlum landsins.

Fréttatímar ljósvakamiðla voru meira og minna lagðir undir gengi hlutabréfa og flókna fjármálagjörninga.

Kvöldbænir á heimilunum lögðust af en enginn gat gengið til hvílu án þess að vera rækilega upplýstur um gengið á nassdagg og fútsjí.

Dagblöðin gáfu út bisnesskálfa sem voru á góðri leið með að verða jafn stærri beljum sínum og bankarnir ríkinu.

Aldrei í sögu þjóðarinnar hefur henni staðið til boða annað eins magn af upplýsingum úr veröld viðskiptanna og á undanförnum árum.

Og aldrei í sögu þjóðarinnar hefur hún farið ömurlegar út úr viðskiptum en á þeim sömu undanförnu árum.

Sennilega hefur þjóðin aldrei vitað minna um það sem raunverulega skiptir máli í viðskiptum en á þessum tíma, þegar stanslaust var dælt í hana upplýsingum um viðskipti.

Eftir alla þessa bisnessfréttabunu er þjóðin engu nær - nema þá kannski eigin gjaldþroti.

Ár hinna þrotlausu hagtíðinda enduðu með því að hagurinn komst í þrot.

En heyrt hef ég að mörgum gangi betur að sofna með bænarorð á vörunum en nasdagg í eyrunum.

Þessari mynd af þingeyskum himni náði ég nýlega uppi á Fljótsheiði. Mývetnsku fjöllin bíða stolt í fjarska.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hef einmitt verið að hugsa þetta sama; gríðarmagn af mjög svo tæknilegum fréttum, sem krefjast mikilla og afar nákvæmra upplýsinga. Yfirleitt stendur maður eftir með fleiri spurningar en svör eftir fréttatímann og jafnvel þá fölsku öryggiskennd, að fyrst búið sé að segja frá með einhverjum hætti þá hljóti þar til gerðir embættismenn eða stjórnmálamenn að standa á hliðarlínunni reiðubúnir til að taka í taumana. Því hefur hins vegar ekki verið að heilsa fram að þessu.

Kristinn Jens Sigurþórsson (IP-tala skráð) 17.9.2009 kl. 09:50

2 identicon

Takk fyrir pistilinn, segjum tveir með skilninginn á fréttunum af Exista, Bakkavör og Ólafi ég var engu nær frekar en þú.   Kveðja HK

Heiðar Kristinsson (IP-tala skráð) 17.9.2009 kl. 10:02

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þessir athafnamenn eru gjörsamlega siðblindir, meira og minna. Í þeirra augum er hugsunin að kaupa að borga aldrei með reiðufé, heldur lánsfé sem þeir hafa einhvers staðar náð að skrapa saman. Og hvað gerðu þeir Exista menn til að ræna heiðarlegt fólk sparnaði sínum? Þeir einfaldlega þynntu út hlutina, juku hlutaféð um eina 50 miljarða og hvernig fóru þeir að því? Jú þeir greiddu með hlutafé í öðru fyrirtæki sem þeir höfðu fengið auðtrúa endurskoðendur til að kjapta upp meiri verðmæti en þaessi hlutabréf voru raunverulega virði.

Svona hafa kaupin gerst á þessari viðskipta Eyri. Við sem vorum grunlaus að verið væri að féfletta okkur, við uggðum ekki að og skaðinn er skeður.

Væntanlega verður kvörn réttarfarsins látin vinna sig aftur í að upplýsa hvað raunverulega gerðist og hver beri ábyrgð. Ætli þessir herramenn verði jafn sprækir þá þegar krumlur refsiréttarins ná að festa sig í þeim?

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 17.9.2009 kl. 10:20

4 identicon

Sæll Svavar.

Mikið er ég sammála þér. Fréttirnar eru farnar að minna á ruglið fyrir hrunið. Þá sagði ég einhvern tímann að þetta væri húslestur nútímans. Því miður finnst mér allt vera að færast í fyrra horf - nema hagur alþýðu manna.

Gísli Gunnarsson (IP-tala skráð) 17.9.2009 kl. 10:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband