27.9.2009 | 21:16
Hvað málar ást?
Orð eru til alls fyrst.
Guð nálgast okkur samt ekki bara í orðum.
Við getum upplifað kærleika hans, skynjað hann eins og þegar sólin vermir andlitið.
Stundum eiga engin orð við. Þegar við verðum fyrir áföllum höfum við ef til vill ekki mesta þörf fyrir einhver orð. Hlýtt handtak, upppörvandi bros og opinn faðmur segir stundum allt sem segja þarf.
Kannski talar Guð oftast til okkar án orða?
Séra Matthías gerir þetta að yrkisefni í einum sínum fegursta sálmi:
Hvað er það ljós, sem lýsir fyrir mér
þá leið, hvar sjón mín enga birtu sér?
Hvað er það ljós, sem ljósið gjörir bjart
og lífgar þessu tákni rúmið svart?
Hvað málar "ást" á æsku brosin smá
og "eilíft líf" í feiga skörungs brá?
Hvað er þitt ljós, þú varma hjartans von,
sem vefur faðmi sérhvern tímans son?
Guð er það ljós.Hver er sú rödd, er býr í brjósti mér
og bergmálar frá öllum lífsins her,
sú föðurrödd, sem metur öll vor mál,
sú móðurrödd, er vermir líf og sál,
sú rödd, sem ein er eilíflega stillt,
þó allar heimsins raddir syngi villt,
sú rödd, sem breytir daufri nótt í dag
og dauðans ópi snýr í vonarlag?
Guð er sú rödd.Hver er sú hönd, er heldur þessum reyr
um hæstan vetur, svo hann ekki deyr,
sú hönd, sem fann, hvar frumkorn lífs míns svaf,
sem fokstrá tók það upp og líf því gaf,
sú hönd, er skín á heilagt sólarhvel
og hverrar skuggi kallast feikn og hel,
sú hönd, er skrifar lífsins lagamál
á liljublað sem ódauðlega sál?
Guð er sú hönd.
Myndin: Veturinn er búinn að panta sér far hingað norður og er væntanlegur. Hann minnti á sig í dag.
Athugasemdir
Góð orð og falleg mynd. Hafðu þakkir.
Guðmundur St Ragnarsson, 28.9.2009 kl. 11:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.