Bréf frá Kolja

DSC_0381 

Á ársafmæli hrunsins rifja ég upp bréf sem vinur minn, Kolja Schmidt, sendi mér skömmu eftir að ósköpin dundu yfir.

Síðast þegar ég vissi var Kolja á fullu í stúdentapólitíkinni í Bochum og starfaði einnig með áhugamannaleikhúsi þar í borg.

Hann leyfði mér að nota búta úr bréfinu.

Fyrir ári benti Kolja mér á að kreppan væri ekki bara á Íslandi. Alls staðar lýsti hún sér meðal annars í því að þeir hlypu í felur sem búnir væru að fylla vasana sína.

Og þeir sýnilegu væru á fullu að leika fórnarlömb.

Kolja batt miklar vonir við að á Íslandi yrði hreinsun.

Hann var viss um að við Íslendingar gætum fundið nýtt og betra þjóðfélagsmódel.

Hann sagði að eyru heimsins væru opin fyrir hugmyndum okkar og tillögum.

Hann lofaði mér því að ef við Íslendingar þyrðum að gera tilraun með nýja og betri þjóðfélagsgerð, sem hvorki fælist í kommúnisma né nýfrjálshyggju, myndi heimurinn fylgjast spenntur með.

Kolja benti á að til væru aðrar leiðir út úr kreppunni en með USA eða ESB og ef einhver gæti fundið þær væru það Íslendingar.

Hann endaði bréfið á þessum orðum:

Ihr seid nicht die Opfer am Rande dieser Weltkrise - Ihr seid die Hoffnung der Völker auf einen neuen Anfang.

Sem gæti útlagst: 

Þið eruð ekki fórnarlömbin á jaðri þessarar heimskreppu - þið eruð von þjóðanna um nýtt upphaf.

Nú er sem sagt ár liðið frá því að ég fékk þetta bréf.

Lítið hefur breyst á Íslandi. Auðmennirnir eru nánast enn þeir sömu. Þeir halda sínum eignum.

Þeir eiga ennþá megnið af fjölmiðlunum og geta stjórnað umræðunni ef þeim sýnist.

Ennþá ástunda stjórnmálamennirnir það sport sitt að blekkja almenning og fela sannleikann.

Ennþá verða þeir fátæku fátækari og þeir ríku ríkari.

Í stað þess að Íslendingar stæðu saman um endurreisn á nýjum grunni er unnið að því að taka völdin af þjóðinni og afhenda þau erlendum stofnunum.

Ennþá höfum við sömu gömlu leikendurna, sömu stjórnmálamennina, sömu auðmennina, sama fjölmiðlafólkið, sömu gömlu þreyttu álitsgjafana og sama gamla nöldrið.

Svona er nú staðan á ársafmælinu, góðir Íslendingar.

Til hamingju með daginn!

Myndina tók ég í Kjarna í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Hann Kolja vinur þinn er metnaðarfullur fyrir okkar hönd,  frumlegur og haldinn sköpunargleði, það eru fæstir stjórnmálamenn okkar, því miður.

Þeirra hæfileikar liggja í að verða sér út um atkvæði, ganga í bandalög og sverja eið að samtryggingu. 

Ég sé merki þess að þetta sé að lagast. Ísklafamálið eins og þú kallar það er fyrsta málið sem ég man eftir þar sem þingið tekur ráðin af ríkisstjórninni.  Ömmi er að opna á þetta á nýjan leik. Bretar og Hollendingar munu því ef til vill gera okkur þann greiða að þvinga okkur til að beita frumlegri hugsun.

Sigurður Þórðarson, 1.10.2009 kl. 23:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband