20.9.2009 | 20:51
Hundleitt skuldunaut
Ég er orðinn hundleiður á ísklafamálinu eins og sennilega margir fleiri.
Ég tek undir að leiða verði það til lykta.
En þótt ég sé hundleiður á ísklafamálinu er tvennt sem fer jafnvel enn meira í taugarnar á mér.
Í fyrsta lagi öll hin ægilega og þrúgandi leynd sem hvílir á ísklafamálinu. Stjórnvöld hafa reynt að sveipa það huliðsblæju alveg frá því í byrjun þess. Og þá alveg sérstaklega þeir sem hæst töluðu um að hér ætti að "fá allt upp á borðið".
Það er ósköp fátæklegt þetta margumtalaða borð þeirra.
Nú er enn lagt af stað undir leyndarhjúpnum.
Bresk og hollensk stjórnvöld hafa sumsé brugðist við fyrirvörunum sem Alþingi setti við ríkisábyrgð á ísklafasamninginn.
Upphaflega vildu stjórnvöld fá ábyrgðina samþykkta án þess að samþykkjendur hefðu séð ísklafasamninginn.
Það tókst ekki.
Þegar tókst að spúla felulitina af samningnum átti að samþykkja hann fyrirvaralaust.
Það tókst ekki heldur.
Næst áttu bresk og hollensk stjórnvöld að samþykkja fyrirvarana fyrirvaralaust.
Nú þegar það virðist ekki ætla að ganga upp á allt að vera leyndó og þeir einir mega tjá sig um samninginn sem upphaflega vildu halda honum öllum leyndum fyrir alþjóð.
Hitt atriðið sem ég læt pirra mig enn meira en ísklafasamninginn er dugleysi þeirra sem eiga að standa vörð um hagsmuni íslenskrar alþýðu.
Ég hef enn ekki fengið viðhlýtandi svör við því hvers vegna í ósköpunum íslenskum stjórnmálamönnum er svona mikið kappsmál að íslenskur almenningur verði látinn borga "skuldir óreiðumanna" (svo notað sé orðfæri manns sem virkar eins og rauður dúkur á ákveðna tegund skuldunauta).
Myndin: Hún er leyndardómsfull þokan á Möðrudalsöræfum. Þegar pólitíkusar leggjast í þokuframleiðslu er ástæðan sú að þar á margt að fá að búa.
Athugasemdir
Heyr Heyr!
Kolbrún Heiða Valbergsdóttir, 21.9.2009 kl. 12:50
Góð grein hjá þér Svavar.
Best væri að láta dómstóla klára málið.
Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 21.9.2009 kl. 20:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.