29.9.2009 | 21:01
Græðgin tamin
Í nýlegu tölublaði þýska tímaritsins Spiegel (38/2009) er viðtal við Íslandsvininn góðkunna Dominique Strauss-Kahn, forstjóra AGS.
Kallinn á þar snarpa spretti.
Hann sagði meðal annars frá kvöldverði sem þáverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Hank Paulson, hélt toppbankamönnum nokkrum mánuðum áður en Lehman Brothers bankinn fór á hausinn.
Þá var vitað að framundan væru þrengingar og einn bankaforstjóranna sagði:
"Við höfum verið of gráðugir. Þess vegna þurfum við strangari reglur til að temja græðgi okkar."
Strauss-Kahn sagði að fjármálakreppan hefði ekki verið náttúruhamfarir heldur af völdum manna. Lexían sem hún kenndi okkur væri þessi:
Markaðshagkerfið þarf reglur. Án þeirra er það ekki starfhæft. Kenningar frjálshyggjunnar um helst ekkert regluverk og að markaðurinn sjái sjálfur um að leiðrétta sig líta vel út á pappírnum en í veruleikanum virka þær ekki.
Og forstjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins kemst að sömu niðurstöðu um manninn og við guðfræðingarnir:
Breyskleiki mannsins ber skynsemi hans ofurliði.
Myndin er af nægjusömum könglum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.