Fórnarlambafabrikkan

Við Kirkjustein 

Sum börn eru matvönd. Öðrum finnst ekki gott að borða í stórum hópum. Enn önnur fella sig ekki við matseldina í skólamötuneytinu.

Svo eru það börn sem eiga fátæka foreldra. Þau geta vel hugsað sér að borða í skólanum en foreldrarnir hafa ekki efni á því. Og slíkum börnum fjölgar núna í kreppunni.

Ég veit að í skólunum er allt gert til að koma til móts við þessi börn.

En við verðum að standa saman í þessu, foreldrar og skóli. Það má ekki gerast að svangt barn verði að horfa upp á önnur börn borða í skólunum okkar.

Vissulega verður fólk að bera sig eftir björginni en við megum samt ekki hafa kerfið þannig að fátækt fólk þurfi alltaf að vera á hnjánum.

Því miður er ástandið þannig í þjóðfélaginu að stórir hópar eru búnir að missa sjálfsvirðinguna. Þar á meðal er ungt fólk, heilbrigt, reglusamt og fullt af starfsorku.

Og þessi óheillaþróun byrjaði ekki í hruninu. Ójöfnuðurinn í þjóðfélaginu hefur verið að aukast síðustu árin, bilið milli þeirra ríkustu og fátækustu.

Hættan er sú að í núverandi efnahagsástandi fjölgi þeim enn sem hafa ekkert sjálfsálit.

Úrræði stjórnvalda og stofnana mega ekki fela í sér fjöldaframleiðslu á lúserum og fórnarlömbum.

Við getum þolað þetta hrun og allan þann missi sem því fylgir.

En við megum ekki við því að glata sjálfsvirðingunni.

Myndin: Kirkjusteinn í Kjarnaskógi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eva

Mikið er ég  sammála þér með skólamatinn, mér finnst að öll börn eigi að sitja við sama borð í þeim efnum.

Eva , 23.9.2009 kl. 23:56

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Rétt hjá þér Svavar. Sú var tíðin að við hældum okkur af því að búa í óstéttskiptu samfélagi. Fyrir fáeinum áratugum vakti það mikla athygli og aðdáun útlendinga að Dagsbrúnarmenn kepptu í skák við stúdenta og jafnræði var með liðunum.

Í dag var kynnt í fræðsluráði Reykjavíkur könnun sem sýndi að 75% barna í tónlistarnámi eiga að foreldra sem lokið hafa háskólanámi.  Ójöfnuðurinn mun aukast á næstunni vegna niðurskurðar.  

 Á sama fundi var upplýst að fjarkennsla í landinu verður lögð af og með því sparast einungis 100 milljónir. Samt hafa útgjöld til menntamála aukist um 40% að raungildi á 10 árum sem eru smámunir í samanburði við utanríkisþjónustuna.  Á hvaða vegferð erum við?

Sigurður Þórðarson, 24.9.2009 kl. 00:27

3 identicon

Hárrétt hjá þér. Það er þyngra en tárum taki að börn geti ekki borðað í skólanum vegna fátæktar foreldra. Mér finnst einnig átakanlegt að foreldrar eigi ekki fyrir námsgögnum, en það hlýjaði þó að sjá samhjálp í verki þegar safnað var fyrir námsgögnum. Það sem gerir mig ansi pirraðan er að sjá að menntamálaráðherra skuli brenna 1,2 milljónum í bíóferð á sama tíma og þetta er að eiga sér stað, sbr: http://www.visir.is/article/20090925/FRETTIR01/744149790.

Ófeigur Örn Ófeigsson (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 22:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband